Mick Jagger á fullri ferð um sviðið

„Tónleikarnir, voru í einu orði sagt frábærir, mun betri en ég átti von á af því að þetta eru fullvaxnir menn eins og maður segir“, sagði Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri á Suðurnesjum og Rolling Stones aðdáandi. Hann er nýkominn heim af Stones tónleikum í Kaupmannahöfn.  Hann segir að tónlist hljómsveitarinnar hafi verið hrárri en hann hafi átt von á. „Það var eins og það væri nýr tónn í þessu. Ótrúlegt“ segir hann með aðdáun þegar Lifðu núna tók hann tali til að spyrja um tónleikana. Hann hefur sótt yfir 30 tónleika með Rolling Stones. „Ég held að þessir hafi verið númer 33, en get staðið við að þeir hafi verið númer 32“, segir hann.

Ólafur Helgi  er einn þekktasti Stones aðdáandi landsins. Hér á mynd með Mick Jagger árið 1999

Just your Fool kom út fyrst sama árið og ég fæddist

Ólafur Helgi segir að hljómsveitin hafi byrjað á Sympathy for the Devil og endað á Satisfaction.  Þeir hafi líka spilað lagið Under my Thumb frá 1966, en það lag sé orðið rúmlega hálfrar aldar gamalt. „Svo tóku þeir líka lagið Just your Fool, sem kom út fyrst árið 1953, sama árið og ég fæddist. Sennilega var það elsta lagið sem var spilað þarna. Þeir tóku svo líka nýlega upptekin blues lög og lög af plötunni Goats Head Soup, sem kom úr árið 1973 og mörg gömul og góð lög eins og til dæmis Honky Tonk Woman og  Paint it Black. Þetta var skemmtilegra en ég átti von á“, segir Ólafur Helgi. „Ef ég á að nefna besta Rolling Stones lagið væri það Gimme Shelter, sem var næst síðasta lagið á tónleikunum. Það er að mínu mati þeirra besta lag, en það er ekki víst að allir séu sammála því“.

Mick Jagger orðinn 74ra ára

Ólafur Helgi segist hafa gaman af að fara á tónleika. „Ég segi stundum í gríni að ég ætli að sópa þeim upp áður en þeir deyja, þessum gömlu“, segir hann en bætir við að það eigi ekki við um Rolling Stones. Þetta verði ekki síðasta árið sem þeir spili. Yngsti félagi Rolling Stones, Ronnie Wood er sjötugur, kvæntur konu sem er 39 ára gömul. Þau eiga saman eins og hálfs árs tvíbura. Keith Richards er næst yngstur 73ja ára. Mick Jagger er 74ra ára og Charlie Watts er 76 ára. „Og missir ekki slag úr á trommunum“, segir Ólafur.  „Það var þarna stór hópur íslenskra ellilífeyrisþega, sem voru greinilega að koma á Stones tónleika í fyrsta skipti“, segir hann og hlær. „Áheyrendurnir voru frekar daufir en hljómsveitin gaf allt sitt.  Mick Jagger og Ronnie Wood voru á fullri ferð um sviðið.  Hvort þeir séu orðnir gamlir? Ja, ef þú ferð á netið sérðu að þeir eru ekki lengur mjög unglegir“.

Rolling Stones á tónleikunum í Kaupmannahöfn

Magnaðir tónleikar með eldri tónlistarmönnum

„Þeir töluðu um það í upphafi ferðarinnar að þeir hefðu ekki fundið neina staði til að spila á í Bretlandi, þeir hefðu ekki fundið nógu stóra sali, þannig að þeir sögðust ætla að spila þar á næsta ári“, segir Ólafur Helgi, sem hefur verið spurður að því alveg síðan 1989, hvort hann teldi ekki að þetta væru ekki þeirra síðustu tónleikar. „Maður vill ekki fullyrða neitt, en það er nú þannig að ég held að þeir verði á ferðinni næsta ár, en ég myndi ekki hengja mig uppá að þeir færu margar tónleikaferðir  í viðbót“.  Ólafur Helgi segist hafa farið á magnaða tónleika með eldri tónlistarmönnum og í næstu viku ætli hann á tónleika með Neil Diamond, sem er 76 ára. Hann hafi fengið þvílíkt frábæra dóma í írsku blaði. Í lokin sat enginn maður í sínu sæti, það voru allir staðnir upp og líka gamla konan með stafinn sem sat við hlið blaðamannsins.  Ólafur Helgi segir að eldri tónlistarmenn séu jafnvel betri en þeir yngri.

 

 

Ritstjórn október 18, 2017 10:31