Plataði vinnumarkaðinn og stofnaði fyrirtæki um sextugt

Fyrir nokkrum árum með börnum sínum, Boga, Brynju og Ásgeiri Bjarnabörnum og litlu Dúfu Bogadóttur.

Það eru ekki margir sem skrifa skáldsögu og fá hana útgefna eftir sextugt. Margir skrifa bara fyrir skúffuna og skortir kjarkinn að fara alla leið með skáldverk sín. Björg Árnadóttir hefur þann kjark. Hún hefur það reyndar fram yfir okkur velflest að hafa komið að skrifum og útgáfu margra bóka í fjölda ára sem og vinnur hún við það að kenna okkur hinum að skrifa í gegnum fyrirtækið sitt Stílvopnið. Hvers vegna skáldsaga á ,,gamals aldri“?

Í fótspor Guðrúnar frá Lundi 

,,Mér hefur alltaf fundist ég verða að skrifa skáldsögu, eins og það væru örlög mín, þótt ég kæmi því ekki í verk fyrr en nú. Ég hef lungann úr lífinu gengið með söguna, sem loks varð að þeirri sem ég hef nú lokið við að skrifa, svo líklega er mál til komið að hún komi fyrir almenningssjónir. Vandamálið var að mér fannst ég aldrei hafa neitt að segja. Auðvitað er heimskulegt að hugsa þannig, allir hafa eitthvað að segja. Ég vona bara að ég verði eins og Guðrún frá Lundi. Fyrsta bók hennar, Dalalíf, kom út þegar Guðrún var fimmtíu og níu ára gömul en allir vita hver afköstin urðu eftir það.“

Hvernig saga er hér á ferð?

,,Mér finnst erfitt að tala um bók sem ég lauk bara við að skrifa í vikunni. Það er í rauninni ekki rétt að tala um eitthvað sem ég veit ekki hvort einhver vill gefa út og hvað þá lesa. Mér finnst ég jafn berskjölduð og ég var þegar ég skildi frumburðinn fyrst eftir í leikskóla og aðrir tóku við honum. Nú bíð ég á hliðarlínunni eftir að eitthvað gerist. Berskjöldun mín stafar líka af ótta mínum við að fólk þekki sig í sögunni minni. Samt á enginn að þurfa að gera það. Ég tók fullt af fólki, bæði fólki sem ég þekki og þekki ekki en einnig fólki sem aldrei hefur verið til, og sauð saman í stórum kjötsúpupotti þar til kjötið losnaði af beinunum. Þegar ég jós svo  súpunni í skálar hafði kjöt og mergur margra blandast saman í persónunum sem birtast á síðum bókarinnar. Kannski kannast einhver við tá eða fingur af sér, tilsvar, uppákomu eða lyndiseinkunn, en enginn á að sjá sig þar í fullri stærð. Bókin fjallar líkast til um berskjöldun og í henni eru sögur ásta og átaka, sigra og uppgjafar. Hún er sorgleg en vonandi skemmtileg. Núna er ég sem sagt að æfa mig í að sleppa af henni hendinni eins og ég gerði við börnin mín þrjú á sínum tíma.“

 Skildi eftir áratuga hjónaband

Björg hefur um margt farið óvenjulegar leiðir í lífinu og verið óhrædd við að fylgja hjartanu. Kannski hefur hún meiri kjark en margur annar. Fyrir tólf árum skildi hún til dæmis við eiginmann sinn eftir þrjátíu og

Hjá Þóru Guðmundsdóttur á Indlandi.

fjögurra ára hjónaband. Hvað kom til?

