Njóta efri áranna meðan stætt er

Vitur kona sagði eitt sinn að maður ætti að njóta þess að vera til á hverjum degi því að lífið sem maður ætti í dag væri gjöf sem nýttist ekki síðar. Það er list að kunna að lifa í núinu og njóta hvers dags en til eru þeir sem kunna það betur en aðrir. Sumir eru á enn betri stað og njóta líðandi stundar en huga jafnframt að framtíðinni og gera ráðstafanir til að hún verði sem allra best. Hjónin Ásta S. Eyjólfsdóttir og Lárus Berg Sigurbergsson kunna þessa list betur en margir og byrjuðu að huga að framtíðinni fyrir meira en tuttugu árum og njóta ávaxtanna ríkulega í dag.

Eftir að hafa orðið samferða í bíl af balli úr Hlégarði ofan úr Mosfellssveit, sem þá hét, þann 2. desember 1962, hafa þessi jákvæðu og glæsilegu hjón gengið saman lífsins götu. Þremur börnum og fimm barnabörnum síðar segja þau okkur frá því hvaða ákvarðanir þau tóku fyrir meira en tuttugu árum með það að augnamiði að gera lífið eftir miðjan aldur eins skemmtilegt og þægileg og kostur væri. Þau tóku ákvarðanir og breyttu mörgu þannig að árin eftir miðjan aldur hafa verið skemmtileg og full af ævintýrum.

Hættu að vinna 64 ára

Ásta og Lárus að spila golf á Florída.

Þau Ásta og Lárus ákváðu að hætta að vinna löngu áður en þau þurftu þess. Af hverju?

Lárus: ,,Ég hafði alla tíð unnið mikið. Ég er lærður húsgagnasmiður og vann sem slíkur í 15 ár en fór þá að vinna fyrir Ölgerðina og var þar í samfleytt 30 ár. Ég kom að tæknilegri uppbyggingu fyrir fyrirtækið en til að kynnast því sem allra best vann ég til að byrja með á öllum sviðum þess. Ég vann alla tíð  mikið og ekki síst á sumrin svo við gátum sjaldan tekið okkur frí fyrr en á haustin. Ég var löngu búinn að ákveða að ef ég gæti hætt að vinna 65 ára þá myndi ég gera það og helst vildi ég hætta 60 ára. Svo kom hrunið og aðstæður voru þannig að ég gat ekki hætt fyrr en árið 2009 en þá var ég orðinn 64 ára gamall en mig vantaði 5 mánuði í að vera 65 ára. Það stóð þannig á skrefi að ég var að klára stórt verkefni í september 2009 og ákvað að láta staðar numið á vinnumarkaði þegar því væri lokið. Lengst af var það þannig í Ölgerðinni að menn máttu vinna í raun eins lengi og þeir vildu en síðar var tekin ákvörðun um að láta viðmiðunina vera 70 ár en það stóð aldrei til hjá mér að vinna svo lengi. Best hefði þó verið að geta hætt 60 ára!

Ég hef ekki séð eftir þessari ákvörðun einn einasta dag. Ég átti kannski von á því að félagslegi þátturinn yrði erfiðastur þegar ég hætti því ég vann með mörgum góðum og skemmtilegum vinnufélögum en ég hef aldrei saknað þess að mæta í vinnuna og hef ekki sótt í að mæta á kaffistofuna eftir að ég hætti störfum. Ég var mjög sáttur þegar ég gekk út úr Ölgerðinni því það sem gerðist var að nýr kafli tók við í lífinu, mjög skemmtilegur kafli, og ég hef notið þeirrar gæfu að hafa aldrei litið til baka með söknuði.“

Hvað með þig Ásta? Varstu sama sinnis?

