Mikill fengur að fá heimsklassa ballettflokk til landsins

Guðbjörg Astrid Skúladóttir er stofnandi og eigandi Klassíska listdansskólans sem fagnar um þessar mundir þrjátíu ára starfsafmæli sínu. Af því tilefni kemur Birmingham Royal Ballet dansflokkurinn til Íslands og mun dansa í Eldborg í Hörpu 26. júní næstkomandi sem verður stór viðburður í íslensku menningarlífi. Carlos Acosta, stjórnandi Birmingham Royal Ballet flokksins, kemur með sextán aðaldansara flokksins til Íslands sem sýna brot af klassískum og nýklassískum ballett. Carlos Acosta er goðsögn í ballettheiminum og það hefur verið gerð um hann kvikmynd sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu ekki fyrir löngu.

„Við eigum fullt af efnilegum ungum dönsurum á Íslandi og ég vona að þessi viðburður eigi eftir að vera lyftistöng fyrir unga ballettdansara og íslenskt listalíf. Ég sá flokkinn dansa í Albert Hall og ætlaði að fá hann til Íslands 2020 en þá skall covid á sem hafði mikil áhrif á ballettskóla og dansara út um allan heim,“ segir Guðbjörg.

Dansari frá Birmingham Ballet.

Ballettneistinn kviknar

Guðbjörg Astrid var sex ára þegar rússneska sendiráðið bauð öllum Íslendingum í Stjörnubíó að sjá hina frægu ballerínu Svetlana dansa í Svanavatninu. „Ég man meira að segja hvar ég sat og eftir þetta langaði mig mikið til að dansa. Mamma og pabbi voru mikið fyrir listir og ég naut góðs af og það hafði sín áhrif. Ég ólst upp í kennarablokkinni á Hjarðarhaga og þar voru margir krakkar á svipuðum aldri. Við Árný Erla, bernskuvinkona mín, fórum ásamt stórum hóp vinkvenna í balletttíma til Irmu Toft á Tjarnagötunni.“ Það var hins vegar Sigríður Ármann sem benti Guðbjörgu Astrid á að fara í ballettskóla Þjóðleikhússins þar sem Fay Werner, breskur ballettkennari, kenndi. „Ég var hjá henni frá tíu til þrettán ára aldurs. Fay var frábær kennari, mjög ströng og kenndi mikla tækni. Hún fór víða og var stjórnandi í Folks Högskolan í Stokkhólmi og listrænn stjórnandi dansflokksins í Dusseldorf með meiru. Við erum báðar félagar í International Association for Dance Medicine & Science (IADM) en innan félagsins eru m.a. læknar með fjölbreytta sérþekkingu. Einnig eru næringarfræðingar og sálfræðingar sem vinna með dönsurum að andlegri sem líkamlegri heilsu. Í tilefni af komu Birmingham Royal Ballet kemur Fay til Íslands að fagna með mér 30 ára afmæli Klassíska listdansskólans.

Frá þrettán ára aldri kenndi Collin Russell mér í Þjóðleikhúsinu. Gaman var þegar hann heimsótti Ísland, þá var ég nýbúin að stofna framhaldsbraut í listdansi. Collin Russell tárfelldi þegar hann sá flottu aðstöðuna sem við höfum á Grensásvegi 14. Hann var mjög líflegur og gaf mikið af sér. Það var mikil dansgleði og styrkur sem fylgdi honum.“

Guðbjörg Astrid í Frankfurt.

Stefndi á ballettkennaranám

Guðbjörg Astrid fór til Noregs 16 ára í danskennaranám í Norsku óperunni, hana langaði að verða góður ballettkennari. „Skóladagurinn var frá klukkan níu að morgni til átta að kvöldi. Námsfögin voru tónlist, líffræði, þjóðdansar, kennslufræði og nútímadans. Dagurinn hófst og lauk með klassískum balletttímum. Fyrstu vikurnar í námi gat ég vart gengið fyrir harðsperrum. Kennarinn í klassíska ballettinum spurði mig hvers vegna ég  væri í kennaranámi en hann hvatti mig síðar til að sækja nám sem dansari og fara til London.

