Öskupokasmiðja á Árbæjarsafni og bolluvandarsmiðja á Sjóminjasafninu eru meðal þess sem er á dagskrá Borgarsögusafns í vetrarfríi grunnskóla Reykjavíkur 22.-25. febrúar. Að venju er frítt inn á safnið fyrir börn og fullorðna þessa daga.
Á Árbæjarsafni verður öskupokasmiðja mánudaginn 24. febrúar kl. 13-15 og þar verður líka hægt að fara í skemmtilegan ratleik um skólasýninguna Vaxtaverkir. Á Sjóminjasafninu í Reykjavík verður börnum boðið að gera sinn eigin bolluvönd 24. og 25. febrúar kl. 10-12 og þar verður líka hægt að fara í ratleik um grunnsýningu safnsins Fiskur & fólk. Á Landnámssýningunni í Aðalstræti verður opin Kornflexgrímusmiðja mánudaginn 24. febrúar og 25. febrúar kl. 11-17. Þar geta börnin líka fetað í fótspor miðbæjarkattarins Baktusar en hann er reglulegur gestur á sýningunni. Dýrin okkar eftir 100 ár er yfirskrift opinnar teiknismiðju sem er í boði fyrir börnin á Ljósmyndasafni Reykjavíkur helgina 22.-23. febrúar kl. 13-17, og 24.-25. febrúar kl. 10-18.