Bannað að tala upphátt um aldur og elli

Formaður CARP Samtaka eftirlaunafólks í Kanada, gefur út tímarit sem heitir Zoomer. Sjálfur heitir hann Moses Znaimer og stofnaði tímaritið í þeim tilgangi að koma málefnum eldra fólks á framfæri í opinberri umræðu.  Znaimer er formaður samtakanna og á og rekur fleiri fjölmiðla en Zoomer. Hann hefur stofnað sjónvarpsstöðvar og var einnig virkur í tónlistarbransanum. Hann skrifar reglulega í tímaritið hugleiðingar um aldur, aldursfordóma og ýmis málefni sem brenna á eldra fólki.

Umræða um kynlíf var nánast bönnuð

Hann greinir frá því í einum pistlinum að aðalritstjóri Playboy, Hugh Hefner sem nú er 89 ára, hafi nýlega samþykkt að blaðið hætti að birta myndir af alsnöktum konum. Það verða áfram birtar myndir af fáklæddum konum í blaðinu, en ekki nöktum.  Moses segir í pistli sínum, að þrátt fyrir ýmsa vankanta, hafi Hugh Hefner upphaflega lagt upp með þá byltingarkenndu hugmyndafræði að brjóta á bak aftur fordómana gegn kynlífi.  Á þeim tíma var nánast bannað í Bandaríkjunum að fjalla um efnið á opinberum vettvangi. Kynlíf var feimnismál og umræða um það afar illa séð.

Ellin hrjáir fólk á bak við luktar dyr

„Hálfri öld síðar, skrifaði ég um að nýrrar vakningar væri þörf“, segir Moses. Það sé nefnilega komið upp annað feimnismál sem ekki megi tala um. „Fordómarnir í dag beinast ekki lengur gegn kynlífi, heldur aldri og elli“, segir hann. „Ellin hefur í dag fengið sömu stöðu og kynlíf hafði hér áður fyrr. Það er efni sem við tölum ekki upphátt um. Elli er eitthvað sem hrjáir fólk á bak við luktar dyr. Vegna þessara fordóma er fólki meinað að njóta réttinda,  eins og að njóta tilfinningalegrar og líkamlegrar nándar, lenda í ævintýrum eða lifa lífinu á óhefðbundinn máta“.

Ekki við stjórnvölinn í eigin hrörnun og dauða

Moses segir að það sem sé verra, er að gömlu fólki sé ekki „leyft“ að vera léttúðugt, klókt, áberandi í pólitík og alls ekki að vera við stjórnvölinn þegar kemur að eigin hrörnun og dauða. Hann segir að eldra fólk sé „ósýnilegur“ aldurshópur sem njóti ekki virðingar í samfélaginu. Þessi umræða er kunnugleg og sýnir að það eru fleiri og fleiri í hinum vestræna heimi sem velta þessum málum fyrir sér.

Umræðan að verða fyrirferðarmeiri

Moses bendir á „sigur“Playboy sé sjáanlegur alls staðar í samfélaginu. Það sé ekki bara að kynlíf þyki orðið sjálfsagt og sé öllum aðgengilegt á netinu, heldur sé það raunverulega alls staðar og miklu meira áberandi en þá hjá Playboy hafi óraði fyrir að það myndi verða. Það sama sé að gerast með umfjöllun um aldur, hún sé að aukast mikið og sé orðin fyrirferðarmeiri í pólitískri umræðu. Stjórnmálaflokkarnir geri sér grein fyrir því, hann er að tala um Kanada, hvað þetta sé gríðarlega stór kjósendahópur og séu farnir að leggja mikið uppúr að vera í góðu sambandi við CARP,Samtök  eftirlaunafólks. En það eigi enn eftir að auka þessa umræðu og það hyggist hann halda áfram að gera í tímaritinu.

 

 

 

Ritstjórn september 13, 2016 11:34