Ég ákvað að fara að ráðum hans og hélt í dansnám til Lundúna með nafn Audrey De Vos upp á vasann og varð bara að bjarga mér. Madame De Vos var komin yfir áttrætt en algjör demantur.“

Í Lundúnum kynnti Guðbjörg Astrid sér Art Educational School of Dancing. Þar var kennd enska, bókmenntir, myndlist og fleiri fög meðfram dansnáminu. En kennslan í klassíska dansinum hentaði henni ekki, það var lítið sem ekkert að gera fyrir hana að henni fannst. Hún segir að maður verði að finna kennara sem eflir mann, kennslan sé svo persónuleg. „Eftir viku fór ég til skólastjórans og sagði að ballettkennarinn væri ekki að ná til mín. Þá ákvað ég að stunda nám hjá Madam De Vos jafnframt námi við Andrew Hardy School of Dancing. Ég skipulagði nám mitt sjálf frá morgni til kvölds og fór á milli skólanna. Þetta var mín leið og ég var með yndislegu fólki. Stofnandi skólans, Andrew Hardy, hafði verið tekinn fastur í Japan í stríðinu og í fangabúðum kenndi hann samföngum sínum ballett en eftir stríðið stofnaði hann skólann. Sama var með De Vos, hún keyrði sjúkrabíl í London í stríðinu og opnaði svo sinn eigin ballettskóla. Þetta yndislega fólk mótaði mig og ól mig upp í dansinum, ég fékk mikinn stuðning frá þeim báðum.“

Lífstíðarsamningur í Gautaborg

Leið Guðbjargar Astrid lá síðar til Óperunnar í Gautaborg þar sem hún fékk lífstíðarsamning sem ballettdansari. Á þessum tíma hafði hún kynnst eiginmanni sínum Þórarni Kjartanssyni sem kom til Gautaborgar og lagði stund á rekstrarhagfræði við Gautaborgarháskóla. „Ég vann frá klukkan níu til þrjú á daginn og svo var annaðhvort sýning eða einhver verkefni á kvöldin. Það var mikið að gera í klassískum dansverkum hjá mér og nútímadansinn var að byrja að ryðja sér braut.“

Eftir þrjú ár í Gautaborg tók ég leyfi þar sem maðurinn minn var kominn með starf í Lúxemborg. Ég fékk samning hjá Óperunni í Frankfurt am Main í Þýskalandi. Dansararnir voru frá fjölmörgum löndum ólíkt því sem var í Gautaborg. Við hjónin hreiðruðum um okkur á tveimur stöðum, í Frankfurt og Lúxemborg. En, þá var bara að keyra á milli þegar það passaði.“

Guðbjörg Astrid.

Hætti að dansa og fór að sinna barnauppeldi

„Ég varð ófrísk að fyrsta barninu, Kjartani, og varð fyrir læknamistökum í fæðingunni. Það var til þess að ég ákvað að hætta að dansa. Ég var 29 ára, hafði dansað mikið og notið þess. Ég tók þá ákvörðun að verða ekki bitur og leiðinleg og ákvað að finna aðra leið og gerðist heimavinnandi húsmóðir. Við fluttum til Flórída og þar byrjaði ég að hjálpa konu sem dansaði við New York City Ballet og hafði opnað ballettskóla. Síðar eignaðist ég annan dreng, Skúla. Meðfram barnauppeldinu tók ég kúrsa í University of Miami, m.a. enska málfræði, skapandi skrif, vatnslitamálun, nálastungumeðferð og margt fleira.“

Klassíski listdansskólinn stofnaður

Fjölskyldan flutti heim 1990 og Guðbjörg Astrid tók að sér kennslu fyrir Listdansskóla Íslands en fann að hana langaði að gera hlutina á sinn hátt.

„Ég stofnaði Klassíska listdansskólann 16. janúar 1994. Um vorið var kennaraverkfall svo ég ákvað að hafa skólann milli klukkan níu og tólf fyrir hóp af táningum. Þá datt mér í hug að semja dansverkið Lata stelpan eftir samnefndri bók. Á sínum tíma fannst mér verkið ekki nægilega gott en ég horfði aftur á það nýlega og þá sá ég hvað verkið var í raun og veru vel unnið. Maður getur verið svo kröfuharður við sjálfan sig,“ segir hún.

