Nýlega kom út ljóðasafn Guðrúnar Hannesdóttur sem hefur að geyma ljóð frá árunum 2007-2024. Guðrún hóf ritferilinn með Gamlar vísur handa nýjum börnum sem er vísnabók fyrir börn og kom út árið 1994 en sneri sér að ljóðagerð eftir að hún hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2007 og gaf út sína fyrstu ljóðabók það sama ár. Frá fyrstu ljóðabókinni hefur Guðrún haldið sig við ljóð og þýðingar en hún hlaut Íslensku þýðingarverðlaunin árið 2021 fyrir þýðingu sína á ungversku skáldsögunni Dyrnar eftir Magda Szabó.
Guðrún nam listasögu og lauk BA-prófi í bókasafnsfræði en hún starfaði lengi sem bókasafnsfræðingur. Ljóð Guðrúnar þykja djúp og áhrifarík og sýna næmni fyrir því margræða. Hún gefur oft gömlum orðum nýtt líf og orðfæri hennar þykir meitlað, myndmálið lifandi og fjölbreytilegt en auga Guðrúnar fyrir því spaugilega í lífinu er aldrei langt undan.
Segðu mér aðeins frá nýju ljóðabókinni þinni sem hefur að geyma ljóðasafn frá 2007-2024. „Ljóðabækurnar mínar níu komu ekki út hjá neinu „stóru“ forlagi heldur komu þær út smátt og smátt hjá ýmsu góðu fólki. Þær voru allar heldur mjóslegnar, svona 50-60 síður og voru flestar uppseldar þegar sú síðasta Kallfæri kom út hjá bókaforlaginu Dimmu. Hinn ágæti forleggjari þar á bæ, Aðalsteinn Ásberg, stakk upp á að slá þeim saman í eina bók – í tilefni að stórafmæli mínu. Ég var auðvitað himinlifandi, enda bókin fallega úr garði gerð og með greinargóðum og upplýsandi eftirmála um ljóðaheim minn eftir Bergljótu Soffíu Kristjánsdóttur bókmenntafræðing.“
Lengi býr að fyrstu gerð
Guðrún segist vera af þeirri kynslóð sem ekki hafði úr miklu barnaefni að moða. Hún hafi alist upp við leiki, vísur, söng og að sögð væru ævintýri. Það hafi mjög líklega haft áhrif á áhuga hennar á undraheimi orðanna. „Af þeim sökum varð athyglin því einbeittari þegar eitthvert merkilegt barnaefni stóð til boða. Hins vegar var enn mikið um leiki, söng og vísur á mínu heimili og ævintýri lesin og sögð. Það má segja að maður hafi staðið með annan fótinn í gamla tímanum.
Á heimili afa míns og ömmu bjó frændkona mín Þuríður Jakobsdóttir sem ég hef oft nefnt til sögunnar. Hún kom ung á heimilið, var ógift og barnlaus og vann því alla ævi en segja má að öll börn stórfjölskyldunnar hafi verið hennar börn og hún bjó yfir kynstrum af fróðleik og kveðskap sem ég heillaðist af frá fyrstu tíð. Af henni lærði ég m.a. Gilsbakkaþuluna sem ég kann enn. Það varð síðar til þess að ég fór að safna gömlum höfundarlausum vísum, myndskreyta þær og gefa út fyrir börn, og þar liggur sennilega sprotinn að síðari ljóðagerð minni og ást á orðum.“
Þú hefur ritferilinn með barnabókum og myndskreyttir en ferð svo frá því, var ljóðaformið farið að toga í þig? „Bækurnar með gömlu barnaljóðunum kölluðu einhvern veginn á myndskreytingu. Ég hafði gaman af því að teikna þó að ég hafi ekkert til þess lært, svo ég lét undan þeirri freistingu. Þessa bókaútgáfu má kannski kenna dómgreindarleysi, en ég held að það sé miklu frekar því einstaka sérkenni íslensks samfélags að þeir, sem hafa áhuga á því að skrifa og skapa, skella sér bara í verkið. Þetta finnst mér alveg til fyrirmyndar og gleðilegt í meira lagi. Mæli með!“
Í framhaldi af vísnabókunum tók við tímabil myndskreyttra barnabóka, bæði þýddra og frumsaminna en það tímabil tók enda þegar teikniþörfin var ekki lengur mjög knýjandi en hún hafði áhrif á það sem á eftir kom að sögn Guðrúnar. „Ég sé betur og betur hvað vinnan við vísnabækurnar var góður skóli fyrir ljóðagerð. Ég safnaði gífurlegum fjölda vísna og það segir sig sjálft að ekki voru gæðin söm eða jöfn. Valið eitt var töluverð áreynsla og lærdómur. Eins var erfitt að raða saman vísum á opnu. Þó íslenskur kveðskapur fyrir börn sé yfirhöfuð heldur einsleitur í elskulegheitum sínum, var oft erfitt að stilla upp á opnu ljóðum sem trufluðu ekki hvort annað – og ekki minnkaði vandinn þegar þurfti að hugsa líka upp myndir sem hæfðu opnunni og gengu ekki af neinni vísu dauðri. Ekki sé ég eftir þessari fyrirhöfn enda var hún mér á við meiri háttar kúrs í ritlist og lýtur sömu lögmálum og glíman við ljóðagerð.“

Guðrún hlaut íslensku þýðingarverðlaunin 2021 á skáldsögunni Dyrnar.
