„Ég er fylgjandi núverandi fyrirkomulagi ellilífeyrisgreiðslna, þó svo alltaf megi gera betur í þessum efnum. Það er mikilvægt er að þeir sem lagt hafa fyrir í lífeyrissjóð á lífsleiðinni hafi ávinning af sparnaði sínum og nýtt ellilífeyriskerfi eykur þann ávinning,“ segir Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra í grein á fésbókarsíðu sinni. Lifðu núna ákvað að birta grein Þorsteins í heild.
„Samspil lífeyrisgreiðslna almannatrygginga við aðrar tekjur ellilífeyrisþega vekur oft upp nokkuð heitar umræður. Ég ræddi aðeins um þessi mál í Bítinu á Bylgjunni þar sem ég fór í stuttu máli yfir þær breytingar sem urðu á ellilífeyri almannatrygginga um síðustu áramót.
Þær breytingar voru afrakstur áralangrar vinnu þriggja starfshópa á vegum stjórnvalda og helstu hagsmunaaðila, síðast undir forystu Péturs heitins Blöndals. Góð samstaða náðist um nýtt fyrirkomulag ellilífeyris í starfi nefndarinnar og voru breytingarnar samþykktar án mótatkvæða af Alþingi í september á síðasta ári.
Umræðan snýst yfirleitt um hvort og þá hvernig aðrar tekjur lífeyrisþega skuli skerða greiðslur frá Tryggingastofnun. Nýtt fyrirkomulag gerir ráð fyrir að allar skattskyldar tekjur, aðrar en fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og úttekt séreignarsparnaðar, skerði lífeyrisgreiðslur frá almannatryggingum um 45%. Þetta samspil sést ágætlega á myndinni hér fyrir ofan. Dæmið sem þar er notað miðast við einstakling sem býr einn. Að mínu mati var þessi breyting vel heppnuð og með henni tókst að styrkja nokkuð stöðu tekjulægri ellilífeyrisþega. Það má m.a. sjá af myndinni hér fyrir neðan en þar eru sýndar heildartekjur níu fyrstu tekjutíunda ellilífeyrisþega í febrúar 2016 og febrúar 2017 samkvæmt samantekt TR.
Miðgildi tekna lífeyrisþega hækkaði um 22% á milli ára og að jafnaði hækkuðu tekjur fyrstu fimm tekjutíundanna um 24-25% á milli ára. Rétt er að taka fram að hér er um heildartekjur að ræða og líklegt að t.d. atvinnutekjur og tekjur frá lífeyrissjóðum hafi hækkað eitthvað á milli ára en engu að síður er óhætt að gera ráð fyrir að kerfisbreytingin vegi hér þungt í bættri stöðu þessa hóps.
Framundan eru frekari breytingar á ellilífeyriskerfinu þar sem lágmarksgreiðslur til lífeyrisþega sem býr einn verða hækkaðar úr 280 þúsund krónum í 300 þúsund krónur um næstu áramót auk þess sem gildi taka reglur sem miða að því að auka sveigjanleika lífeyrisþega við töku lífeyris. Þá áforma ég að leggja fram frumvarp um sérstakt frítekjumark á atvinnutekjur lífeyrisþega sem, ef fram nær að ganga, mun hækka frítekjumark atvinnutekna í 100 þúsund krónur á mánuði í áföngum á næstu fimm árum. Þannig höldum við áfram að reyna að styrkja lífeyriskerfið enn frekar.
Heildarkostnaður ríkissjóðs við ellilífeyrisgreiðslur TR er áætlaður rúmir 67 milljarðar á þessu ári og hækkaði um 17 milljarða á milli ára eða um 34%. Gert er ráð fyrir að heildarútgjöld næsta árs verði rúmir 74 milljarðar. Útgjöldin munu því aukast um nærri 50% á milli áranna 2016 og 2018 vegna þeirra breytinga sem samþykktar voru haustið 2016. Ef engar tekjuskerðingar væru í þessu kerfi gefur auga leið að kostnaður ríkissjóðs væri mun meiri og skattar þyrfti þá að sama skapi að vera enn hærri, eða að skera þyrfti niður í annarri þjónustu ríkisins.
Ég er fylgjandi núverandi fyrirkomulagi ellilífeyrisgreiðslna, þó svo alltaf megi gera betur í þessum efnum. Það er mikilvægt er að þeir sem lagt hafa fyrir í lífeyrissjóð á lífsleiðinni hafi ávinning af sparnaði sínum og nýtt ellilífeyriskerfi eykur þann ávinning. Hins vegar tel ég að það eigi að vera megin hlutverk almannatrygginga að vera öryggisnet fyrir þá sem lægstar hafa tekjurnar. Breytingarnar nú voru einmitt gerðar í þeirra þágu og virðast hafa skilað góðum árangri.
Viðtalið við Þorstein í Bítinu má einnig nálgast hér:http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP56422