Algengara að íþróttafólk þurfi gangráð síðar á ævinni

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar

„Þú ættir nú að drífa þig út í gönguferð, Guðmundur minn,“ sagði eiginkonan við mann sinn „það gengur ekki að liggja svo daglangt í sófanum. Þú verður að fá hreyfingu.“ Eftir að konan hafði ítrekað hvatninguna nokkrum sinnum hóf Guðmundur gönguferðir sem entust um tíma. Síðan tók sófinn aftur við. Eiginkonan vildi ekki gefast upp og ákvað að kaupa göngubretti fyrir eiginmanninn. Guðmundur entist um tíma á brettinu en fékk svo leið á því og enn tók sófinn við. Konan vildi ekki gefast upp og ákvað að kaupa hund sem myndi neyða Guðmund í gönguferðir. Guðmundur yrði í það minnsta að hugsa um hundinn sem þyrfti hreyfingu. Það gekk um tíma en sófinn var freistandi og þægilegur. Dag einn kom konan inn í stofu og þá gafst hún endanlega upp þegar hún sá Guðmund liggja í sófanum, þar sem hann hélt í bandið á hundinum og hundurinn gangandi á göngubrettinu.

Þessi saga á að vera sönn, en við sem höfum gaman af því að segja sögur teljum að sannleikurinn eigi aldrei að skemma góða sögu. Hún er samt lýsandi dæmi um einstakling sem ekki aðhyllist hreyfingu.

Mikill og vaxandi áhugi er á hreyfingu og útiveru þótt sumir telji að hreyfingar eigi að vera í hófi. Fylgjendur lítillar hreyfingar benda m.a. á máli sínu til stuðnings að skjaldbökur lifa lengst hryggdýra og eru taldar geta náð hátt í 200 ára aldri. Daglegar hreyfingar skjaldbökunnar eru í algjöru lágmarki eins og allir vita.

Svo eru hinir sem telja hreyfingu allra meina bót. Ég er einn af þeim. Ég stundaði ekki íþróttir í uppvexti en um miðjan aldur fór ég að skokka eftir að hafa farið í þrekpróf. Sagt var að líkamlega væri ég í góðu ástandi en þrekið væri í algjöru lágmarki. Ég hóf skokk og átti erfitt í upphafi. Ég komst varla á milli ljósastaura. Skokkferill minn hófst þegar ég var 36 ára og stóð í 38 ár. Á þessu tímabili hljóp ég mörg keppnishlaup, nokkur hálfmaraþon en oftast 10 km hlaup en var aldrei ofurhlaupari. Í ágúst 2020 skrifaði ég pistil í LN þar sem ég bar saman frumkvöðlastarf og langhlaup. Sjá pistilinn hér.  Mér fannst hlaupin gera mér gott og endorfínið sem hlaupin gáfu sköpuðu vellíðan. Ég taldi mig vera að leggja inn á heilsubankann sem ég myndi svo síðar taka út af á efri árum.

En svo varð ég fyrir andlegu áfalli sl. sumar tengt hlaupunum. Venjulegur hjartsláttur fullorðinna í hvíldarstöðu er 60 til 100 slög á mínútu en mun lægri hjá fólki í mikilli þjálfun. Á undanförnum hlaupaárum hef ég fylgst með hjartslætti mínum. Hann var lengi á milli 50 og 60 slögum á mínútu. Svo fór hann að lækka. Ég hafði farið í geisla- og hormónahvarfsmeðferð við krabbameini og átti við að stríða aukaverkanir eftir þá meðferð sem ég komst yfir. Ég taldi að ef til vill gætu þarna verið tengsl á milli. Því var hafnað af læknum. Hjartslátturinn hélt áfram að lækka og varð á milli 30 og 40 slög á mínútu. Þessu fylgdi þrekleysi og vanlíðan. Ég átti í miklum erfiðleikum með göngur og komst vart áfram fyrir mæði sérstaklega upp halla. Ég fékk það sem ég kalla „aumingjatilfinningu“ og því fylgdi þunglyndi. Ég var miður mín og fannst ég hafa snuðað sjálfan mig með hlaupaferli mínum í 38 ár. Til hvers hafði ég verið að skokka ef hjartað var orðið svona lélegt? Ég hafði töluverðar áhyggjur af þessu. Ég átti tíma hjá hjartalækni mínum í maí síðast liðnum þar sem ég var mældur og veginn með mælitækjum. Hjartslátturinn var þá kominn niður undir 30. Eftir síðari heimsókn til læknis var ég boðaður á Landspítalann í Hjartagátt daginn eftir og settur í mig gangráður. Gangráður er tæki sem notar rafspennu til þess að stjórna hjartslætti.

