„Við verðum að tala um dauðann“

Ef einhver væri beðinn að lýsa Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur er ekki nokkur vafi að einhvers staðar í þeirri samantekt kæmi fyrir orðatiltækið, sátt í eigin skinni. Árelía geislar af því jafnvægi og gleði sem einkennir fólk á því stigi lífsins að það þekkir sjálft sig og veit að það er nógu gott einmitt eins og það er. Hún hefur skrifað þrjár skáldsögur, fræðibækur og sjálfshjálparrit. Hún er fræðimaður, frumkvöðull og hugsuður og situr um þessar mundir í borgarstjórn í Reykjavík.

Ein skáldsagna þinna, Slétt og brugðið, fjallar um vegferð eða nýja opnun fimm vinkvenna. Þær hafa verið saman í saumaklúbb frá því þær voru í menntaskóla en hafa fjarlægst. Ein þeirra fær þá hugmynd að þær kynni sér fornar gyðjur og hittist vikulega. Upphaflega eru þær sex en ein dettur út snemma. Þetta hentar henni ekki. En þessar heiðnu gyðjur valda breytingum hjá öllum hinum og í raun opna þeim nýja sýn. Hvernig kom það til að þú fórst að skrifa um saumaklúbb sem er löngu hættur að prjóna?

„Samkvæmt rannsóknum er lífshamingjan lægst við miðjan aldur, auðvitað er hérna verið að vísa í meðaltal eða að flestir lendi í ákveðinni lífskrísu þá. Það sem hefur verið skilgreint sem grái fiðringurinn eða miðaldurskrísa snýst í raun um að við erum búin að vera fullorðin í dálítinn tíma og allt í einu kemur þessi hugsun: Er þetta allt. Ég er búin að eiga börnin og koma þeim til manns, búin að ná ákveðnum árangri í námi og vinnu, byggja húsið, finna maka, skilja, hitta annan og jafnvel skilja aftur.  Auðvitað hefur þetta misjafna þýðingu fyrir kynin og lýsir sér öðruvísi hjá konum en körlum.

Konur fara í gegnum umbreytinga tímabil, sérstaklega þegar hormónastarfsemin er alveg á fullu í kringum breytingaskeiðið. Síðustu þrjú árin áður en tíðahvörf verða er hormónakerfið í okkur eins og þegar við vorum á kynþroskanum. Það þýðir að við förum í gegnum annað kynþroskaskeið á miðjum aldri. Við verðum oft bara soldið brjálaðar. Það fylgir því að verða brjálaður og reiður og margar konur fá þá hugrekki til að gera ýmislegt. Þær jafnvel skilja, hætta í vinnunni eða fara að gera eitthvað allt annað en þær gerðu áður. Meðalaldur tíðahvarfa er 51,5 ár og hugsi nú hver fyrir sig,“ segir Árelía og skellihlær.

Má ég biðja um meira?

Nú haldast þessar líkamlegu breytingar í hendur við að á þessum aldri eru eins og þú segir flestir búnir að skila ákveðnum hlutverkum og orðnir staðnaðir að vissu leyti. Ef fólk hefur ekki áhugamál eða annað til að halda ástríðunni lifandi er auðvelt að festast í hjólfarinu. Fólki líður kannski ekki illa en það veltir fyrir sér hvort það sé eitthvað meira að hafa út úr lífinu. Þannig er Freyja í bókinni stödd. Vildir þú benda á þetta?

„Margar konur segja: „Má mér í alvöru líða illa?“ Einmitt vegna þess að allt er í lagi. Freyja er gift góðum manni, á heilbrigð og dugleg börn og er í vinnu sem henni líður vel í. Hún er sæmilega stödd í lífinu en þá kemur þessi tilfinning má ég vilja meira?“

Okkur er beinlínis kennt að vera þakklát fyrir það sem við höfum og þar með sagt að við megum ekki krefjast meira.

