Minnkuðu við sig eftir 45 ár í sama húsi

Vésteinn hefur miklar mætur á ljóði eftir séra Bjarna Gissurarson í Þingmúla, sem hann orti á 17. öld. Á filmu í glugga á dyrum sem liggja út í bakgarð hafa þau látið setja tilvitnun í þetta ljóð: Hvað er betra en sólarsýn – Hún vermir, hún skín, og hýrt gleður mann.

Vésteinn Ólason prófessor og Unnur A. Jónsóttir kennari og veflistakona eru bæði fædd sólarárið 1939 og eru því 78 ára gömul. Þau líta á það sem nýtt upphaf að vera að flytja í nýtt og minna húsnæði eftir að hafa búið í sama húsi við Nýlendugötu í 45 ár en tóku ákvörðun fyrir skömmu að selja það. Hugmyndin kviknaði fyrir tveimur árum að minnka við sig eftir að hafa fylgst með nokkrum jafnöldrum þeirra gera það sama.

Höfðu gott af stigaklifri en yngjast ekki héðan af

Húsið, sem þau eru að flytja úr, er á þremur hæðum, en þau segja að þau hafi kannski bara haft gott af stigaklifri fram að þessu en ljóst sé að þau yngist ekki. Börnin þeirra tvö voru á fyrsta og þriðja aldursári þegar þau fluttu inn og nú eru komin  þrjú barnabörn. Húsið hélt vel utanum þau og vinnuaðstaða var öll hin besta en Vésteinn stundar enn töluverð fræðistörf og Unnur vefur alls kyns listaverk á vefstól sem hún segist þó þurfa að selja vegna plássleysis á nýja staðnum, en er ákveðin í að kaupa annan minni sem komist fyrir.

Þau Vésteinn og Unnur létu breyta nýja húsnæðinu verulega.

Kynntust í menntó

Þau Vésteinn og Unnur kynntust í Menntaskólanum á Laugarvatni þar sem þau stunduðu bæði nám. Hann var búsettur í Árnessýslunni þá og hún í Vestmannaeyjum. Það lá því beint við fyrir bæði að fara á Laugarvatn í menntaskóla. Eftir stúdentsprófið og eitt ár í Reykjavík tóku þau síðan að sér kennslu við grunnskólann í Vestmannaeyjum veturinn 1960-61. Nemendur þeirra þá voru 5 árum yngri en þau og eru nú orðið rígfullorðið fólk, komið á eftirlaun, segja þau hlæjandi. Þau segjast vera mjög heppin með heilsuna.

Unnur býr til púða með stórskemmtilegum mynstrum, sannarlega öðruvísi listaverk.

Var þetta erfið ákvarðanataka?

Lokaverkefni Unnar í vefnaði í Ósló 1989 nefnir hún Hrútaþing og þarf nafnið ekki skýringa við.

“Ekki svo mjög,” segja þau, “Aðdragandinn var ansi langur. Við vorum búin að halda húsinu vel við og við ákváðum að selja áður en þörf væri á meiri framkvæmdum. Svo fannst okkur gott að vera enn með fullu viti og hafa krafta til að ganga frá öllu dótinu sem hafði safnast í gegnum árin frekar en að leggja það á aðra. Við erum mjög ánægð með þetta húsnæði við Klapparstíginn, erum enn í 101 og verslum á sömu stöðum svo breytingin er ekki svo mikil.” Á veggjum nýja heimilisins eru glæsileg málverk sem þau Unnur og Vésteinn  hafa safnað í gegnum árin og svo njóta þau þess að hafa enn eitt listaverkið í glugga sem snýr út að Esju, og það er síbreytilegt. Og svo er stutt bæði í Hörpu og Þjóðleikhúsið frá nýja heimilinu þeirra sem þau segja að sé mikill kostur enda hafi þau sérlega gaman af því að sækja bæði tónleika og leikhús.

Hafa ferðast mikið

Vésteinn skrifaði formála við útgáfu Eddukvæða.

Unnur skar út gestabók þeirra hjóna.

Eftir háskólanám voru þau Vésteinn og Unnur í 5 ár í Noregi og eitt ár í Kaliforníu. Á þeim árum lærði Unnur að vefa. Vésteinn var lektor við Kaupmannahafnarháskóla eftir nám við Háskóla Íslands og kenndi seinna við háskóla bæði í Noregi og Bandaríkjunum, en lengst var hann prófessor við Háskóla Íslands. Síðustu tíu árin, áður en hann hætti að vinna, var hann forstöðumaður Árnastofnunar. Þau hjónin eru reyndar aldeilis ekki hætt að vinna því Vésteinn fæst töluvert við fræðistörf ennþá, skrifaði meðal annars langan formála að útgáfu Eddukvæða sem kom út fyrir tveimur árum og í framhaldi af því vinnur hann við ýmis verkefni því tengd, og Unnur vinnur í höndunum allskonar dýrgripi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn október 20, 2017 14:47