,,Ég freistast til að rekja skilnaðinn til margháttaðrar kulnunar í lífi mínu. Ég var ekki á góðum stað eins og það heitir. Fannst ég þurfa gagngerar breytingar á öllum sviðum til að koma mér aftur á réttan kjöl. Skilnað þurfti ég að ganga í gegnum af því að við sigldum ekki lengur eftir sama áttavitanum. Það var ekki auðvelt að skilja eftir að hafa verið saman frá sautján ára aldri. Skilnaðurinn er það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum. Um svipað leyti skildi ég við Bakkus sem einnig var erfitt en ákaflega gefandi. Að hætta er drekka er ekki bara að setja tappann á flöskuna heldur fyrst og fremst að öðlast frelsi og nýja lífssýn. Þótt ég yfirgæfi öryggi hjónabandsins og héldi inn í ógnvænlegan heim öryggisleysis hef ég aldrei séð eftir ákvörðuninni. Á vegferð minni hef ég fundið og virkjað öryggið innra með sjálfri mér.“

Einfalt og gott líf

Hvað tók við?

,,Við tóku þrjú ár óreiðu á meðan ég var að rétta af kúrsinn. Ég áttaði mig ekki á því þá að ég væri að fylgja hjartanu þegar ég tók skrefið inn í óvissuna. Ég var bara að bregðast við aðstæðum. En ég man hvenær ég fann hjarta mitt aftur. Það var fyrir átta árum þegar ég fór norður í Mývatnssveit, en þar hafði ég einu sinni búið, og fór að vinna láglaunastarf við upplýsingagjöf til ferðamanna, búandi í kommúnu með krökkum. Ég sem hafði verið í stjórnunarstörfum. Reyndar fann ég sömu tilfinningu nokkrum árum áður þegar ég kenndi í flóttamannabúðum í Palestínu og svaf á dýnu á skítugu gólfi ásamt öðrum sjálfboðaliðum. Sú reynsla kom við hjartað í mér. Síðustu tíu árin hef ég tekið þátt í fjölda Evrópuverkefna sem öll fjalla um að þróa skapandi aðferðir í vinnu með fólki í neyð. Vinnan og ferðalögin sem fylgja hafa leiðbeint mér nær kjarna heimsins og þar með eigin innsta kjarna. Svei mér þá ef ég hef fann ekki lífstilganginn á þessari vegferð sem sprakk þó fyrst út þegar ég stofnaði fyrirtækið mitt Stílvopnið – valdefling og sköpun ehf. árið 2015. Í fyrra lífi átti ég einbýlishús og bíl, tekjur og starfsferil en hjartað fann ég í fimmtíu fermetra íbúð, sextán ára gömlum bíl og akkúrat engu starfsöryggi.“

Fræðsla fullorðinn

Björg í kennslustund.

Rétt fyrir skilnaðinn hafði Björg sagt stjórnunarstarfi sínu hjá Reykjavíkurborg lausu til að byrja að vinna sjálfstætt og árið 2008 gekk hún til liðs við ReykjavíkurAkademíuna sem er miðstöð og málsvari sjálfstætt starfandi fræðimanna. Hún starfar þar enn sem fræðimaður, rithöfundur, listamaður og fullorðinsfræðari. Flest námskeiða Bjargar í Reykjavík eru haldin í húsnæði Akademíunnar í Þórunnartúni 2 en einnig heldur hún námskeið út á landi, úti í löndum og nú á netinu.

Björg útskrifaðist sem myndlistarkennari úr Myndlistar- og handíðaskóla Íslands árið1983,  lærði blaðamennsku í Svíþjóð en lauk meistaraprófi í menntunarfræðum við Háskóla Íslands með áherslu á skapandi greinar og fræðslu fullorðinna.

,,Ég bætti við mig meistaraprófinu af því að mér þótti ég vængstýfð á vinnumarkaði án þess. Þegar ég lít tilbaka á starfsferil minn sé ég skýrt mynstur. Fyrir fimmtugt fékk ég flest störf mín án þess svo mikið sem að sækja um þau en eftir fimmtugt urðu umsóknir mínar ekki lengur svara verðar. Sem viðbrögð við þessu ákvað ég að plata vinnumarkaðinn og stofna eigið fyrirtæki utan um allt sem ég veit og get. Nú get ég unnið til hundrað ára aldurs ef mig langar! Það fylgir því að sjálfsögðu meiri trúverðugleiki í gigg-hagkerfinu að vinna undir annarri kennitölu en sinni eigin en þótt við Stílvopnið deilum ekki kennitölu deilum við sjálfsmynd.