„Já, einmitt, þær vinkonurnar í bókinni eru á þessum tímapunkti í lífinu, þær eru 49 ára, þar sem sálin, eða lífið eða æðra sjálf þitt, eða hvað við eigum að kalla það, fer að tala við þig, krefjast áheyrnar. Við erum öll þannig útbúin að við höfum okkar eigin innri áttavita. Þetta helst í hendur við að tengingar í heilanum sem kvenhormónar hafa viðhaldið fara úr sambandi. Þegar við konur erum með lítil börn og erum frjóar er heilinn í okkur tengdur þannig að við tengjumst, á ensku er þetta kallað „wired to connect“. Það þýðir að við erum ávallt með hausinn þar sem börnin eru. Við förum ekki í átök, tökum ekki áhættu og allur sá pakki, allt er gert til þess að vernda hreiðrið. Þegar þessu er kippt úr sambandi fer sálin á kreik og þannig er það með Freyju, hún hefur ekki sinnt hluta af sjálfri sér.“

Gyðjur leiða leit að hamingju

Vinkonurnar í sögunni nota gyðjuspil til leiða sig á vit nýrra ævintýra. Þær komast að því að gyðjurnar spretta hver úr sínum menningarheimi en hafa einnig tengingar við náttúruöflin og þætti í mannlegu eðli.

„Mig langaði líka að takast á við lífið og dauðann þessar tvær helgu stundir í lífi hvers manns. Tvær aðalpersónurnar eru hjúkrunarfræðingar og bestu vinkonur. Önnur er einnig ljósmóðir og tekur á móti börnum en hin vinnur á líknardeild þar sem fólk er að kveðja. Við fjöllum alltof lítið um dauðann. Ég er með nördaáhuga á dauðanum en það spratt upp úr því að ég hef verið mjög upptekin af lífsskeiðunum. Þeim kynntist ég þegar ég skrifaði bók mína; Sterkari í seinni hálfleik sem kom út árið 2017. Við þurfum að undirbúa okkur fyrir dauðann eins og allt annað, tala um hann og horfast í augu við hann. Við eigum öll eftir að deyja.“

Í bókinni eru einmitt magnaðar lýsingar á hvernig fólk mætir dauðanum á mismunandi hátt og hve misjafnlega það er undir hann búið. Hvernig undirbýr rithöfundur slíkar senur?

„Ég hef verið að lesa frásagnir fólks sem hefur unnið á líknardeildum, bæði presta og sálfræðinga. Ein setning sat í mér: „Þú veist aldrei hvernig þú bregst við dauðanum. Prestar láta af trú og trúlausir taka trú.“ Sumir eru kannski ekki alveg í tengslum við tilfinningar sínar eða tilbúnir til þess að gera upp líf sitt. Svo verða þeir brjálaðir af því þeir skuli deyja eins og allir aðrir. Ef menn hafa aldrei leitt hugann að honum, heldur lifað hratt þá geta þeir ekki ímyndað sér að dauðinn bíði þeirra. Þegar hann kemur þurfa þeir að endurskoða verðmætamatið.“

Breytingaskeiðið og dauðinn

Þú segist hafa haft nördalegan áhuga á dauðanum. Hvers vegna? „Það byrjaði á því að ég fékk mikinn áhuga á breytingaskeiði kvenna og vann mikla heimildavinnu fyrir bókina mína, Sterkari í seinni hálfleik.Ég fór að skoða þau bæði út frá sálfræði, líffræði og sögulega séð. Innan sálfræði eru þekktar kenningar um hvernig við þroskumst og allt frá tímum Forn-Grikkja hefur verið fjallað um það í heimspeki ritum hvernig best sé að vaxa sem einstaklingur. Við séum komin til þess að þroskast í lífsins skóla hér á jörð.

Ég á orðið heilt bókasafn um þetta og upp úr þessu fékk ég einnig mikinn áhuga á heilanum. Við erum nefnilega mun meiri dýr en við höldum. Við höldum að við stjórnum alls konar hlutum en hormónar og lífeðlisfræði okkar hefur ótrúleg áhrif á hegðun okkar. Í þessari grúskvinnu minni fékk ég innsýn í hin ólíku stig eða skeið í lífi mannsins.

Svo hefur auðvitað fullt af fólki sem mér var náið í kringum mig dáið. Systir mín, Kristín Gerður tók líf sitt aðeins þrítug og það hafði mikil áhrif á bæði okkur fjölskylduna og aðra. Ég hef misst marga úr lífi mínu sem hafa farið á mismunandi aldri. Sumir fá undirbúningstíma og aðrir ekki. Þá má segja að ekki skipti öllu hvað þú færð mörg ár heldur hvað þú setur í þessi ár. Mér finnst oft skrýtið þegar ég hitti fólk á mínum aldri sem ekki hefur upplifað dauðann. Það á líka erfitt með það þegar þar að kemur því það hefur ekki fengið neinn undirbúning.“

Dauðinn besti kennarinn

Margir hafa einnig eingöngu upplifað dauðann á þann veg að sá sem kveður er aldraður, hefur lifað löngu og oft farsælu lífi, kveður þar af leiðandi saddur og sáttur. Þá birtist dauðinn í allt annarri mynd.

