Viltu ferðast aftur í tímann á sunnudaginn?

Sunnudagur til sælu er yfirskrift sunnudagsins 9. júní á Árbæjarsafni en þá býðst gestum að upplifa ferðalag aftur í tímann. Starfsfólk klæðist fatnaði sem tíðkaðist á 19. öld og sinnir ýmsum störfum sem nauðsynleg eru á hverjum bæ. Húsfreyjan í Árbæ býður upp á nýbakaðar lummur og á baðstofuloftinu situr kona við tóskap. Í haga er að finna hesta, kindur og lömb og í Dillonshúsi verður heitt á könnunni og heimilislegar veitingar.

 

Dagskráin hefst kl.13 og stendur til kl.16. Ókeypis aðgangur fyrir börn, eldri borgara, öryrkja og menningarkortshafa.

 

Árbæjarsafn er opið í allt sumar frá klukkan 10-17.

Ritstjórn júní 7, 2019 10:24