Ég hef sinnt fræðslu fullorðinna allan minn starfsferil og tek virkan þátt í evrópskum menntaverkefnum til að uppfæra kennsluaðferðir mínar en einnig til að miðla öðrum af þeim. Ég man daginn þegar ég steig fyrst inn í kennslustofu fulla af fólki miklu eldra en ég. Það var í Svíþjóð árið 1984. Síðan hef ég eingöngu kennt í framhaldsskólum og í  fullorðinsfræðslunni. Á árunum 1998-2008 var ég framkvæmdastjóri þriggja fræðslustofnana; Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands, Framvegis – miðstöðvar um símenntun og Námsflokka Reykjavíkur og kann því kann bæði að kenna og stjórna fræðslu sem kemur sér vel hjá Stílvopninu. Ég var líka ritstjóri tímaritsins Veru í nokkur ár á tíunda áratugnum og hef unnið töluvert við blöð og ljósvakamiðla hérlendis og í Svíþjóð.“

Örlögin ráðin

Segja má að örlög Bjargar varðandi starfsferilinn hafði ráðist þegar hún bjó í Svíþjóð á árunum 1983-1989.

,,Ég hafði búið tvö ár í þessu landi tækifæranna þegar mér var boðin vinna hjá Norrbottens Bildningsförbund. Yfirmaðurinn, þekktur um allt land fyrir afskipti sín af menningarmálum, sýndi mér glæsilegt húsið

Skrifað í Slóveníu.

fullt af skapandi fólki og verkfærum til listsköpunar, allt frá flygli til leiksviðs og grafíkpressu. Að kynnisferð lokinni spurði ég í hverju starf mitt væri fólgið. ,,Gerðu það sem þú vilt en gerðu bara ekki of mikið. Þú verður líka að fá tóm til að hugsa.“ Oft hef ég óskað þess að fá aftur slíkt tækifæri en nýlega rann það  upp fyrir mér að það hef ég þegar fengið. Hjá Stílvopninu. Fyrsta bók mín, Varför måste jag lära mig teckna?, var gefin út af Skrivarförlaget, sem tengdist þessari menningarstofnun og var aðlögun lokaverkefnis míns úr Myndlistarskólanum að sænskri tungu og uppeldishugsun.

Þarna kynntist ég frumkvöðlum í ritlistarkennslu. Ég hafði aldrei áður vitað til þess að ritlist væri kennd en heillaðist af hugmyndinni enda alla tíð verið betri penni en myndlistarmaður. Reyndar lærði ég að skrifa í myndlistarskólanum af því að þar lærði ég að sjá. Í fjörutíu ár hef ég fengist við margvísleg skrif; gerð námskrár og kennsluefnis, fræðigreinar, skýrslur, ferðabækur, fyrirlestra, hugleiðingar, sögur og blogg og svo hef ég náttúrlega sem útvarps- og blaðamaður matreitt hin margvíslegustu efni á mismunandi hátt ofan í ólíka markhópa.

Þegar ég hélt fyrsta ritlistarnámskeiðið hérlendis, þá nýflutt heim árið 1989, lögðu fleiri en einn lykkju á leið sína til að tilkynna mér að ekki væri hægt að kenna fólki að skrifa. Sú kunnátta væri í genunum. Ég get svo sem alveg tekið undir að eitthvað af ritfærninni kunni að vera í genunum enda margir rithöfundar í minni ætt. Við ritlistarkennararnir höfum hins vegar afsannað að ekki sé hægt að kenna fólki að skrifa með því að veita því innblástur og opna á söguefnin hið innra auk þess sem ýmis lögmál gilda um ritlist líkt og aðrar listgreinar og þau  þarf að læra.“

Kenni eldri og yngri borgunum saman

,,Fyrirtækið stofnaði ég árið 2015 upphaflega til að gefa ferðabók mína, Lake Mývatn – people and places. Svo áttaði ég mig á að auðveldara er að standa fyrir námskeiðahaldi undir merkjum fyrirtækis og segja má

Þátttakendur á endurminninganámskeiðinu.

