Nýir augasteinar úr plasti

Það færist í vöxt að fólk fari í aðgerðir til að fá nýja augasteina, en slíkar aðgerðir eru núna algengustu augnskurðaðgerðir sem gerðar eru á landinu.   Á síðasta ári fengu rúmlega 1800 eintaklingar nýjan augastein, en aðgerðir þar sem skipt er um augastein í fólki eru gerðar á fjórum stöðum á landinu. Hjá Landsspílanum, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og hjá Sjónlagi og Lasersjón. Þótt aðgerðirnar sem gerðar eru, slagi þannig hátt uppí 2000 á ári, dugar það ekki til, því næstum 1600 manns biðu í febrúar á þessu ári eftir að komast í slíka aðgerð, samkvæmt tölum frá Landlæknisembættinu. Biðin var sögð mismunandi eftir stöðum, en hún getur orðið allt upp í rúmlega eitt ár. Biðtíminn eftir augasteinsaðgerð var stystur hjá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri í febrúar, eða um þrír mánuðir. Landlæknir hefur ekki nýrri tölur en frá í febrúar og læknir sem Lifðu núna talaði við segir að biðin sé nú orðin um eitt og hálft ár.

Einföld aðgerð

Með aldrinum geta myndast svokölluð ský á augasteininum sem valda því að fólk fer að sjá illa. Sigríður Þórisdóttir augnlæknir hjá Augnlæknum Reykjavíkur, segir að af þeim sjúkdómum sem herji á augun, sé einna algengast að skýin valdi sjónskerðingu. Þau myndist á augasteininum með aldrinum og þeir sem láta skipta um augastein eru yfirleitt komnir um og yfir sjötugt. Sigríður segir að aðgerðin sé tiltölulega stutt, framkvæmd í dropadeyfingu og fólk fljótt að jafna sig í kjölfarið. Nýr augasteinn er úr plasti og dugar fólki yfirleitt alltaf það sem eftir er ævinnar.

Eykur lífsgæðin verulega

Sigríður segir að augasteinninn í mönnum sé kringlóttur og inní nokkur konar sekk. „Sekkurinn á að vera tær“ ,segir hún „en breyting í vefjunum inní honum gerir að verkum að hann dökknar og hleypir ekki ljósi í gegnum sig. Við það dofnar sjónin og erfitt verður að greina liti, sem er til dæmis afleitt fyrir þá sem sauma út.  Í aðgerðinni er sekkurinn skilinn eftir en innihaldið tekið með hljóðbylgjum. Nýja augasteininum sem er úr mjúku plasti, er bögglað saman og hann settur inní augað í gegnum lítið op. Hann opnast svo upp inní sekknum“. Að sögn Sigríðar er mjög sjaldgæft að aftur þurfi að skipta um augastein í mönnum og hún segir ótrúlegt hvað aðgerðin auki lífsgæði fólks mikið. „Ef ekki eru fyrir aðrir augnsjúkdómar svo sem gláka, hrörnun í augnbotnum eða annað þá fær fólk góða sjón í kjölfarið“.

Kostnaðurinn

Sjúkratryggingar greiða hluta af augasteinsaðgerðinni, en hlutur sjúklings ef aðgerðin er gerð á Landsspítala er rúmlega 14 þúsund krónur, en rúmlega 5000 krónur ef fólk er með afsláttarkort. Hjá einkastofunni Sjónlagi, greiða Sjúkratryggingar fyrir ákveðinn fjölda aðgerða og er þá hlutur sjúklings 15 – 20.000 krónur fyrir annað augað en 30-40.000 krónur fyrir bæði augu og lægri ef fólk er með afsláttarkort. Það er hins vegar þriggja ára bið eftir aðgerðunum sem Sjúkratryggingar greiða fyrir. Ef menn eru hins vegar tilbúnir að greiða aðgerðirnar að fullu sjálfir geta þeir komist í aðgerðina hjá Sjónlagi fyrr, en það kostar 195.000 krónur á hvort auga.

 

Ritstjórn september 1, 2014 09:38