Örlagaríkt ár
Guðrún segir að það sé gömul daga og ný að konur komi oft seint í ljós á ritvellinum líkt og hún gerði. „Þó ástæður þess séu einstaklingsbundnar, eru þær sameiginlegar mörgum konum. Skúffurnar mínar voru tómar fyrir 2007 en einhvers staðar var hugurinn að taka tilhlaup. Ég starfaði lengi á bókasöfnum, tveimur víðáttuólíkum tegundum, læknisfræðibókasafni og listbókasöfnum og það var skemmtilegt og fróðlegt í meira lagi. Ég var þá byrjuð á ljóðasöfnuninni fyrir börnin og tekin upp á því að vinna í hálfu starfi til að geta sinnt henni. Frábært fyrirkomulag þangað til lífeyrissjóðsgreiðslurnar mættu á svæðið seinna.
Árið 2007 var nokkuð örlagaríkt fyrir mig. Ég fékk Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóðið Offors og gaf út mína fyrstu ljóðabók Fléttur. Bókin fékk vandaða gagnrýni og hvort tveggja varð til þess að ég skálmaði út á téðan ritvöll eins og það hefði alltaf verið meiningin. En ekkert var fjær lagi. Ástæðurnar búa, eins og hjá öllum, í okkar fyrstu gerð og upplagi. Ég held ég hafi frá fyrstu tíð hugsað í hálfgerðum ljóðum. Ég er mjög glöð yfir að mitt prívatgrufl fann sér smugu til að komast út meðal manna.“’
Orð bera sögu, menningu og líf fyrri tíma
Hvernig það hafi verið fyrir Guðrúnu að skipa sér eins fljótt og raun bar vitni á bekk meðal helstu ljóðskálda svarar hún af hógværð: „Það er ekki nokkur leið að segja til um erindi eða örlög ljóða eða skálda. Ekki hægt að mæla þau á einhverjum almennum kvarða, enda eru ritverk ekki samanburðarhæf í eðli sínu finnst mér. Og enginn getur sagt um að hvað gleður hvern eða hvenær. Síst af öllu þýðir að skoða ljóðabækur með augað á sölutölum sem eru svo margvíslegum breytum háðar. Sumir eru seint á ferð með sín erindi en ég er ánægð með þau skref sem ég hef tekið upp á eigin spýtur. Mest og best gleður það mig að hitta lesendur sem lesið hafa ljóð mín sér til ánægju,“ segir Guðrún.
Hver eru yrkisefnin í ljóðum þínum og hvað eiga þau sameiginlegt, hver eru einkenni þeirra?
„Mér finnst stundum ég vera að reyna það óyfirstíganlega – að lýsa tilverunni bæði sem opinberun og leyndarmáli, en hún er sannarlega hvort tveggja.
Undur og stórmerki er hún, birtingarmynd hennar í senn fínleg og viðkvæm, stórbrotin og hryllileg og ekki heiglum hent að hafa stjórn á hughrifum sínum. Það kemur fyrir að ég sjái ekki sjálf fyrr en löngu eftir að ljóðið er ort hvert yrkisefnið er í raun.
Þó eru margir þræðir vel sýnilegir: bernskuminningar, ævintýraminni og þjóðsagna, hugsun um náttúru landsins, hjátrú og ýmislegt gleymt og grafið, sögur af mönnum og dýrum, misrétti, styrjaldir og annað miskunnarleysi lífsins. Og stundum blandast þetta allt saman.