að þá hafi ég hafið stórútgerð. Varan sem ég býð er í formi sex ólíkra  námskeiða sem öll geta reyndar breytt um stærð og lögun eftir þörfum þátttakenda eða verkkaupa hverju sinni. Afar margir hafa komið til mín þau sex ár sem ég hef starfað hjá Stílvopninu, bæði á námskeið og í ráðgjöf. Þau yngstu eru undir tvítugu en sá elsti held ég hafi verið áttatíu og fimm. Það er gaman að kenna svona breiðum aldurshópi. Nú er ég til dæmis að fara að kenna námskeið, styrkt af Lista- og menningarsjóði Kópavogsbæjar, fyrir eldri og yngri borgara bæjarins saman.

Það er ótrúlega hvetjandi fyrir alla þátttakendur að sumir séu útgefnir höfundar eða kvikmyndagerðarfólk en aðrir hafi nánast ekkert skrifað. Fólk lærir af öðrum og þeir sem minnsta hafa reynsluna spyrja oft mikilvægustu spurninganna. Ég hef lært að leggja áherslu á lærdómsumhverfi þar sem allir læra af öllum og ég vil að fólk finni sjálft eigin viðfangsefni og höfundarödd. Ég segi aldrei um hvað á að skrifa heldur legg fyrir æfingar sem hvetja fólk til að finna sínar sögur. Þetta snýst líka mikið um að hjálpa fólki við að komast yfir stíflur af öllum stærðum og gerðum. Mörgum finnst ótrúlega ógnvekjandi að sitja frammi fyrir auðu blaði eða skjá en ástæðurnar eru mismunandi. Kennsla mín hverfist í kringum textana sem verða til á námskeiðunum. Þeir eru eiginlega sjálft námsefnið. Hver og einn ákveður hversu mikill tími og metnaður er lagður í skrifin og heimavinna er alltaf valkvæð. Til eru þeir sem náð hafa að skrifa bók á fjögurra vikna námskeiði en aðrir skrifa minna enda fyrst og fremst komnir til að læra að njóta lesturs betur.“

Námskeiðin

Hver er munurinn á námskeiðunum þínum?

,,Ég býð upp á sex mismunandi námskeið. Skapandi skrif eru flaggskipið en hópurinn er leiddur með stuttum æfingum í gegnum helstu þætti sagnaritunar. Mikil vinnusemi ríkir á þessu hnitmiðaða

helgarnámskeiði og í lokin hafa þátttakendur skrifað drög að sögu.

Hetjuferðin fjallar um sömu þætti sagnaritunar en á annan hátt. Í Hetjuferðinni kynni ég frásagnaraðferðina The Hero´s Journey sem þekkt er jafnt úr goðsögum og ævintýrum sem og samtímabókmenntum og kvikmyndum en birtist ekki síst í lífssögum okkar sjálfra. Hetjuferðin er þroskahringur sem ég tileinkaði mér í Evrópuverkefni, ekki sem ritlistaraðferð heldur sem leið til sjálfsskoðunar. Samt er þetta hreinræktað ritlistarnámskeið þótt sumir komi til að skapa söguþráð í ferðalagi ímyndaðrar hetju en aðrir um þroskahring hetjunnar í eigin lífi.

Námskeiðið Þekking, reynsla og skoðanir fjallar um að skrifa um það sem sótt er í raunveruleikann á þann hátt að höfði til hins almenna lesanda, greinar og slíkt. Fólki gefst kostur á að skrifa um það sem það kann, veit og finnst. Þótt umræður séu heitar á öllum námskeiðunum held ég að þær séu tilfinningaríkastar á þessu enda geta þátttakendur speglað í öðrum sjálft sig og skoðanir sínar. Af þessu dreg ég þá ályktun að skoðanir séu að stofninum til tilfinningar.

Björg að kenna í Austurríki.

Sköpunarsmiðjan er ætluð þeim sem vilja takast á við áskoranir lífsins með skapandi aðferðum, ekki bara með skrifum heldur aðferðum sem ég hef tileinkað mér á sviði myndlistar, tónlistar og leiklistar, ritúala, íhugunar, leiddrar hugleiðslu, samtala og félagsörvunar. Smiðjan byggir á kenningum um mikilvægi flæðis í leitinni að lífshamingjunni.

