Myndi hiklaust vinna svart núna

Hólmfríður Tómasdóttir fyrrverandi bókavörður í Þjóðarbókhlöðunni tekur á móti blaðamanni Lifðu núna, í litlu íbúðinni sinni í vesturbænum, með fallegu útsýni út á sjóinn. Hún keypti íbúðina eftir að maðurinn hennar féll frá fyrir sex árum.  Hún hætti að vinna sjötug, en fór að vinna aftur við að sitja yfir í prófum eftir að hann lést. „Ég er orðin áttræð og er enn að vinna, ég er svo heppin að hafa góða heilsu“, segir hún.  Hólmfríður segist ekki hafa viljað sleppa yfirsetu vinnunni, bæði vegna félagsskaparins og þess að hún hafi haft þörf fyrir aukatekjur. Hún er hins vegar mjög ósátt við lækkun frítekjumarksins niður í 25.000 krónur.

Ríkið á ekki að kássast í öllu

Hún er hreint ekki ánægð heldur með lífeyriskerfið eins og það er í dag. „Það er mín skoðun að allir eigi að fá ákveðna upphæð úr almannatryggingunum, en ríkið á ekkert að vera að kássast í hinu sem við vinnum okkur inn sjálf eða spörum og greiðum fullan skatt af“. Hólmfríður er þeirrar skoðunar að þeir sem hafi ekkert til viðbótar ellilífeyrinum frá ríkinu, þurfi að fá ákveðna tekjutryggingu og það megi skoða hvort fólk á ofurlaunum þurfi að fá hinn lögbundna ellilífeyri frá TR. „Við eigum lífeyrissjóðinn sem við höfum safnað, ég lít svo á“ segir hún.

Hefur aldrei unnið svart

Hún segir það ömurlegt að meina eldra fólki að afla sér tekna á vinnumarkaðinum.  Sjálf hefur hún unnið alla sína ævi „Ég var sett uppá rakstrarvél 9 ára gömul, þá var maður látinn vinna, og ég er búin að vinna alla mína hunds og kattartíð“, segir hún. „Ég hef aldrei unnið svart, en ég myndi hiklaust gera það núna, ef mér stæði það til boða. Þetta er svo ósanngjarnt.

Fá brauðmolana af borði ríka fólksins

Hólmfríður segist hafa orðið fjúkandi reið þegar hún heyrði fjármálaráðherra segja að þeim sem væru með 280 þúsund krónur á mánuði þætti bara fínt að fá 20 þúsund króna hækkun. „Hugsunarhátturinn er enn sá sami, að þeir lægstu fái brauðmolana af borði ríka fólksins. 20 þúsund séu allt í lagi fyrir þá sem fái svo lítið hvort sem er. Þetta er svo niðurlægjandi –  mér finnst lágmark að ráðherra tali með lágmarksvirðingu um eldra fólk. Hverjir eru það sem hafa byggt upp þetta þjóðfélag?“

Spariféð hvarf

„Ég hef líka heyrt þingmann lýsa því yfir að fólk eigi að safna peningum til elliáranna“, segir Hólmfríður. „Ég gerði það, safnaði og lagði fyrir í Sjóð 9. Hvað varð um þessa peninga? Þeir hurfu og það datt engum i hug að leita að þeim fyrir mig. Og þetta var ekki bara ég. Fjöldi fólks missti spariféð sitt. Stærsti flokkurinn í stjórninni núna er flokkurinn sem henti okkur í hrunið. Og það hefur ekkert verið gert til að bæta fólki þetta upp“, segir hún.

Hækkuðu svo launin hjá sjálfum sér

Hólmfríður furðar sig á þeirri breytingu að setja frítekjumark eldra fólks við 25 þúsund. „Eftir að þeir gerðu þessa breytingu sem virtist valda ómældri reiði hjá fólki, þá hækkuðu þeir launin hjá sjálfum sér“, segir hún um alþingismennina.  „Það eiga bara allir að fá almennan lífeyri frá ríkinu og síðan á ekkert að vera að tæta niður það sem menn hafa safnað sér eða aflað sér.  Það á ekki að koma ríkinu við þó menn fari út að vinna, ríkið fær sinn skatt af þessum tekjum og þar með búið, rétt eins og með annað fólk á vinnumarkaði. Stjórnvöld eiga að strika strax út frítekjumarkið“.

Ætlar að halda áfram að sitja yfir

Hólmfríður segist ætla að halda áfram að sitja yfir í prófum. En það sé athugandi hvort Háskólinn geti borgað fólki í einhverjum verðmætum. „Ég er tilbúin að  vinna svart“ ítrekar hún og segir sig muna um vinnulaun uppá 100 þúsund krónur á mánuði. „Það er ömurlegt og lágkúrulegt af ríkinu að meina eldra fólki að afla sér aukatekna á vinnumarkaði“.

Ritstjórn september 19, 2017 09:13