,,Nei, í rauninni ekki en ég ákvað að hætta að vinna á svipuðum tíma og Lárus en við vorum bæði 64 ára. Ég er ekki viss um að ég hefði hætt ef hann hefði ekki gert það. Ég var mjög ánægð í vinnunni og átti þar góðar vinkonur sem ég naut að vinna með en ég starfaði þá sem fulltrúi á skrifstofu Viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands. Ég hafði unnið þar í tólf ár en ég verð að viðurkenna að eftir á fannst mér alveg ágætt að hafa hætt að vinna! Ég saknaði auðvitað vinkvennanna af skrifstofunni en við stofnuðum lítinn klúbb í kjölfarið og höfum alltaf hist tvisvar á ári og notið þess að spjalla og njóta lífsins yfir góðum mat og góðu víni.

Ég tók reyndar aðra ákvörðun á þessum tímamótum því að um leið og ég hætti að vinna fasta vinnu í HÍ ákvað ég byrja að sitja þar yfir í prófum og ég hef unnið við prófgæslu frá haustinu 2009. Lárus ákvað svo að feta í mín fótspor að gera slíkt hið sama en hann hefur setið yfir síðan vorið 2010. Við ætlum að sitja yfir í vor en ég veit ekki hvort við höldum áfram eftir það – veit ekki hvort við höfum tíma til þess því það er svo mikið að gera hjá okkur!“

Höfum aldrei haft eins mikið að gera

Hvað tekur nú við þegar vinnu sleppir, er setið með hendur í kjöltu og horft út um gluggann?

,,Nei, svo sannarlega ekki,“ segja þau bæði. ,,Við höfum aldrei haft eins mikið að gera og lifum skemmtilegu lífi – þökk sé heilsunni.“

Þau hjón ákváðu rúmlega fimmtug að byrja að læra og spila golf sem var liður í að undirbúa framtíðina.

Lárus: ,,Eins og ég man þetta þá kom Ásta að máli við mig og stakk upp á því að við myndum byrja í golfi,  Ég hafði engan áhuga á því, hélt að það væri nú ekki nógu mikil spenna í golfi fyrir mann eins og mig og að auki hefði ég engan tíma því ég var að vinna fulla vinnu og vel það. Hafði sem sagt hvorki tíma né nennu! Hún seldi mér hugmyndina þannig að við ættum að huga að framtíðinni, orðin 55 ára. Mér fannst maður alltaf hafa nógan tíma í framtíðinni og gæti skipulagt tíma sinn seinna og taldi enga þörf á að gera það meðan við vorum svona ung en núna er ég fegin að hafa hlustað á hana.“

Ásta: ,,Mig langaði að læra golf af því að ég smitaðist af áhuga fólks í kringum mig á þeim tíma. Mig minnir að ég hafi sagt eitthvað á þá leið við Lárus að það gæti vel verið að við gætum átt meiri frítíma í framtíðinni þegar við værum orðin eldri og þá gæti verið gott að geta gripið í golfið. Hann keypti þá hugmynd sem betur fer!“

Þau eru sammála um að þetta sé ein besta hugmynd sem þau hafa fengið og framkvæmt.

Samhent hjón.

Lárus: ,,Ég sé mest eftir að hafa ekki byrjað fyrr. Ég er svo mikill keppnismaður og grunar að ég væri þá kannski betri golfspilari í dag en ég er ef við hefðum byrjað yngri að læra.“

Ásta: ,,Ég tek undir það en þar fyrir utan þá er þetta svo skemmtileg íþrótt að ég vildi hafa kynnst henni fyrr. Golfið gefur ekki bara mikla skemmtun heldur fær maður góða hreyfingu því að við göngum stundum allt að 10 km þegar við spilum heilan hring, við spilum alltaf þegar viðrar til þess og t.d. síðasta sumar spiluðum við 4-5 sinnum í viku. Auk þessa er félagsskapurinn eitt það mikilvægasta og höfum við kynnst fullt af góðu fólki í golfinu. Og eftir að systur mínar og makar byrjuðu í golfinu höfum við spilað mikið saman, bæði hérlendis og erlendis ásamt vinahjónum okkar úr Borgarnesi. Þessi hópur hefur ferðast og bæði farið í hreinar golfferðir og einnig venjulegar skoðunarferðir en við erum sammála um að það er ekki verra ef hægt er að spila golf í þeim ferðum líka! Við höfum farið í u.þ.b. tíu ár til Flórída til þess eins að spila golf og verið þar í sex vikur að jafnaði en auk þess förum við til annarra heitra landa til að spila golf yfir vetrarmánuðina.“

Er golf erfið íþrótt eða heppileg íþrótt fyrir eldri borgara?

