Pólitísk ákvörðun að miða við séreignasparnað framtíðarinnar

Það er ekki gert ráð fyrir því í frumvarpi ríkisstjórnarinnar þar sem heimilað er að nota séreignasparnað næstu þriggja ára til skuldaniðurfærslu, að þeir sem eru komnir út af vinnumarkaði geti notað uppsafnaðan séreignasparnað á sama hátt.   Sá séreignasparnaður sem verður notaður í þessu skyni verður undanþegin tekjuskatti.

Nákvæm vitneskja um notkun séreignasparnaðar ekki fyrir hendi

Landssamband eldri borgara gagnrýnir þetta og fór á fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis til að koma þeim sjónarmiðum á framfæri að þetta væri mismunun gagnvart þeim sem eru hættir á vinnumarkaði. Lifðu núna fór á stúfana til að kanna hvers vegna sú leið hefði verið farin að nota eingöngu framtíðarsparnað, en ekki séreignasparnað sem menn væru búnir að safna. Þau svör fengust að það hefði verið pólitísk ákvörðun að halda sig við að þetta næði einungis til framtíðarsparnaðar og þar með framtíðartekna ríkisins. Þetta yrði ekki afturvirkt.   Menn hefðu ekki nákvæma vitneskju um hvernig þeir sem eiga séreignasparnað væru að nota hann. Hvernig hefði átt að fara með þá sem eru búnir að taka sparnaðinn út og borga af honum skatt?  Væri það ekki mismunun gagnvart þeim að leyfa öðrum að taka séreignasparnaðinn út skattfrjálst?   Árni Páll Árnason formaður Samfykingarinnar og nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd segir þetta sýna hversu ósanngjörn þessi leið sé gagnvart ýmsum hópum, líka námsmönnum.   Ragnheiður Ríkharðsdóttir alþingismaður og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nefndinni sagði að nefndin hefði hlustað á öll sjónarmið í þessu máli og það hefði orðið pólitísk niðurstaða að halda sig við hugmyndina sem farið var af stað með í fyrstu, að þetta myndi gilda um séreignasparnað áranna 2014-2017 og þar með framtíðartekjur ríkisins.

 

Ritstjórn júní 13, 2014 12:01