Fellum niður fasteignaskatt á 70 ára og eldri

Eyþór Arnalds.

Eyþór Arnalds 1. sæti hjá Sjálfstæðisflokki:

Á undanförnum árum hafa eldri borgarar þurft að taka á sig skerðingar, til að mynda í almannatryggingakerfinu. Þess vegna viljum við koma til móts við eldri borgara. Með hagræðingu í rekstri borgarinnar er unnt að lækka álögur á íbúana en í þeim efnum viljum við byrja á eldri borgurum. Fyrsta skrefið er að veita 100% afslátt af fasteignaskatti til þeirra sem eru búnir að ná 70 ára aldri.

Fasteignagjöld í Reykjavík hafa hækkað mjög mikið síðustu fjögur árin. Í ofanálag hafa tekjutengdar skerðingar á lífeyri ekki enn verið afnumdar, en Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti á síðasta landsfundi að þær skyldu afnumdar hið fyrsta. Við viljum að borgin geri sitt til að létta eldri borgurum lífið. Lækkun fasteignaskatts er mikilvægt skref í þeim efnum. Fólk hefur ekki tekjur af því húsnæði sem það býr sjálft í. Þvert á móti þarf að greiða af húsnæðinu gjöld og sinna viðhaldi eignanna. Allt þetta kostar sitt.

Manneskjuleg og skynsamleg stefna

Þeir sem geta og vilja búa heima eiga að fá gera það án þess að þeim sé íþyngt um of. Það er manneskjuleg stefna að létta byrðar þeirra sem geta og vilja búa í eigin húsnæði, en jafnframt er sú stefna skynsamleg enda er stofnanavæðing dýr fyrir þjóðfélagið allt. Kostnaður við dvalarrými eru um ein milljón króna á mánuði. Það er því miklu hagkvæmara fyrir samfélagið að bæta heimaþjónustu og létta gjöldum af eigin húsnæði þeirra sem eru komnir á eftirlaunaaldur. Þeir sem hafa náð 70 ára aldri hafa flestir borgað mikla skatta og mikil gjöld á sinni æfi. Þeir hafa borgað nóg. Það ætti að duga að eldri borgarar greiði skatta og útsvar af lífeyri sínum og öðrum tekjum. Jaðarskattar og skerðingar eru rangur hvati og óréttlátt skattheimta. Við viljum bæta félagsstarf eldri borgara en þar hefur Reykjavík dregið saman. Því munum við breyta. Við viljum flýta uppbyggingu húsnæðis fyrir eldri borgara sem hefur tafist úr hófi.

Okkar áherslur marka tímamót í þessum málaflokki. Það er nóg komið. Með því að setja þetta á oddinn viljum við innleiða breytingar í borginni. Með þínum stuðningi náum við að breyta til hins betra í vor.

 

 

Ritstjórn maí 7, 2018 11:02