Níræð og borgar um 80% skatt af viðbótartekjum

Erna Indriðadóttir

Erna Indriðadóttir skrifar

Fyrir nokkrum vikum bað níræð kona mig að kanna fyrir sig, hvernig gæti staðið á því að hún þyrfti að endurgreiða Tryggingastofnun tæpar 50 þúsund krónur, vegna tekna á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Hún skildi ekki hvernig á þessu stóð, þar sem tekjur hennar breytast sáralítið frá ári til árs. Það kom á daginn, að hún hafði fengið um 40 þúsund króna eingreiðslu úr lífeyrissjóði. Greiðslu sem hafði safnast upp vegna þess að sá sem er núna í sama starfi og hún gengdi á meðan hún var í vinnu, hafði hækkað í launum og nú fékk hún þetta greitt í einu lagi nokkra mánuði aftur í tímann. Þá var einnig reiknað með að hún myndi hafa um það bil  20.000 krónum meira í vaxtatekjur en árið á undan. Af þessum samtals 60.000 krónum, fékk hún rétt rúmar 10.000 krónur í vasann. Tryggingastofnun fékk afganginn, um 50.000 krónur vegna þess að nú hafði hún fengið „ofgreiddan“ lífeyri.

Þetta svarar til þess að af þessum 60.000 krónum hafi verið bogaður um 80% „jaðarskattur“. Þannig virka hinar svokölluðu skerðingar og ekki skrítið að fólki finnist þetta ósanngjarnt. Hvers vegna á það að borga svona háa skatta, hærri skatta en allir aðrir? Það hafa stundum verið umræður um það í öðrum löndum að leggja á sérstakan auðjöfraskatt, 70 jafnvel 80% heyrði maður í fréttum. Hér þykir við hæfi að eldra fólk, borgi þessa himinháu skatta.

Þegar ég var ungur fréttamaður, kom stundum að máli við mig fólk sem var komið á eftirlaun og átti ekki orð yfir almannatryggingakerfið og skerðingarnar þar. Ég man sérstaklega eftir einni fullorðinni konu í fjölskyldunni, sem fannst mikilvægt að þetta væri rætt. Hún sem hafði unnið utan heimilis alla tíð, var ekki sátt við að fá það sama í eftirlaun og vinkona hennar sem hafði aldrei unnið úti og aldrei greitt í lífeyrissjóð. Skiptir þá engu máli hvort maður borgar í lífeyrissjóð eða ekki? spurði hún.

Á þeim tíma var ég uppteknari af öðrum málum, eins og flestir sem eru ungir. Þeir eru önnum kafnir við að ala upp börn og hasla sér völl í atvinnulífinu. En ég mundi vel eftir þessari umræðu, þó ekki yrði neitt af því þá að ég skoðaði málið nánar. Ég fékk hins vegar tækifæri til að gera það síðar, þegar nokkrir einstaklingar úr svokölluðum Aðgerðahópi aldraðra komu uppá fréttastofu Sjónvarps, og vildu koma á framfæri útreikningum sínum á „ jaðarsköttum“  í almannatryggingakerfinu. Ef við fáum einhverjar viðbótartekjur, þá endar kannski með því að ráðstöfunartekjurnar lækka, sögðu þau og brostu feimnislega, því ekki vildu þau vera að ónáða eða trana sér fram. Útreikningar þeirra sýndu hins vegar svart á hvítu að svona var málunum háttað.

Umræðan um skerðingarnar hefur þannig staðið árum og jafnvel áratugum saman, án þess að nokkuð breytist. Kannski gildir það sama um stjórnmálamennina og sjálfa mig, þegar ég var yngri og þessi mál höfðu ekki forgang í mínum huga. Það er mér hins vegar æ meira undrunarefni eftir því sem árin líða og ég nálgast sjálf eftirlaunaaldurinn, að eldra fólkinu í landinu sem fær sín eftirlaun frá ríki og lífeyrissjóðum, sé haldið í einhvers konar sér hólfi og í öðru skattkerfi en almennum skattgreiðendum. Hvað er því til fyrirstöðu að fólk fái sinn ellilíefyri, greiðslur úr lífeyrissjóðnum sínum, jafnvel atvinnutekjur og fjármagnstekjur – Já, og borgi bara af því sams konar skatta eins og allir aðrir í þessu samfélagi?   Slíkt yrði mikil einföldun á kerfinu,  fæli líklega í sér hagræðingu og sparnað og menn færu jafnvel að skilja kerfið.  Þetta er bæði réttlætismál og  mannréttindamál.

 

Erna Indriðadóttir júlí 2, 2018 07:24