Myndir varðveita minningar

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar:

Nú þegar sumarið er loks komið og fólk fer að ferðast í auknum mæli hefst myndatökutímabil fyrir alvöru hjá mörgum. Ljósmyndataka hefur lengi verið áhugamál mitt og því er tilefni til að fjalla aðeins um myndatökur.

„Hvar sástu þetta?“, hef ég verið spurður þegar ég hef sýnt myndir eftir gönguferðir eða ferðalög. Áhugaljósmyndun er skemmtilegt áhugamál. Móðir mín Aðalbjörg Bjarnadóttir var áhugasöm um ljósmyndun. Ljósmyndataka hefur frá 12 ára aldri verið eitt af aðal áhugamálum mínum. Halldór Magnússon mágur minn kynnti framköllun fyrir mér þegar hann stundaði nám í lyfjafræði við Háskóla Íslands og bjó á Gamla Garði. Þegar ég fór í Menntaskólann á Akureyri var þar starfandi Félag áhugaljósmyndara í MA, FÁLMA,  sem hafði aðstöðu til framköllunar í mötuneytinu. Ég hef tekið myndir af skólagöngu minni, fjölskyldumyndir, myndir á ferðalögum og myndir tengdar störfum mínum.

Mikið safn mynda hefur safnast á 60 árum líklega tugir þúsunda svart hvítra mynda frá fyrri tímum, litmyndir í albúmum, litskyggnur og nú stafrænar myndir. Mikið magn mynda bíður yfirferðar og vals. Hverjar eru verðugar varðveislu? Endurvinna þarf myndir af gömlum filmum, flytja litskyggnur yfir í stafrænt form og velja úr stafrænum myndum og prenta þær út sem hafa mest varðveislugildi. Margra ára skemmtileg vinna og upprifjun er framundan í úrvinnslu.

Myndatökur geta verið af mörgum toga. Flestir taka fjölskyldu- og landslagsmyndir. Einnig taka margir myndir tengdar atvinnu. Ég tel að áhugaljósmyndun sér ekki aðeins mikilvæg til varðveislu minninga heldur sé hún afar mikilvæg sem þjálfun fyrir huga og auga til þess að taka eftir og njóta betur þess smáa og fallega í lífinu í kringum okkur. Ég tek ekki stöðugt myndir á myndavél en ég er oft með hugann við myndefni. Elín Óskarsdóttir konan mín tekur sjaldan myndir á myndavél en hún hefur gott auga fyrir myndefni. Við horfum á lífið í kring um okkur oft með tilliti til myndefnis og römmum inn í huganum myndefni sem okkur þykir eftirtektarvert og fallegt.

Fyrstu stafrænu myndavélina keypti ég árið 2000. Ég hef skokkað um Elliðaárdalinn í fjölda ára. Árið 2001 ákvað ég að taka litlu nýju stafrænu myndavélina mín með mér og mynda í Elliðaárdalnum á nokkrum stöðum einu sinni í mánuði í eitt ár. Úr varð myndaröð sem ég sýndi á þessum árum á nokkrum stöðum.  Ljósmyndaröðina má finna á eftirfarandi slóð en myndirnar eru eðlilega barn síns tíma.

https://www.slideshare.net/fullscreen/Thorvaldsson/ellidaardal-ag11/2

Ég hef lesið ýmsar bækur og tímarit um ljósmyndun og reynt að þróa mig áfram í tækni. Um val á myndefni er minna fjallað. Nýlega keypti ég mér bók sem gefin hefur verið út á íslensku. Bókin leiddi mig inn á nýtt áhugasvið í ljósmyndun. Bókin heitir „Taktu betri ljósmyndir – 228 hugmyndir og ráð til að ná betri myndum“ eftir Georg Lange. Í formála segir höfundur að kjarni bókarinnar sé kennsla í að fanga tilfinningu fyrir hlutum frekar en útlit þeirra, að læra að meta fegurð, ástríðu og kærleika hversdagsleikans. Kjarninn sé að sjá að jafnvel minnstu smáatriði geta verið óvenjuleg og full af tilfinningum. Hann segist með myndum sínum vera að skapa tengsl við fólk. Þessa nálgun í ljósmyndun má nefna tengslaljósmyndun. Í bókinni er áhugavert að sjá hvernig höfundur notar mynduppbyggingu, skarpleikabil og náttúrulegt ljós. Eftir að hafa lesið bókina hef ég notað farsímann minn meira til myndatöku og horfi á annan hátt í kringum mig eftir tengslamyndaefni. Læt fylgja hér með fjögur sýnishorn af nýlegri tengslamyndatöku

  1. Í Funchal á Madeira: Ég gekk að manninum með hund í kerru. Ég setti smápeninga í glasið og benti á myndabúnaðinn. Hann kinkaði kolli gaf hundinum og síðan mér tíma til þess að smella af tveimur myndum og svo hvarf hann. (Aðalmyndin með þessari grein)
  2. Í lest frá flugvelli inn til London tók ég eftir óvenju löngum og grönnum fingrum í sæti fyrir framan okkur. Ég velti fyrir mér þjóðerni og útliti persónunnar sem ég gerði ráð fyrir að væri kona. Hvernig stúlkan leit út þegar hún stóð upp verður leyndarmál ljósmyndarins og fyrir ímyndunarafl þeirra sem skoða myndina.
  3. Gengið framhjá búðarglugga í London. Tók eftir hreyfingu við gínur. Sá handleggi gluggaútstillamanns bera við leggi gínunnar sem skemmtilegar andstæður. Síminn tekinn upp og mynd tekin.
  4. Mynd af dóttursyni í heimsókn að norðan en hann sofnaði þreyttur og sáttur eftir að hafa skoðað Hvalasafnið.

    Í lestinni

    Í lestinni

Í búðarglugga í London

Í búðarglugga í London

Þreyttur

Þreyttur

Áhugaljósmyndun er eitt af þeim áhugamálum sem fær okkur til að njóta lífsins enn betur og ekki síst þess smáa í umhverfi okkar. „Hvar sástu þetta?“

 

Þráinn Þorvaldsson júní 30, 2015 10:30