Margir Íslendingar hafa á liðnum árum keypt sér húseignir erlendis eða leigt íbúðir eða hús til langs tíma. Hyggja margir gott til glóðarinnar að dvelja þar langdvölum, sérstaklega þegar aldurinn færist yfir og erfitt er að þreyja þorrann og góuna. Samkvæmt lögum eru þó ákveðnar hömlur á því hvað fólk má dvelja lengi fjarri heimahögum án þess að eiga á hættu að missa ákveðin réttindi á Íslandi. Þá gildir einu hvort dvalið er innan eða utan hins evrópska efnahagssvæðis, þrátt fyrir EES samninginn sem meðal annars kveður á um frjálst flæði fólks innan þess.
Grundvallarmunur er á réttindum og skyldum fólks eftir því hvort það flytur lögheimili sitt til annars lands eða heldur því hér á landi. Samkvæmt lögum um lögheimili og aðsetur ber fólki sem hyggst dveljast utan Íslands í meira en hálft ár að tilkynna flutning á lögheimili sínu. Að öðru jöfnu ber hjónum að eiga sama lögheimili, þó hægt sé að sækja um undanþágu frá þeirri reglu. Börn innan 18 ára mega vera með skráð lögheimili hvar sem er, svo lengi sem forsjáraðilar og þeir sem barnið skal búa hjá samþykki það.
Lögheimili á að vera þar sem einstaklingur hefur búsetu meiri hluta árs, eða meira en 6 mánuði í einu. Leiki vafi á því hvar föst búseta einstaklings er, t.d. vegna þess að hann býr á fleiri en einum stað og í fleiri en einu sveitarfélagi, skal hann eiga lögheimili þar sem hann dvelst meiri hluta árs. Unnt er að sækja um undanþágu frá þessari reglu ef einstaklingur þarf að dvelja lengi erlendis vegna veikinda (læknisvottorðs er krafist) en sú undanþága fellur niður eftir eitt ár og er þá nauðsynlegt að sækja um aftur og skila inn nýju vottorði.
Fólk getur farið í eins mörg frí erlendis og það kýs ef þess er gætt að dvölin fari ekki fram yfir 6 mánuði á ársgrundvelli og að dvalið sé hina 6 mánuðina á Íslandi. Miðað er við brottfarardag til langdvalar (t.d. að hausti) þannig að gott getur verið að búa sér til skrá við brottför og telja jafnóðum þá daga sem dvalið er erlendis. Einu gildir í hvaða landi dvalið er en hver og einn verður að gæta þess þegar líða fer á dvölina að fara ekki fram yfir hámarkið 6 mánuði samtals.
Þjóðskrá Íslands ber að fylgjast með því að lögheimili sé rétt skráð og hefur heimild til að leita til lögreglu og annarra stofnana telji hún vafa leika á málum. Meginskyldan í þessum efnum hvílir auðvitað á einstaklingnum sjálfum, sbr. 2. mgr. 12. gr. lögheimilislaga. Þar segir að sérhver sjálfráða einstaklingur sem á lögheimili skuli skrá og viðhalda réttri skráningu samkvæmt lögunum. Í 3. mgr. 12. gr. er jafnframt lögð sú skylda á þinglýstan eiganda fasteignar að fylgjast með því að lögheimili sé rétt skráð í eign hans. Berist Þjóðskrá tilkynning um að einstaklingur sé fluttur úr landi án þess að breyta lögheimili sínu, reynir hún að hafa samband við viðkomandi og staðfesta hvar hann dvelur meginhluta árs. Ef viðkomandi getur ekki staðfest með gögnum að lágmarki 6 mánaða dvöl á Íslandi eða ef ekki tekst að hafa upp á honum hefur Þjóðskrá heimild samkvæmt lögum til þess að taka ákvörðun um að breyta skráningu lögheimilis.
Réttindi sem gætu glatast við lengri dvöl erlendis
- Skattar. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. tekjuskattslaganna eru allir menn sem heimilisfastir eru hér á landi skattskyldir hér af öllum tekjum og eignum sama hvaðan þær koma úr heiminum. Dvöl erlendis rýfur ekki þessa skattskyldu, nema heimilisfestin sé færð til annars lands og hægt sé að sanna hana. Almennt miða skattyfirvöld við skráningu í Þjóðskrá, en engu að síður hefur ríkiskattstjóri heimild til að úrskurða um skattalega heimilisfesti einstaklinga.