„Nákvæmlega,“ segir Árelía. „Við erum ótrúlega heppin ef þannig fer. Nú erum öll að reyna að vera eins ungleg og við getum og viljum helst ekki eldast. Við syrgjum þegar við sjáum líkamann hrörna og finnum að við getum ekki lengur margt af því sem veittist okkur létt áður. Við þurfum að kveðja ungu manneskjuna sem hljóp um allt. Það er mín trú, þótt ég sé sannfærð um að ég verði hundgömul, að það sé ekki fyrr en við áttum okkur á að þetta er ekki generalprufa, þetta er allt og tíminn sem við fáum skammtaðan að við förum að leitast við að lifa í sátt sjálf okkur og okkar innri rödd. Ef maður er í góðu jafnvægi getur maður treyst á að lífið hvísli að manni hvert á að halda næst. Dauðinn er að mínu viti besti kennarinn.“

Sama ár og Slétt og brugðið kom út sendir þú frá þér bókina Völunarhús tækifæranna. Þar er fjallað um breytingar á vinnumarkaði og hvernig æ fleiri kjósa að vinna sjálfstætt en ekki bindast einum atvinnurekanda.

„Ég skrifaði Völundarhús tækifæranna með Herdísi Pálu Pálsdóttur og hún fjallar um framtíðarfærni á vinnumarkaði. Mér finnst mikilvægt  að við skiljum að vinnumarkaðurinn er að breytast alveg gríðarlega hratt. Mér finnst of margir ekki vera búnir að kveikja á því. Við Herdís, ásamst samstarfsfólki, gerðum rannsóknir og skoðuðum m.a. fyrirbærið „giggara“ og þá sem eru að „gigga“. Undanfarið hefur verið mestur vöxtur í þess konar störfum bæði í UK og USA.“

Val um lífsstíl

Giggarar eru sem sé lausafólk, þeir sem taka að sér vinna tímabundin verkefni fremur en að ráða sig í fast starf frá níu til fimm. Sjáið þið fyrir ykkur að þannig verði vinnumarkaðurinn í framtíðinni?

„Já, það er framtíðin og hún er komin. Mjög mörg fyrirtæki auglýsa nú eftir fólki í skilgreind tímatengd verkefni. Starfskrafturinn kemur síðan og vinnur í sex eða níu mánuði þar til verkefninu er lokið. Mjög víða er líka lausafólk í margvíslegum störfum, hönnun, prófarkarlestur, tæknivinnu, þjálfun og fleira og fleira. Í rauninni skiptir ekki máli hvar þú vinnur eða hvenær þú vinnur verkefnin svo lengi sem þú skilar af þér því sem til stóð. Þú velur hvar þú vilt vinna og með hverjum og stjórnar tíma þínum sjálf. Gríðarleg gróska hefur orðið í þess konar störfum sérstaklega eftir Covid.“

En þurfa þá ekki bæði stjórnvöld og stéttarfélög að vera undir þessa byltingu búin og tryggja réttindi lausráðinna betur?

„Það er verið að gera það. Allir eru skyldugir að borga í lífeyrissjóði svo búið er að tryggja það að nokkru leyti. Ég tók viðtöl við formenn stærstu stéttarfélaganna og þau eru að byrja að bregðast við þessu. Til dæmis er BHM komin með reiknivél á netinu þar sem hægt er að setja inn ákveðin skilgreiningaratriði á verkefninu og það hjálpar þér að búa til verðskrá. Þau kalla þetta sum ennþá „hark-hagkerfið“ því þetta sprettur að nokkru leyti frá platformum eða sviðum þar sem fólk gat auglýst og ráðið „giggara“ alls staðar að úr heiminum. Svipað fyrirkomulag og Airbnb nema bara með atvinnuhæfni fólks. Fyrirtæki tók bara lægsta tilboði og síðan var verkið unnið. Hins vegar er þróunin núna orðin sú að þekkingarstarfsmenn selja atvinnuhæfni sína í vöruhúsi tækifæra og hafa því mun meira sjálfræði um verkefni sín og tekjuöflun. Þetta er hluti af stærra samhengi og í mínum huga breytingum á vinnumarkaði sem eru komnar til að vera og þar eru tækifæri og ógnanir. Tækifærin eru að það er skapast markaðstorg þekkingar þar sem við getum selt þekkingu okkar og hæfni en til þess þurfum að vita hvað við getum og hvað við erum að selja og líka hugrekki til að markaðssetja okkur sjálf.“