Ef ég ætti að nefna einkenni ljóðanna er það að þau eru stutt og einföld og að ég er mjög gefin fyrir að finna og nota falleg og óvenjuleg orð og setja þau í nýtt samhengi svo þau gleymist ekki. Rétt áðan mundi ég eftir svo fallegu orði „silkibleikur“ sem er gamalt í málinu, ég hef séð það bæði notað um fugl og hest. Það er undarlegt hvernig sum orð ljúkast áreynslulaust upp fyrir manni, maður veit einhvern veginn alveg hvað átt er við, og gaman að hugsa til þeirrar manneskju sem bjó það til. Orð eru dýrmæt, þau hafa ferðast milli alda og menningarheima og bera með sér mikinn farangur. Það yrði mikill skaði ef hæfileikinn til að nota þau storknaði í einhverri vélgerðri aðferð til frambúðar.“
Ljóð áttu í allnokkurn tíma ekki upp á pallborðið hjá fólki en hefur verið að breytast sýnist mér. Hvað er það magnaðasta við ljóð? „Kannski á það við um visst tímabil, ég veit það ekki. Það er nú ekki ýkja langt síðan fólk valdi ljóð af mikilli alvöru í „poesí-bækur“ kunningja og vina, og þá dugði nú ekki að kunna nokkur stykki ef velja átti ljóð við hæfi viðtakanda eða höfða til tiltekinna tilfinninga. Og enn eru ljóð og kvæði oft kjarninn í minningargreinum hérlendis. Fyrir mér eru ljóð þýðingarmikil og merkileg leið til að lýsa upp orðin, lýsa upp hugsanir okkar og tilfinningar – þau eru magnað en hljóðlátt bergmál manna á milli, svo ég vitni í sjálfa mig og ekkert getur komið í þeirra stað.“
Hvað er fram undan? „Ég ætla að halda áfram að yrkja, skrifa og þýða, því það þykir mér skemmtilegast.
Ég á mér að vísu einn langt að rekinn og leynilegan draum sem ég get svo sem alveg sagt frá.
Einu sinni rakst ég á og las bók eftir bandarískan bókmenntapáfa, Harold Bloom að nafni. Hann gerði sér hægt um hönd og valdi ljóð eftir 100 höfuðskáld – ljóð sem hann taldi vera síðustu ljóð þeirra. Þetta var mikill doðrantur og karlafargan eins og við mátti búast. („Till I end my song. A gathering of last poems.“ 2010)
Ástæða þess að ég bögglaðist í gegnum þetta var að Bloom staðhæfði að síðustu ljóð viðkomandi væru alls ekki endilega „síðustu“ ljóð þeirra, heldur ljóð sem þeir hefðu samið á þeim tímapunkti þegar þeir hefðu áttað sig á tilgangi lífsins, hvorki meira né minna. Um það væru ljóðin.
Þetta leiddi mig út í heldur hæpnar hugleiðingar, sem sé að líklega sé töluverður eðlismunur á ljóðum karla og kvenna um þetta efni. Að viss tegund kvenlægs æðruleysis andspænis örlögunum skili sér í ljóðum þeirra. Ég hef síðan verið á útkikki eftir sönnun á þessari hugmynd. Ég hef safnað ljóðum kvenna sem mér finnst að sanni mitt mál og meira að segja þýtt mörg þeirra. Ég ætla að halda áfram þessari biluðu hugmynd og læt hana flakka hér í trausti þess að líklega reki hana upp á sker og ekkert spyrjist til hennar meir.
Plan B er að halda mig við íslenskar skáldkonur og skoða þeirra „síðustu ljóð“ og ef allt um þrýtur skrifa bara ljóð um konur hversdagsins og þeirra verkefni, en láta tilgang lífsins róa.
Vendi mínu kvæði í kross með ljóði sem ég gerði fyrir tímaritið Húsfreyjuna 2019.
Þrengir að
(það er helst að rýmkist aðeins um tennurnar …)
það er ekki pláss í höfðinu á mér lengur
fyrir fleiri hugsanir, minningar
áætlanir vonbrigði eða uppnám
hvernig sem ég reyni að hliðra til
það vekur aftur áhyggju og kvíða
sem ég verð að finna samastað
og nú eru augun að verða
alveg full, eyrun líka
jafnvel þó ýmsu sé vísað í hjartað
draumunum ástinni vonum og þrám
þar sem fer mjög vel um það
kemst ekki fleira fyrir þar lengur
í höndunum iða unnin og óunnin verk
í fótunum tifa linnulaus skrefin
syndafarg herðanna þyngist án afláts
(og ég sem hélt að drottinn lagaði bakið að byrðinni)
allt rekst á annars horn í aðþrengdum
iðrunum ólgandi blóðið finnur enga
undankomuleið og illa gengur að draga
andann í þessum þrengslum
en einu get ég glaðst yfir:
það er ekki lengur smuga
fyrir örvæntinguna
ekki smuga