Myrkrið veit eftir Arnald Indriðason


Það er margt sem myrkrið veit,

– minn er hugur þungur.

Oft  ég svartan sandinn leit

svíða grænan engireit.

Í jöklinum hljóða dauðadjúpar sprungur.

Jóhann Sigurjónsson

 

Á þessu dapurlega kvæði hefst nýjasta bók Arnaldar Indriðasonar og lýsir það hinum þunga og myrka tóni sem er í bókinni. 

Erlendir ferðamenn eru í skoðunarferð á Langjökli og veðrið er eins og best verður á kosið. Kyrrðin er snögglega rofin  þegar leiðsögukonan æpir upp yfir sig þar sem hún sér mannshöfuð standa upp úr ísnum.  Karlmaður hafði horfið fyrir um þrjátíu árum og nú finnst hann eftir allan þennan tíma enda hafði jökullinn hopað eins og allir jöklar landsins.

Ragnhildur Erla Bjarnadóttir

Hjaltalín, samstarfmaður hins látna var á sínum tíma grunaður um hvarfið án þess að nokkuð hafi sannast á hann og enn er hann kallaður í yfirheyrslu eftir líkfundinn.  Á dánarbeði sínu óskar hann eftir því að tala við Konráð lögreglumann á eftirlaunum, en hann hafði stjórnað rannsókninni á sínum tíma, til að lýsa enn einu sinni yfir sakleysi sínu. Konráð hefur ekki getað gleymt þessu gamla óleysta sakamáli og tekur til við rannsókn þess.

Það sem er svo áhugavert við bækur Arnaldar og heldur lesandanum rígföstum er persónusköpun hans og hvernig hann kynnir hverja og eina persónu til leiks.  Við fáum innsýn í líf þeirra og það er auðvelt að setja sig í spor þeirra og skilja afhverju líf þeirra fór á þann veg sem lýst er. Það tekur á að þegja yfir afbrotum og upp komast svik um síðir. 

Það er ekki að ástæðulausu að Arnaldur Indriðason er alltaf jafn vinsæll og að aðdáendur hans hlakki til hverrar bókar.

 

Texti úr bókinni

Villi komst aftur til meðvitundar og honum fannst einhver nálgast sig í hríðinni, hægt og varlega.  Hann heyrði marrið í snjónum og þóttist heyra veikan andardrátt.  Hann opnaði augun til hálfs en sá engan, aðeins svartabyl. Þó fékk hann það á tilfinninguna að einhver væri kominn til hans og hann væri ekki einn og honum leið betur að vita af því.

Stuttu síðar vissi hann aftur af sér og sá að einhver kraup hjá honum og hélt í hönd hans og hann fann hlýjuna á kaldri hendinni og hlýjan lófa strjúka sér um ennið.

– Mér er ….kalt, hvíslaði hann.

Konan lagði höfuð hans í kjöltu sér.

         Þei, þei og ró, sagði hún.

Kraftar hans voru á þrotum. Úr fjarska heyrði hann konuna fara með stef úr gamalli vögguvísu (bls. 283)

 

 

 

Ritstjórn nóvember 28, 2017 11:21