Erfitt að selja sig

En þar er einmitt stór ógnun, mjög margir eiga ákaflega erfitt með að selja sjálfan sig og markaðssetja. Bæði er þetta ákveðin feimni við að tíunda eigin kosti en sömuleiðis ákveðin tregða við að ræða fjármál. Mjög margar konur segja að þær eigi ákaflega erfitt með að svara spurningunni hvað þær vilji í laun í atvinnuviðtölum. Þær vilja ekki skjóta sig í fótinn með að biðja um of lítið en heldur ekki fæla vinnuveitandann frá að ráða þær með að krefjast of hárra launa. Hvernig er hægt að breyta þessu eða undirbúa sig undir slíkt?

„Þarna er undirbúningurinn fyrir launaviðtalið alveg gríðarlega mikilvægur. Það verður  að kunna skil á samningatækni. Þetta er bara stærðfræðiformúla, finndu út hver meðallaunin eru í þeirri grein sem þú vinnur og meðal fyrirtækja sem eru á sambærilegum stað og bættu 15-20% við. Þú verður síðan að þekkja þarfir þínar, viltu semja um sveigjanleika eða menntun eða starfsþróun. Svo getur fólk mæst á miðri leið. Við konur höfum farið svolítið óundirbúnar í atvinnuviðtöl og launaviðtöl, svolítið svona stóreygar, já fæ ég líka laun. En til þess að vera „giggari“ þarftu að hafa kjarkinn og getuna til að kynna sjálfan þig, markaðssetja og losa þig við feimnina við að tíunda atvinnuhæfni þína. Það er áberandi að yngsti og elsti hópurinn eru þeir sem helst eru í þessum gigg-störfum. Í Bretlandi, til dæmis, eru þeir sem eru undir eða alveg um tvítugt og fólk komið yfir sextugt langfjölmennust í þessum geira. Aldurinn er ekki krítería lengur.“

Alltaf verða einhverjir fyrir því að vera sagt upp á erfiðum aldri ef svo má segja og margir tala um að kennitalan þeirra sér ónýt. Hvað finnst þér um þá hugsun?

„Fólk ætti að hætta að velta aldri sínum fyrir sér og einbeita sér fremur að þeirri þekkingu og hæfni sem það hefur til að bera. Nú eru fyrirtækin að breyta um gír, mörg stóru fyrirtækin, Origo, Icelandair, Advanía og fleiri spyrja einfaldlega: „Hvað viltu vinna marga daga heima og hvaða marga í höfuðstöðvunum?“ Menn geta valið 20% eða 80% það er bara allur skalinn en þá vakna spurningar um aðstöðu, vinnutæki og fleira hver er ábyrgur og þar koma stéttarfélögin inn í. Kjarasamaningar  í framtíðinni munu að einhverju leyti snúast um þetta, tel ég.“

Í skáldsögum Árelíu er mikil heimspeki. Persónurnar leggja upp í ferðalag í leit að meiri lífsfyllingu og finna hana eftir ólíkum leiðum. Þær eiga það sameiginlegt með skapara sínum að stefna ótrauðar að aukinni sjálfþekkingu og hamingju. Árelía er síbrosandi og geislar af gleði. Hún hefur skapað sér einmitt það líf sem hún vill lifa.

Undanfarið ár hefur Árelía Eydís verið að skoða hvaða þættir það eru í lífi okkar sem er mikilvægt að huga að eftir því sem við eldumst. Hún hefur verið með námskeið sem er framhalda af Sterkari í seinni hálfleik og vinnur nú að bók. Námskeiðið er kallað: Blásið í glæður nýrra drauma (areliaeydis.is). Þar er fjallað um hvernig við undirbúum okkur fyrir langt líf og hvaða hegðun, þankagang og vana er mikilvægt að sleppa til að takast á við og láta nýja drauma rætast.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn apríl 18, 2024 07:00