Lárus: ,, Já svo sannarlega er golfið heppileg íþrótt fyrir eldri borgara. Hægt er að spila golf á öllum aldri og þar er ekkert kynslóðabil því oft sér maður ömmur, afa, börn og barnabörn spila saman. Þar kemur aftur að félagsskapnum sem golfið veitir. Við erum bæði mjög heppin að vera í góðu líkamlegu ástandi en golf getur verið erfið íþrótt fyrir þá sem eru ekki góðir í skrokknum. Þeir sem eru að kljást við vandamál í hnjám eða mjöðmum eða eru slæmir af gigt geta lent í vanda í golfinu. Benda má á að til eru golfbílar og skutlur sem fólk getur nýtt sér til að létta sér lífið meðan spilað er. Einn hringur getur tekið 4-5 tíma og maður gengur að jafnaði 7-10 km í hvert sinn. Auðvitað er hægt að spila hálfan hring en allt tekur þetta á ef maður er ekki í nógu góðu standi.

Annars er golfið mjög góð íþrótt því hreyfingin er góð og þægileg en að auki er þetta gott fyrir mann andlega og heldur hausnum á manni ferskum.“

Sumarbústaður við golfvöllinn

Þau hjónin eiga yndislegan sumarbústað sem er staðsettur nokkrar mínútur frá Hamarsvellinum sem er við Borgarnes. Var staðsetningin valin út frá golfáhuganum?

Ásta: ,,Nei, alls ekki. Við erum búin að vera með sumarbústað á þessu svæði síðan 1981 eða í tæp 40 ár. Móðir mín er fædd í Múlakoti í Stafholtstungum og fékk hún sumarbústaðaland hjá skólasystur sinni sem bjó á Stórafjalli í Borgarbyggð. Það varð úr að við Lárus byggðum okkur lítið hús í landi  Stórafjalls eða um 35 fermetra með systur minni Ólöfu og mági. Þriðja systir okkar, hún Gróa, byggði sér þar álíka stórt sumarhús með móður minni. Við fjölskyldurnar notuðum sumarhúsin mikið en þetta voru bæði lítil hús og hvorki rennandi vatn né rafmagn í þeim á þeim tíma. Í okkar tilfelli varð húsið ekki nógu stórt fyrir tvær fjölskyldur með börn og barnabörn svo við ákváðum því að kaupa hlut systur minnar í bústaðnum en seldum síðan gamla húsið til brottflutnings og keyptum okkur nýtt og stærra hús og létum flytja á lóðina árið 2005. Þannig vorum við komin með heilsárs hús sem við létum setja þar sem það gamla hafði verið en með því móti gátum við notað og nýtt okkur gróðurinn sem við vorum búin að rækta í fjölda ára. Gróa systir stækkaði sitt hús og Ólöf byggði sér nýjan bústað á landinu. Það vill svo skemmtilega til að landið er rétt við Hamarsvöllinn og við systurnar og makar spilum nú öll golf og höfum mjög gaman af.

Þau Ásta og Lárus kunna sannarlega að njóta þess að vera til.

Þetta er yndislegur staður sem við sækjum mikið í. Við erum þarna allt sumarið eða frá því að prófum lýkur í HÍ um miðjan maí og fram á haustið þegar veður leyfir. Fyrir utan að spila golf 4-5 daga vikunnar er nóg að gera í því að halda bústaðnum við og dytta að gróðrinum. Það er alltaf nóg að gera í bústaðnum.