Flytji Íslendingur til útlanda og tekur þar upp búsetu er viðkomandi samt sem áður áfram skattskyldur hér á landi af þeim tekjum sem aflað er frá íslenskum aðilum, t.d. af launum og lífeyri. Ísland hefur gert fjölmarga tvísköttunarsamninga og má finna lista yfir þá alla hér:
https://www.skatturinn.is/einstaklingar/skattskylda/tviskottunarsamningar/#tab2. Samkvæmt þessum samningum er mismunandi hvar viðkomandi greiðir skatt af tekjum sínum, í sumum þeirra er það upprunaríkið á skattlagningarréttinn og í öðrum heimilisfestisríkið. Þá getur þetta jafnframt verið mismunandi eftir eðli teknanna hverju sinni.
Launþegar sem vinna í fjarvinnu fyrir íslensk fyrirtæki, greiða skatt af þeim launum þar sem þeir eru heimilisfastir. Komi þeir hins vegar til Íslands að vinna í einhvern tíma er sá hluti launanna skattskyldur á Íslandi og fær þá viðkomandi persónuafslátt miðað við dvalartíma hverju sinni. - Sjúkratrygging. Samkvæmt lögum um sjúkratryggingar er fólk sem búið hefur á Íslandi s.l. 6 mánuði og á hér lögheimili sjúkratryggt nema annað komi til. Jafnframt skal fólk hafa búið á Íslandi í a.m.k. 6 mánuði á s.l. 12 mánaða tímabili. Ellilífeyrisþegar geta sótt um svonefnd S1 sjúkratryggingarvottorð sem veitir þeim sömu réttindi og íbúum annarra EES landa og jafnframt fulla sjúkratryggingu á Íslandi, jafnvel þó farið sé fram yfir þessa tímareglu. Vottorðið gildir í 5 ár.
Innan Evrópska efnahagssvæðisins veitir Evrópska sjúkratryggingarkortið ferðafólki sömu réttindi og þegnar viðkomandi lands eiga rétt á innan opinbera heilbrigðiskerfisins. Athuga ber sérstaklega að ekki er greitt fyrir sjúkraflug til Íslands. Alla þjónustu einkaaðila verður að greiða fyrir samkvæmt gjaldskrá þeirra. Hægt er að kaupa sér viðbótartryggingu sem tekur yfir slíkan kostnað að mestu leyti, jafnvel sjúkraflug heim. Nauðsynlegt er að lesa vel skilmála tryggingarfélagsins síns og gott er að prenta þá út á ensku og hafa með sér til útlanda. - Greiðslur frá Tryggingarstofnun. Samkvæmt lögum um almannatryggingar eru aðeins einstaklingar búsettir á Íslandi tryggðir. Full trygging miðar við að fólk hafi búið á Íslandi í a.m.k. 40 ár á aldrinum 16-67 ára og samfleytt í a.m.k. 3 síðustu ár. Vanti eitthvað upp á að 40 ára búsetu sé náð, skerðast tryggingarbæturnar. Ýmsar aukagreiðslur geta fallið niður við flutning til útlanda. Þá gilda eftirfarandi reglur:
- Flytji fólk til EES-landa, Sviss, Færeyja, Grænlands, Bandaríkjanna eða Kanada þá haldast greiðslur sem byggjast á lögum um almannatryggingar þ.m.t. lífeyrisgreiðslur, en ekki greiðslur sem byggjast á lögum um félagslega aðstoð og tengdum reglugerðum, t.d. framfærsluuppbót lífeyrisþega, enda grundvallast slíkar félagslegar greiðslur á búsetu á Íslandi. Í þessu sambandi er þó rétt að taka fram að endurhæfingarlífeyrir byggist á lögum um félagslega aðstoð og greiðist ekki úr landi, nema að viðkomandi hafi fengið undanþágu hjá þjóðskrá að halda lögheimili á Íslandi þrátt fyrir dvöl erlendis (t.d. vegna heilsufarsástæðna).
- Flytji fólk til annarra en ofangreindra landa, þá missir fólk rétt til bæði lífeyrisgreiðslna og félagslegra greiðslna, nema að viðkomandi hafi fengið undanþágu hjá þjóðskrá að halda lögheimili á Íslandi þrátt fyrir dvöl erlendis (t.d. vegna heilsufarsástæðna).
- Vari dvöl erlendis skemur en sex mánuði hefur það að jafnaði ekki áhrif á greiðslur frá TR skv. verklagi stofnunarinnar, í samræmi við verklag Þjóðskrár varðandi lögheimilisskráningu. En í því sambandi verður að skoða aðstæður hverju sinni.
*Greinin er byggð á gildandi lögum og samtölum við starfsmenn þeirra stofnana sem vitnað er í. Í öllum tilvikum voru starfsmenn beðnir að lesa yfir og leiðrétta það sem ekki var rétt var farið með í frumdrögum. Hugsanlegur misskilningur skrifast hins vegar allur á höfund greinarinnar.
Dóra Stefánsdóttir, eftirlaunaþegi og Kanaríeyjaaðdáandi skrifar