Sýningar Landnámsseturs í Borgarnesi hafa vakið verðskuldaða athygli á síðustu árum. Á sunnudaginn verður frumsýnd þar enn ein sýningin, ÖXIN – AGNES OG FRIÐRIK, en þann dag eru 190 ár liðin frá síðustu aftökunni. Þá lét Björn Blöndal sýslumaður hálshöggva þau Agnesi Magnúsdóttur og Friðrik Sigurðsson. Þau voru fundin sek fyrir morðið á Natani Ketilssyni bónda á Illugastöðum og Pétri Jónssyni gestkomandi á bænum. Það er Magnús Ólafsson fyrrum bóndi á Sveinsstöðum sem segir söguna.
Magnús er sagnamaður af guðs náð, segir í fréttatilkynningu frá Landnámssetri. Hann gjörþekkir þessa örlagasögu, enda fór aftakan fram í landi Sveinsstaða. Hann hefur á undanförnum árum farið með gesti í hestaferðir um sögusvið Illugastaðamorðanna, og sagt söguna þar sem atburðirnir gerðust.
Magnús mun frumsýna frásögnina ÖXIN – AGNES OG FRIÐRIK á Söguloftinu nákvæmlega þegar 190 ár upp á klukkutíma eru liðin frá aftökunni. Frumsýningin hefst klukkan tvö, en aftakan fór fram klukkan tvö 12.janúar 1830.
Fjölskylda Magnúsar tengist þessum voða atburðum persónulega. En faðir Magnúsar og afi komu báðir að því árið 1934 að flytja líkamsleifar sakamannanna í vígða mold, eða þegar rúmlega 100 ár voru liðin frá því þau tvö voru höggvin. Af þeim gjörningi er dularfull og merkileg saga sem Magnús mun rekja í tengslum við sjálfa morðsöguna.
Um þessa atburði hafa verið skrifaðar bækur, gerð kvikmynd og væntanleg er íslensk ópera innan tveggja ára. En Magnús kemur með persónulegan og óvæntan vinkil með sýn sinni i á efninu. Áhugafólki er ráðlagt að missa ekki af þessari sýningu, segir að lokum í fréttatilkynningunni.