Frítekjumarkið hækkað í 100 þúsund um áramót

Bjarni Benediktsson.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins segir að frítekjumarkið verði hækkað úr 25 þúsund krónum á mánuði upp í um 100 þúsund krónur á mánuði um næstu áramót. Bjarni var gestur í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudagsmorgun. Þar sagði hann að mikið hefði áunnist hvað varðar kjör eldra fólks síðustu misseri. Tók hann sem dæmi að greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins væru nú rúmar 200 þúsund krónur á mánuði en myndu hækka í 300 þúsund krónur um áramót. Bjarni sagðist hafa heyrt ákall frá Félögum eldri borgara og öðrum þeim sem væru að berjast fyrir bættum kjörum þeirra um að hækka frítekjumarkið.  Mörgum fynndist ekki nógu mikill hvati til að afla sér atvinnutekna og sagðist forsætisráðherra taka undir það. „Við í sjálfstæðisflokknum höfum alltaf átt slagorðið að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Við viljum halda því hátt á lofti. Við stefnum því að því fara með frítekjumarkið upp í um 100 þúsund krónur og stefnum að því að gera það um áramót,“ sagði Bjarni á Sprengisandi.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landsambands eldri borgara segir að þetta séu jákvæðar fréttir fyrir eldri borgara. „Barátta eldri borgara er að skila árangri. Við teljum að þetta skref sé afar mikilvægt og gefi fólki tækifæri á að afla sér aukatekna hafi það þörf fyrir þær,“ segir Þórunn. Hún bendir á að það sé skortur á vinnandi fólki í landinu og fyrirtæki hreinlega bíði þess að geta ráðið eldra fólk til starfa. „Fyrirtækin hafa verið að leita eftir eldra fólki til starfa og þeim hefur fjölgað sem vilja fá eldra fólk í sínar raðir. Það er beðið eftir okkur á vinnumarkaðnum.“

Þórunn segir að það þurfi að hækka frítekjumarkið sem allra fyrst. Bæði til að fá fólk út á vinnumarkaðinn og eins til að bæta stöðu þeirra eldri borgara sem eru nú þegar á vinnumarkaði.

Ritstjórn september 25, 2017 13:34