Vilja samstarf við íslenska tannlækna

Hátt í 200 manns hafa síðasta árið farið til tannlæknis á tannlæknastofuna Madenta í Búdapest, á vegum hjónanna Gunnars Jónatanssonar og Rósu K. Benediksdóttur sem eru tengiliðir hennar hér á landi. Gunnar og Rósa eru að skipuleggja hópferð til Madenta seinni partinn í maí.  „Ég held ég megi fullyrða að þjónustan sé 50-70% ódýrari en hér. Samanlagður ferðakostnaður og tannlæknakostnaður er í flestum tilfellum mun lægri en kostnaður við sambærilega tannlæknameðferð á Íslandi“, segir Gunnar við blaðamann Lifðu núna. Rósa kynntist tannlæknaþjónustunni í Búdapest fyrir nokkrum árum þegar hún þurfti sjálf á slíkri þjónustu að halda. Henni leist ekkert á verðtilboðið sem henni bauðst hjá sínum tannlækni hér til margra ára og  hafði heyrt í gegnum ungverska vinkonu sína að það væri þessi virði að kanna möguleika og verð á tannlæknaþjónustu í Búdapest, en þrátt fyrir búsetu á Íslandi sækir hún nánast alla sína heilbrigðisþjónustu þangað. Með því að smella hér, má sjá verðskrána fyrir tannlækningarnar hjá Madenta.

Búdapest í Ungverjalandi

Ekki bara að fara til tannlæknis

Gunnar segir það hins vegar að sjálfsögðu fara eftir því hversu viðamikil tannlæknameðferðin er, hvernig dæmið reiknast. „Langflestir þeirra sem kjósa að fara út eru að sækjast eftir viðamiklum aðgerðum og því er dæmið mun hagstæðara í Budapest en hér heima, þrátt fyrir ferðakostnað. Hluti af þjónustunni er að bjóða hagstæð verð á gistingu hjá samstarfsaðilum og allkonar ráðgjöf við ferðaskipulagningu svo það er margt sem kemur til“, segir Gunnar.  „Þú ert ekki bara að fara til Búdapest til að fara til tannlæknis. Borgin er af mörgum talin ein sú fallegasta í Evgrópu og þar er mjög margt að sjá og gera. Fólk er að gera vel við sig fyrir tiltölulega lítinn peninga, á sama tíma og það fer til tannlæknis. Einstaklingar sem hafa trassað það af fjárhagsástæðum að láta gera við tennurnar í sér, eða hafa verið illa haldnir af tannlæknafóbíu, hafa verið mjög ánægðir með þjónustuna úti“, segir Gunnar og bætir við að það séu auðvitað lífsgæði að geta tuggið matinn sinn!

Brautryðjendur í heilsuferðaþjónustu

Gunnar segir að Ungverjar séu brautryðjendur í heilsuferðaþjónustu og meðal þeirra fremstu í heiminum á því sviði. Margir sæki líka menntun til Ungverjalands, bæði íslenskir læknar og tannlæknar því standardinn sé hár.  Gunnar segir að Rósa hafi fundið danskan vef samstarfsaðila Madenta, en í gegnum hann er töluverð starfsemi sem felst í leiðbeina dönum sem vilja sækja tannlæknaþjónustu í Búdapest. „Það eru margir tannlæknar í Búdapest einyrkjar eins og við þekkjum hér, en við höfðum samband við þessa stofu, Madenta, sem er 30 manna glæsilegur vinnustaður með 15 sérhæfða tannlækna, þannig að unnt er að bjóða alhliða þjónustu á einum stað.  Þjónustulund og alúðlegt viðmót mætir manni hvar sem er í Budapest og á margan hátt er þjónustan betri en við eigum að venjast hér. Það er mjög gott að fá nákvæm verðtilboð og þaulskipulögð meðferðarplön fyrirfram.

