Nokkrar leiðir til að verjast því að detta

Að detta og meiða sig er aldrei gott en með árunum verður líklegra að alvarlegur skaði hljótist af falli. Fólk á einnig erfiðara með að verjast falli þegar það eldist og fyrir því eru margar ástæður. Þess vegna er mikilvægt að draga úr áhættunni eins og hægt er og lítum á nokkur atriði í umhverfinu sem geta stuðlað að því að fólk detti og hvernig má draga úr hættunni.

Ýmis lyf

Meðal aukaverkana með sumum lyfjum er svimi og jafnvægisleysi. Það er einnig til í dæminu að lyf valdi sjóntruflunum. Allir ættu því að skoða vel hvernig aukaverkanir geta fylgt þeim lyfjum sem þeir taka. Nefna má til að mynda að ofnæmislyf, slakandi lyf og háþrýstingslyf eru meðal þeirra sem geta haft áhrif á jafnvægi og valdið svima og í örfáum tilfellum sjóntruflunum. Með því að kynna sér vel lyfin og virkni þeirra verður fólk meðvitaðra um hvað þau gera og þess vegna betur undir það búið verði vart einhverra aukaverkana.

Sjúkdómar

Ákveðnir sjúkdómar geta haft áhrif á bæði sjón og jafnvægisskyn. Þeirra á meðal eru sykursýki, parkinsons, gigt og heilablóðfall. Sykursýki getur valdið blæðingum í augnbotnum og skemmt sjónina. Ef fólk með sykursýki passar ekki að borða reglulega getur blóðsykurinn orðið of lágur og þá er hætta á svima og sljóleika. Parkinsons-sjúkdómurinn hefur áhrif á vöðvastyrk og jafnvægi hjá mörgum og hið sama má segja um heilablóðfall. Gigtarsjúklingar finna einnig mjög fyrir vöðvastirðleika og vegna sársauka hafa þeir minni stjórn á líkamanum. Allar hreyfingar valda sársauka og þess vegna er erfitt að bregðast við ef menn hrasa og ná að verjast falli. Háþrýstingur hrjáir margar og í sumum tilfellum finnur fólk sem glímir við hann fyrir svima og jafnvægisleysi þegar það stendur snögglega og hratt upp. Þeir sem glíma við þessa sjúkdóma geta dregið úr hættunni með því að gæta þess vel að hvílast, borða reglulega og holla fæðu og stunda hreyfingu sem eykur liðleika.

Gæludýr

Það er dásamlegt að eiga gæludýr. Þau eru góður félagsskapur, róa taugarnar og bæta heilsu en þau geta skapað aukna fallhættu inn á heimilum. Bæði kettir og hundar eiga til að flækjast fyrir fótum manna og það getur orðið til þess að eigandinn steypist fram fyrir sig. Samkvæmt rannsókn datt fólk oftast þegar það var að reyna að klofa yfir dýrið til að komast að dyrunum og opna. Gott ráð er að færa dýrið frekar úr stað vegna þess að þau eiga til að standa upp þegar einhver reynir að fara yfir þau. Næst algengast er að menn detti þegar þeir eru að gefa dýrinu og það í gleði sinni nuddar sér við fætur eigandans. Í þeim tilfellum er spurning að loka dýrið úti meðan bætt er í dallinn þeirra. Hundar eiga einnig til að rjúka af stað þegar þeir sjá eitthvað spennandi í göngutúrum og þá er eins gott að eigandinn sé viðbúinn. Eina ráðið við því er að þjálfa hundinn vel og það er hægt að fá hjálp frá hundaþjálfurum.

Verri rýmisskynjun, sjón og verra minni

Þegar við  eldumst verður rýmisskynjun verri og við eigum til að ganga á hluti eða reka okkur utan í vegna þess að við skynjum ekki eins vel hvar hlutirnir enda og byrja. Minnið á einnig til að svíkja sé fólk á ferli í myrkri og það getur gengið á eða rekið sig í húsgögn sem það mundi ekki nægilega vel hvar stóðu. Náttblinda eykst með aldrinum og sjónin breytist. Hægt er að minnka hættuna með því að sjá til þess að leiðir á klósett og kveikja ljós til að vera viss um að maður sjái vel til. Gleraugun ættu alltaf að vera á náttborðinu eða þar sem auðvelt er að nálgast þau.

Heyrnin og jafnvægið

Heyrn og jafnvægi eru nátengd því hluti af jafnvægisstillingarkerfi líkamans er í innra eyranu. Þegar heyrnin breytist eða fólk fær eyrnarbólgur í kjölfar sýkinga getur jafnvægisskynið breyst. Það er gott að hafa þetta í huga og ráðgast við lækni eða sjúkraþjálfara um hvernig hægt er að bæta jafnvægið með ýmsum æfingum.

Illa snyrtir fætur

Líkþorn, inngrónar táneglur og sár á fótum geta valdið því að fólk dettur vegna þess að það er sárt að ganga og það fer að beita sér vitlaust til að draga úr sársaukanum. Með því að fara á sex vikna fresti til fótsnyrtifræðings er hægt að halda fótunum mjúkum og heilbrigðum.

líkamsrækt, lóð, lyftingarMinnkað vöðvaafl

Vöðvarnir rýrna með árunum og fólk ætti að lyfta lóðum einu sinni til tvisvar í viku til að halda vöðvamassanum við. Jóga, teygjuæfingar og æfingar í vatni hjálpa einnig við að halda liðleika og hvoru tveggja kemur sér vel ef fólk þarf að verjast falli.

Beinþéttni og þyngd

Beinþéttni minnkar með árunum og sumir glíma við beingisnun. Hún veldur því að beinin verða stökk og brotna frekar ef fólk dettur. Margt bendir líka til að beingisnun hafi áhrif á kraft fólks og hreyfigetu. Þeir sem eru með beingisnun eða byrjun á henni ættu að vera meðvitaðir um að svo sé og reyna að styrkja sig með ýmsum ráðum, m.a. með því að lyfta lóðum, taka inn kalk, D-vítamín og borða fisk og grænt grænmeti. Líkamsþyngd getur einnig haft áhrif á hreyfigtu sem og sársauki og stirðleiki í liðum. Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem hreyfa sig hægt og af óöryggi eru líklegri til að detta. Margvísleg hjálpartæki eru til sem enginn ætti að hika við að notfæra sér, göngugrindur, stafir og stuðningsspelkur eru frábær lausn fyrir marga. Góðir stöðugir skór hjálpa líka.

Hjartsláttartruflanir

Hjartasláttartruflanir eru þegar hjartað slær annað hvort of hratt eða of hægt. Hvoru tveggja getur valdið svima og jafnvægisleysi. Ef fólk finnur fyrir hjartasláttartruflunum ætti það að leita læknis og láta rannsaka ástand sitt. Hugsanlega þarf við komandi á gangráð eða bjargráð að halda.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 28, 2025 07:00