Bataferð hetjunnar er blanda Hetjuferðarinnar og Sköpunarsmiðjunnar. Ég nota hugmyndina um þroskahring Hetjuferðarinnar til að leiða fólk í gegnum skapandi ferli ólíkra listgreina en er rauninni að spegla þessa hetjuferð í öðrum sjálfshjálparkerfi sem er afar vinsælt hérlendis, Tólfspora-aðferðinni. Námskeiðið held ég bara eftir pöntun en langar að gera það miklu oftar af því að það er ótrúlega gefandi.“

Að skrifa um minningar sínar

Árni Benediktsson og Björg Dúfa Bogadóttir ásamt börnum sínum.

Endurminningaskrifin eru eitt vinsælasta námskeið Bjargar en er það eingöngu ætlað eldra fólk?

,,Nei, alls ekki. Námskeiðið sækir fólk á öllum aldri enda þurfa minningar ekki að vera gamlar, þær geta verið frá því í gær. Breitt aldursbil gefur samverunni aukið gildi og getur verið meira en sextíu ár þótt flestir séu samt í rosknari kantinum. Þegar ég hlusta á umræðurnar dettur mér oft í hug að svona ætti að kenna mannkynssögu! Á þetta námskeið mætir fólk oftar í pörum eða hópum heldur en á hin. Vinir, hjón, systkin og jafnvel foreldri og barn. Ég man eftir einni á sjötugsaldri sem hafði skráð sig en bauð svo bestu vinkonu sinni með af því að hún gat ekki hugsað sér að rifja upp lífið án hennar. Eitt sinn kom áttræður maður sem hafði fengið námskeiðið í afmælisgjöf. Hann hafði lítið skrifað en mikið lesið og var í fyrstu feiminn og afsakaði nærværu sína stöðugt en hreifst svo af sögum fólksins að hann sat þarna iðulega með grátstafinn í kverkunum. Honum opnaðist aðgangur að nýjum heimi, sagði hann, og fór að tala um hluti sem hann hafði aldrei áður sett í orð.

Ég nota margvíslegar kveikjur til að vekja minningarnar og kynni ólíkar aðferðir til að skrá þær. Þetta er samt ekki fagnámskeið um ritun ævisagna heldur ræðum við um og prófum að skrifa dagbækur, minningargreinar, ævisögur, sjálfssögur, viðtöl og fleiri form endurminningaskrifa. Þótt sum komi einkum til að rifja upp atburði og endurvekja tilfinningar þeim tengdar líta önnur á endurminningaskrifin sem bestu leiðina til að byrja að skrifa.

Á námskeiðum mínum hefur ýmislegt orðið til sem síðar hefur verið gefið út, bæði af forlögum og höfundum sjálfum; drög að skáldsögum, ljóðabókum, endurminningum, greinum og fræðiritum. Oft aðstoða ég höfundana áfram eftir að námskeiðum lýkur. Eftir endurminninganámskeiðin er til dæmis vinsælt að útbúa einhvers samantekt fyrir afkomendurna að njóta. Ég hvet fólk líka til að vera duglegt við að deila skrifum sínum á samfélagsmiðlum. Það þarf ekki allt að koma út á prenti. Einu sinni kom eldri kona til mín í ráðgjöf sem vildi skrifa bók um málefni sem brann á henni. Í samtölum við hana fékk ég á tilfinninguna að hún væri frekar að hugsa um þetta af skyldurækni en hjartans lyst. Henni létti ósegjanlega þegar ég benti á það og ekkert varð úr bókinni. Ritlistarráðgjöf gefur líka orðið til þess að ekkert er gefið út!“

Afabók eða óðurinn til ömmu

Björg hefur í nokkur ár tekið þátt í skáldabúðum í Svarfaðardal. Hér er hún úti fyrir Bakkabræðrasetri.

En hver var kveikjan að endurminninganámskeiðum þínum?