Hægt að fá skoðun og meðferðartillögu

Gunnar og Rósa hafa bæði sótt þjónustu til Madenta, kynntust eiganda stofunnar sem er mikill Íslandsvinur, og svo komst á gott samstarf sem hefur nú staðið í rúmt ár og fjöldi fólks hefur á þeim tíma farið á þeirra vegum út til tannlæknis. Hann segir boðið uppá tvær leiðir. Í fyrsta lagi aðstoð við þá sem vilja fara út á eigin vegum og hins vegar er hann að skipuleggja hópferð fyrir fólk  sem verður farin  25. maí.  Þeir sem fara út á eigin vegum, fara í skoðun hjá Madenta sem gerir fyrir þá meðferðartillögu, þeim að kostnaðarlausu. Tvær nætur á hóteli eru innifaldar, en fólk greiðir sjálft fyrir flugið.  Það er líka mögulegt fyrir þá sem vilja vera á eigin vegum, að fara í röntgenmyndatöku hér á Íslandi, senda myndirnar út og þá koma tannlæknar Madenta með nákvæma tillögu um hvað þurfi að gera og hvað það muni kosta. Þeir sem fara í hópferðina í maí geta farið í skoðun og fengið tillögu frá læknunum úti um það sem þarf að gera. Menn geta svo ákveðið í framhaldinu hvort þeir vilja fara í meðferð eða ekki. „Þó þú stígir einhver skref, ertu ekki að skuldbinda þig neitt, ekki fyrr en þú ákveður að gera það“, segir Gunnar.

Beint flug til Búdapest

Algengast er að flugið til Búdapest fram og tilbaka kosti á bilinu 22-27.000 krónur fyrir manninn. Gunnar segir þó hægt að fá bæði dýrara og ódýrara flug, en það séu undantekningartilvik. Það er Wizz Air sem flýgur á þessari leið, tvisvar í viku yfir vetrartímann, en þrisvar yfir sumartímann. Gunnar segir að ef til dæmis þurfi að setja inn einn tannplanta og nýja tönn, þá þurfi að fara út tvisvar sinnum og stoppa í 3-4 daga í fyrra skipið, en viku í seinna skiptið, 3-4 mánuðum seinna. Þetta séu tvær utanlandsferðir og 10 nætur á hóteli. Þetti geti sannarlega verið notalegt frí og kostnaðurinn bæði við tannlækningarnar og fríið sé í mörgum tilvikum svipaður og á tannplanta og krónu einu og sér hér á landi.

Ekki sömu tannplantar hér og þar

Þeir sem hafa rætt við íslenska tannlækna um ferðirnar til Búdapest, fá til að mynda þau svör að það geti verið erfitt að fá gert við hér heima, ef eitthvað fer úrskeiðis hjá tannlækninum ytra. Þar séu nefnilega notaðir tannplantar sem ekki séu í notkun hér. Gunnar segir að það eigi við um öll lönd, að þau noti ekki öll sömu gerðir tannplanta. Hafi menn réttu verkfærin, þjálfun og þekkingu á hins vegar að vera hægt að leysa málin.  Hann segir líka að vinnunni í Búdapest fylgi ábyrgð. Krónur og brýr séu með þriggja ára ábyrgð, innplantinn sjálfur sé með lífstíðarábyrgð, en krónan sem er fest á hann, með þriggja ára ábyrgð.

Leitum eftir samstarfi hér heima

Gunnar segir að Madenta vilji gjarnan eiga samstarf við íslenska tannlækna. „Við myndum vilja hafa samstarf við tannlækna hér á landi.  Það hefur ekki verið mikill áhugi á því enda finna þeir orðið vel fyrir þessari samkeppni. Ég tel að það gæti verið ávinningur af því fyrir tannlækna hér á landi að eiga sér samstarfsaðila annars staðar. Deila viðskiptum og þekkingu, læra hver af öðrum. Nú þegar reglur Sjúkratrygginga gilda jafnt fyrir lífeyrisþega sem þiggja tannlæknaþjónustu hér á landi og í Ungverjalandi, þá verður þessari þróun ekki snúið við“.

Ritstjórn apríl 26, 2019 15:19