Þórunn Sveinbjörnsdóttir fyrrverandi formaður LEB skrifar:
Nú á vormánuðum var veittur styrkur til Landssambands eldri borgara og Rauða krossins til að fá fleira fólk til að gerast símavinir. Samstarf þessara aðila hefur staðið frá árinu 2019 og snýst um að fjölga sjálfboðaliðum til að létta eldra fólki lífið, t.d. með símtali eða með því að gerast heimsóknarvinur.
Átakið núna snýr að símavinum sem helgast af því að Covid-19 dró tímabundið úr möguleikum á heimsóknum. En hvað gerir símavinur? Það er fyrst til að taka að sá sem vill gerast sjálboðaliði þarf að skrá sig hjá Rauða krossinum og koma síðan í viðtal. Næst gæti verið stutt námskeið þar sem farið er yfir þau atriði sem þarf til að tryggja að allt sé gert faglega og mannlega. Rauði krossinn hefur á skrá hjá sér fólk sem vill fá símavin. Þá kemur að því að velja saman fólk sem talið er að eigi svipuð áhugamál eða hafi þekkingu á tilteknum málefnum. Reynslan af símavinaverkefninu er mjög góð og hefur margt eldra fólk fengið aukna innsýn í hvað er til dæmis efst á baugi í umræðu dagsins, auk þess sem margir spjalla um áhugamál viðmælandans. Best er að sá sem fær símavin láti í ljós óskir sínar um umræðuefni. Samtalið er oftast 15 til 20 mínútur. Sumir tala saman tvisvar í viku en aðrir einu sinni í viku eftir þörfum.
Á Íslandi búa tæplega 10.500 eldri einstaklingar einir. Margir eiga gott með það, en margir þjást af einmanaleika og eru í mikilli þörf fyrir aukin mannleg samskipti. Í þeim mikla hraða sem er í samfélaginu og erli dagsins verða margir útundan og fá ekki heimsóknir, nema endrum og eins. Margir þjást af samviskubiti vegna aldraðra foreldra, að hafa ekki nægan tíma fyrir þá. Afi og amma eru líka oft fyrsta fólkið til að aðstoða sína afkomendur. En við heilsubrest, við fráfall maka eða við starfslok getur einmanaleikinn komið fólki á óvart. Víða á Norðurlöndunum eru sjálboðaliðastörf eldra fólks mun meiri og fjölbreyttari en á Íslandi. Við getum gert betur og nú köllum við eftir að fólk komi og taki þátt í símavinaverkefninu. Það gefur meira til baka að vera sjálboðaliði en þú eða þið getið trúað.
Vinnum saman að velferð eldra fólks sem þarf á okkur að halda.