Tengdar greinar

Níræð Star Trek-stjarna út í geim

Hollywood-stjarnan William Shatner er elsti maðurinn til að fara út í geim, en hann var um borð í geimfarinu Blue Origin sem skotið var á loft frá Texasfylki í morgun. Shatner er 90 ára og frægastur fyrir að leika James T. Kirk skipstjóra í Star Trek-myndunum sem gerast einmitt í geimnum.

Shatner var einn af fjórum áhafnarmeðlimum geimferjunnar, en ferðin stóð einungis í 10 mínútur. Ferjuna þróaði Jeff Bezos, stofnandi Amazon, og lenti hún aftur kl. 10 að staðartíma heilu og höldnu.

Leikarinn fékk að upplifa þyngdarleysi í stutta stund þegar geimfarið klifraði rétt yfir 100 kílómetra hæð. Þaðan gat stjarnan virt fyrir sér jarðarkringluna út um stóran glugga á ferjunni.

„Það er einhver dulúð sem tengist því að að vera í geimnum, svona miklu nærri stjörnunum og þyngdarlaus,“ sagði kanadíska stjarnan áður en henni var skotið á loft. „Ég ætla að njóta útsýnisins utan úr geimnum. Ég vil horfa á þennan hnött sem jörðin er og njóta fegurðar hennar.“

Shatner fékk tveggja daga þjálfun fyrir geimskotið, þótt ekkert væri raunverulega fyrir hann að gera annað en að njóta. Geimfarið eða -hylkið er fullkomlega sjálfvirkt.

Með Shatner í fluginu var Audrey Powers, varaforseti Blue Origin-fyrirtækisins, Chris Boshuizen, einn af stofnendum Planet-fyrirtækisins sem sérhæfir sig í gervitunglamyndum, og Glen de Vries, framkvæmdastjóri hjá franska hugbúnaðarfyrirtækinu Dassault Systèmes.

Næstelstur til að fara út í geim með þessari sömu ferju var geimfarinn Wally Funk, en hún er 82 ára og fór í samskonar geimskot 20. júlí síðastliðinn.

BBC fjallar um geimskotið hér.

Ritstjórn október 13, 2021 16:03