Krakkarnir okkar eru mjög viljug að koma, og barnabörnin ekki síst, þannig að það er alltaf töluverður gestagangur. Það er í raun aldrei dauður tími í sveitinn. Við höfum kannski aldrei haft eins mikið að gera eins og núna eftir að við hættum að vinna,“ segir Ásta brosandi og Lárus tekur undir:

,,Tíminn sem við lifum núna er mjög skemmtilegur, lífið er sannarlega yndislegt. Þetta er kannski besti tíminn þegar upp er staðið – fyrir utan þegar börnin voru að vaxa úr grasi.“   

Vera á fyrsta farrými meðan stætt er

Ásta og Lárus hafa alla tíð verið óhrædd að fara sínar eigin leiðir og að stíga út fyrir þægindarammann. Eitt af því sem þau gerðu var að selja einbýlishúsið sitt árið 2016 og allt innbúið í leiðinni og fluttu í blokk sem var byggð fyrir þá sem voru orðnir 55 ára.

Lárus: ,,Við byggðum okkur einbýlishús í Hafnarfirði á einni hæð á sínum tíma og bjuggum þar í 35 ár. Húsið var orðið allt of stór fyrir okkur tvö enda byggt fyrir fimm manna fjölskyldu. Eins var stór garður í kringum húsið svo það var allt of mikill tími og vinna sem fór í að sinna húsinu og garðinum á sama tíma og við vorum með sumarbústaðinn og lóðina í kringum hann. Þess vegna ákváðum við að selja. Við gáfum okkur töluverðan tíma í að leita og fundum alltaf eitthvað að öllu sem við skoðuðum þangað til við fundum þessa íbúð hér en hún hafði allt sem við leituðum að. Hún er björt með fallegt útsýni yfir Elliðavatn, það er góður andi í húsinu og hér er góður bílakjallari og lyfta en við settum það sem skilyrði þegar við fórum að leita að nýju húsnæði.“

Skiptir máli að búa í húsnæði sem setur skilyrði að íbúarnir séu orðnir 55 ár?

Ásta: ,,Já, okkur þykir það. Það er mikill kostur og hentar þörfum okkar ágætlega. Okkur var í raun alveg sama hvar við myndum búa en skilyrðið var að hafa útsýni og að sambýlið væri fyrir þá sem væru komnir yfir miðjan aldur.

Við ákváðum að fara alla leið og seldum öll okkar húsgögn þegar við fluttum því okkur fannst þau of stór og ekki passa inn á þetta nýja heimili og við söknum þeirra ekki neitt. Það tók enn á ný við nýtt tímabil í okkar lífi með þessum flutningi enda höldum við ekki í fortíðina.

Til gamans má nú geta þess að það er ekki verra að önnur systir mín og mágur búa hér í húsinu en hin í nálægri götu.“

Ekki gaman að vera gamall á Íslandi auralaus

Hvernig gengur að lifa af launum eldri borgara?

Lárus: ,,Við undirbjuggum okkur vel fyrir efri árin meðan við vorum að vinna og lögðum fyrir. Það er ekki gaman að vera gamall Íslandi auralaus. Við höfum þurft að taka af sjóðnum okkar í hverjum mánuði til þess að láta enda ná saman. Maður verður að njóta lífsins meðan hægt er, vera á fyrsta farrými meðan stætt er, en það gerir maður ekki á ellilífeyrinum einum saman því það er ekki hægt hér á Íslandi.“

Ásta: ,,Þegar við tókum ákvörðun um að kaupa nýja bústaðinn sagði ég alltaf að ég liti á hann sem minn lífeyrissjóð. Ég get alltaf selt hann ef við lendum í ógöngum fjárhagslega og við munum selja hann um leið og við hættum að geta séð sómasamlega um hann.“

Hvað er svo fram undan hjá ykkur?

,,Við erum á leiðinni til Tenerife í golfferð með hópnum okkar sem inniheldur okkur systurnar þrjár og maka. Eftir ferðina tekur við prófgæsla í HÍ í vor og svo vonandi gott golfsumar í Borgarfirðinum. Við eigum ekki von á öðru en að lífið haldi áfram að vera ævintýri og muni bjóða okkur upp á skemmtilega og óvænta hluti í framtíðinni sem hingað til.“

Ritstjórn febrúar 28, 2020 08:13