Þvottavélin

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar

 

„Ég get ómögulega lært á þessa nýju þvottavél,“ sagði Elín eiginkona mín þegar við keyptum nýja þvottavél fyrir nokkrum árum. Umboðið sagði gömlu þvottavélina, sem bilaði, vera svo úrelta að ekki borgaði sig að gera við hana. Á þá flóknu þvottavél gat ég aldrei lært og því annaðist kona mín alla þvotta þar til nýja þvottavélin kom til sögunnar. Nú er það ég sem stjórna nýju þvottavélinni. Mér finnst þessi hlutverkaskipti í góðu lagi og sanngjörn.

Sumir vilja halda því fram að uppfinning þvottavéla sé ein mikilvægasta uppfinning iðnbyltingarinnar sem hafi haft meiri áhrif en jafnvel internetið. Með notkun þvottavéla jókst tími kvenna til annarra starfa en heimilisstarfa, eins og að fara út á vinnumarkaðinn, lesa bækur og mennta sig. Svo ég tali ekki um aukið hlutverk karla í heimilisþvottunum. Ég minnist þvottadaga móður minnar, Aðalbjargar Bjarnadóttur. Hún stóð í þvottahúsinu í kjallaranum við þvottabalann með þvottabrettið og suðupottinn sér við hlið. Þvotturinn var hengdur út á snúrur. Ferska óson lyktin ilmar enn í vitum mér þegar ég hjálpaði móður minni að brjóta þvottinn saman.

Þegar ég setti í þvottavélina einn morguninn, fór ég að hugleiða að líklega væri ég og margir af minni kynslóð (lýðveldisbarn fætt 1944) síðustu nátttröllin í fyrrum hefðbundinni verkaskiptingu hjóna í heimilisverkum. Faðir minn, Þorvaldur Ellert Ásmundsson, var skipstjóri á Akranesi þar til hann kom í land og hóf fiskverkun ásamt tveimur félögum sínum. Móðir mín eins og margar sjómannskonur var jafnvíg á hamar og sög og saumaskap og hannyrðir. Hún hélt áfram viðhaldsvinnu á heimilinu eftir að faðir minn var kominn í land. Ég á þrjár eldri systur, Margréti, Elínu og Svanhildi (látin) og ekki kom okkur feðgum til hugar að aðstoða við eldshússtörfin t.d. við uppvaskið, jafnvel eftir að þær systur mínar voru fluttar að heiman. Ég hefði hjálpað til ef ég hefði verið beðinn um það eins og gerðist í tilfelli okkar nýgiftu hjóna.

Við Elín kynntumst í viðskiptafræðinámi við HÍ. Elín varð 6. konan til þess að verða viðskiptafræðingur um 20 árum eftir að viðskiptafræðinám hófst. Nú eru yfir 60% nemenda við Viðskiptadeild HÍ konur en stúlkurnar voru aðeins tvær þegar Elín hóf nám. Við giftum okkur meðan við vorum í námi og hófum búskap í lítilli kjallaraíbúð. Þröngt var í eldhúsinu og eftir að hafa borðað á brauðbrettinu stóð ég upp og settist inn í stofuna til þess að lesa Morgunblaðið eins og ég var vanur að gera. Elín sagði þá við mig að sér fyndist ekki sanngjarnt að hún hugsaði ein um eldhússtörfin því við værum jú bæði í námi. Þó ég væri alinn upp í annarri hugsun fannst mér þetta eðlilegt sjónarmið sem ég hafði ekki leitt hugann að og augljóst þegar hún benti mér á það. Góð samvinna okkar hófst í litla eldhúsinu eins og á öðrum sviðum. Samvinnan varð svo góð að þegar fjölskyldan stækkaði og við eignuðumst fyrstu uppþvottavélina mörgum árum seinna, saknaði ég stundanna sem við stóðum saman við uppvaskið.

Á heimilum barna okkar ríkir mikið jafnræði enda bæði hjónin útivinnandi. Annar tengdasonur okkar er mikill matreiðslumeistari. Veitingastaðir blikna í samanburði við mat sem hann framreiðir. Hinn tengdasonur okkar og sonurinn taka jafnan þátt í heimilisstörfum og eiginkonurnar og eru matgæðingar. Þeir sérhæfa sig jafnan í ákveðnum réttum sem fjölskyldan kann vel að meta.

Karlmenn þurfa oft að fara varlega þegar þeir fikra sig yfir í heimilisstörfin. Fyrir mörgum árum þegar ég var að þreifa mig yfir á svið matreiðslu fór ég á bráðskemmtilegt karlamatreiðslunámskeið í Húsmæðraskólanum í Reykjavík. Fram að því hafði ég aðeins matreiðslupróf hjá skátunum á Akranesi þar sem ég steikti karbúnaði (lærissneiðar velt upp úr eggjum, hveiti og brauðmylsnu) eftir nokkrar æfingar í eldhúsinu hjá móður minni. Fyrsta kvöldið á námskeiðinu heyrði ég kennarann segja við einn þátttakandann: „Guðmundur, þetta er vaskafat sem þú hefur sett á eldavélina en ekki pottur!“

Nýr starfsvettvangur karlmannsins getur reynst varasamur. Maður einn gekk alltaf í hvítum skyrtum sem þurfti að strauja og eiginkonan annaðist þann starfa. Dag einn lýsti eiginkonan yfir þeirri réttlætiskröfu að maðurinn straujaði eigin skyrtur. Eiginmaðurinn sagði það sjálfsagt mál, tók fram straubrettið sem hann stillti upp fyrir framan símaborð, þar sem fyrir var gamaldags standandi takkasími. Maðurinn hóf að strauja skyrtur sínar með góðum árangri þar til síminn hringdi. Ekki verður atburðarásinni nánar lýst þegar maðurinn ruglaðist á straujárninu og símanum. Betra er að vera undir eftirliti eiginkonunnar í upphafi nýrra heimilisstarfa.

 

 

Þráinn Þorvaldsson mars 8, 2021 07:53