,,Hugmyndin kom frá föður mínum, Árna Benediktssyni, Gíslasonar frá Hofteigi, sem var sískrifandi eins og margir í minni ætt. Í Morgunblaðsviðtali á níræðis afmælinu sagði pabbi að í tilefni afmælisins hefði hann ákveðið að skrásetja lokasprett lífsins í dagbók. Hann lést 28. des. 2019, tveimur dögum fyrir níutíu og eins árs afmælið, og hélt síðasta æviár sitt ákaflega merka dagbók um þróun heimsmála sem og sjúkdómsins sem dró hann til dauða.

Pabbi skrifaði líka aðra dagbók um ævina sem hófst þegar dóttir mín fæddist árið 1991en tvær bróðurdætur mínar bættust í hópinn skömmu síðar. Hann skrifaði mest um afadæturnar, þroska þeirra og samband við afa og ömmu en einnig um sjávarútveg, sem hann vann alla tíð við, og alþjóðastjórnmál sem hann hafði mikinn áhuga á. Dagbókin var gefin út í tuttugu innbundnum eintökum og gefin okkur afkomendunum í jólagjöf eitt árið. Pabbi kallaði bókina Afabók eða óðurinn til ömmu til að leggja áherslu á að þótt hann héldi um pennann og gerði hlut sinn ef til vill stærri en efni stóðu til, var amma, Björg Dúfa Bogadóttir frá Garði í Kelduhverfi, kjölfestan í lífi barnabarnanna. Bókin er okkur öllum ómetanleg gersemi en mest náttúrlega þeim barnabarnanna sem hann fylgdi mest eftir í skrifunum.“

Ritlistarnámskeið á Spáni og víðar

Námskeið sín heldur Björg ekki bara í Reykjavík heldur fer hún með þau út á landi sem og hefur hún haldið námskeið fyrir Íslendinga erlendis og útlendinga á Íslandi. Fyrir nokkrum

Nokkrir þátttakendur við vindmyllur Dons Qixote.

árum hélt Björg, í samstarfi við ferðaskrifstofuna Mundo, tvö ritlistarnámskeið á hásléttu Spánar og þegar covid reið yfir var hún á leiðinni með kvennahóp til borgarinnar Kochi á Indlandi.

,,Það er allt öðruvísi að vera á námskeiði þar sem allir helga sig skrifunum í ákveðinn tíma. Sérlega eftirminnilegt er fyrra námskeiðið sem ég kenndi fyrir Mundo á Spáni. Í júnímánuði 2018 dvaldi ég í klaustri í Valle de los Caidos, Dal hinna dauðu, í viku tíma með tíu manna hópi. Þá urðu þær óvæntu náttúruhamfarir að hitastigið fór varla upp fyrir sjö gráður sem hefði verið í lagi ef hitinn hefði ekki verið áþekkur innanhúss. Óþægindin sem þessu fylgdu í klaustri fullum af reglubræðrum olli því að við vorum sískapandi. Við hlógum okkur í gegnum kuldann og hristumst svo vel saman að við erum enn að hittast til að skrifa. Lunginn úr hópum ætlaði ásamt fleirum með mér í ritbúðirnar á Indlandi þar sem við hugðumst dvelja saman í tvær vikur og skrifa um allt sem fyrir augu bæri. Við bíðum spennt eftir að ferðabanninu verði aflétt og heimurinn verði aftur tilbúinn að taka við okkur.“

Ertu ekkert á leiðinni með fleiri námskeið fyrir Íslendinga í útlöndum?

Björg rithöfundur og ritlistarkennari.

 

 

,,Auðvitað dreymir mig um það. Stílvopnið er ekki ferðaskrifstofa og ég fer ekki nema frumkvæðið komi frá öðrum. Það væri gaman að fara með hóp skrifandi Íslendinga til Mið-Evrópu sem ég þekki nokkuð vel vegna tíðra Evrópuverkefna þar um slóðir. Hafi ferðaskrifstofa, félagasamtök eða vinahópur samband við mig hendi ég í ritlistarnámskeið um leið og ferðalög verða leyfð!“

Halldóra Sigurdórsdóttir blaðamaður skrifar.

Ritstjórn febrúar 26, 2021 08:12