Framhaldsbraut í listdansi

Guðbjörg og Colin Russell í Klassíska listdansskólanum.

„Árið 2006 sótti ég um til menntamálaráðuneytisins um framhaldsskólastig í listdansi. Maðurinn minn stóð alltaf með mér og hvatti mig áfram og studdi mig með ráðum og dáð gagnvart ballettskólanum og framtíð hans. „Fyrsta árið voru 29 nemendur á framhaldsbrautinni. Ég sá sjálf um allt sem sneri að klassískum ballett en fékk Emmu Reading, skólastjóra Laban School of Dancing, til að hjálpa mér að setja upp nútímabrautina. Nemendur framhaldsbrautar útskrifast með 52 einingar eftir þriggja ára nám.“

Guðbjörg Astrid hefur mikla og dýrmæta reynslu sem dansari og kennari auk þess sem hún fylgist vel með, sækir ráðstefnur og ræktar tengsl sín við dansheiminn. Hún segir það skipta miklu máli og það skili sér til nemenda skólans.

„Ég hef lagt metnað í að ráða erlenda kennara við skólann til að auðga námið, þar sem ég vann gífurlega mikið sjálf. Ég setti upp sýningarnar, samdi dansverkin og saumaði búninga. Í dag eru margir kennarar við skólann fyrrverandi nemendur mínir sem hafa farið erlendis í framhaldsnám. Ég er sjötug en er enn vel virk og brenn fyrir ballettinum og þróun hans.“

Krabbamein og missir

Guðbjörg greindist með krabbamein í brjósti í vetur, var skorin upp og hefur nýlokið meðferð. „Þetta hefur gengið ótrúlega vel, það er allt farið, ég veit að ég er búin að kveðja þetta,“ segir hún sannfærð og tekur fram að fallegi hundurinn hennar hafi stuðlað að því að meinið fannst.

En Guðbjörg hefur verið virk þrátt fyrir að vera í krabbameinsmeðferð. „Ég er komin langt með dansverk sem ég ætlaði að sýna á 30 ára afmælissýningu skólans 12. mars sem halda átti í Borgarleikhúsinu en varð að skjóta sýningunni á frest vegna veikindanna.“

Fleira hefur dunið á  Guðbjörgu Astrid. Hún missti manninn sinn 2007, varð ekkja 54 ára. „Hann var á rjúpu þegar hann lést, 55 ára. Hann var mikill fjallagarpur og hraustur. Morguninn sem hann lést færði hann mér egg og beikon í rúmið og ég stóð í dyrunum þegar hann fór til veiða. Veðrið var einstaklega fallegt, mikill snjór og sól. Andlát hans var rosalegt högg fyrir mig og strákana sem voru rúmlega tvítugir. Hjónabandið var alla tíð mjög gott og alltaf gaman hjá okkur. Við höfðum bæði húmor fyrir hlutunum og gátum hlegið saman.“

Ballett hefur verið líf og yndi

Guðbjörg Astrid lét af störfum sem skólastjóri fyrir covid en hún er hvergi nærri hætt að hafa afskipti af dansinum. Hún hefur ákveðnar skoðanir á honum og segir góða undirstöðu og tækni aldrei ofmetna. „Mér finnst nútímadans fá mikið pláss nú til dags. Það skiptir miklu máli að bæði klassískir og nútímadansarar fái góða undirstöðu í góðri tækni, styrkur dansarans felst í tækninni. Flæði hjá nútímadansara og snerpan verður mun faglegri og skemmtilegri að njóta ef undirstaðan er góð.“

Skólinn í dag:

Dansgarðurinn er nafn sem notað er sem regnhlíf yfir:

Klassíska listdansskólann sem er starfandi í Mjóddinni, Álfabakka 14a, og á Grensásvegi.

Óskandi sem er starfandi á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi.

Þessir skólar eru í samstarfi um grunnnám.

„Kennararnir eru frábærir fagmenn og sumir nemendur eiga fullt erindi í erlenda dansflokka. Ég hef mikla trú á þessu frábæra unga fólki sem er að byggja upp nýja kynslóð í listdansi,“ segir Guðbjörg Astrid sannfærandi.

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn júní 12, 2024 07:00