Þar sem ég ligg á skurðarborðinu og verið er að setja gangráðinn í mig segi ég við lækninn, að mér finnist nokkuð hart að hafa verið skokkari í 38 ár og taldi mig hafa með því verið að koma í veg fyrir hjartavandamál. Læknirinn sagði þá mér til furðu að þetta vandamál væri afleiðing hlaupaferils míns og settir væru fleiri gangráðar í íþróttafólk með mikla þjálfun að baki, til dæmis hlaupara og hjólreiðafólk, heldur en almenna borgara. Mig rak í rogastans. Þetta hafði ég aldrei heyrt. Gangráðurinn var svo ræstur á skurðarborðinu og stilltur á lægstu mögulegu stillingu, eða 60 slög. Tækið gefur örlítinn rafstraum eftir leiðslunum (sjá mynd) ef hjartslátturinn fer niður fyrir 60. Rafhlaða er í tækinu sem endist í 10 til 12 ár. Í ljós kom einnig að ég var með gáttartif sem verða þegar óeðlileg rafboð verða í hjartanu og þurfti ég því rafvendingu síðar, þ.e. að snúa hjartslættinum á réttan hraða. Helstu einkenni gáttatifs eru hjartsláttaróþægindi, mæði og úthaldsskerðing. Mér leið strax mun betur þegar gangráðurinn var ræstur á skurðarborðinu og hjartslátturinn hafði hækkað úr 28 slögum í 60 á mínútu.

Þegar ég kom heim fór ég að lesa mér til á netinu. Þar fann ég ýmsar erlendar greinar sem lýstu þessu vandamáli í tengslum við mikla þjálfun sem ég hafði aldrei heyrt um. Fram kom að fjöldi einstaklinga sem stunda íþróttir eða hafa stundað mikla þjálfun fyrr á árum þurfa gangráð síðar á ævinni. Meðalaldur þeirra sem fá gangráð er 75 ára (+/- 10 ár). Svo létti mér þegar ég las í grein að þrátt fyrir þetta hugsanlega heilsuvandamál á efri árum, væru kostir þess að hafa verið í góðri þjálfun mun fleiri en ókostir.

En ég var ekki sáttur þótt ég hefði komist að því að vera ekki einn í þessu ástandi eftir mikla þjálfun. Ég fékk bæklinga til útskýringar en náði einhvern veginn ekki að skilja stöðuna. Svo fór ég í eftirlit á Landspítalann og átti tal við lækni. Ég útskýrði fyrir honum vanlíðan mína og „aumingjatilfinningu“. Læknirinn gaf mér þá góða skýringu. „Sjáðu til, við erum hér inni í herbergi. Það er ekkert að herbergisveggjunum en raflögnin í þeim er biluð. Gera þarf við raflögnina eða skipta um hana.“ Nú varð ég alveg rólegur og sætti mig við stöðu mína.

Ég hef talað við fjölda manna og ótrúlega margir hafa fengið gangráð. Ég hef heyrt af mönnum sem hafa stundað íþróttir í fjölda ára og hætt íþróttaferli sínum og tekið upp léttari hreyfingu eftir að hafa fengið gangráð. Mér hefur komið á óvart þegar ég hef rætt reynslu mína við hlaupara að enginn þeirra hefur vitað af þessari mögulegri afleiðingu langtíma þjálfunar. Því skrifa ég þennan pistil um reynslu mína til þess að aðrir skokkarar sem lesa, megi komast hjá sömu „aumingjatilfinningu“ og ég fékk.

Nú vinn ég að því að ná upp þreki og í þeim tilgangi keypti ég lítið og handhægt göngubretti sem ég nota þegar veður til útigöngu hentar ekki. Hundurinn hans Guðmundar og ég erum því á sömu heilsuvegferðinni og göngum báðir á hlaupabretti.

Þráinn Þorvaldsson desember 13, 2021 07:10