Reynslubanki Íslands

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar

Guðmundur hafði látið af störfum sem framkvæmdastjóri fyrirtækis sökum aldurs. Hann átti langan og farsælan starfsferil að baki. Guðmundi þótti vænt um fyrirtækið og kom einstaka sinnum við í morgunkaffi til þess að halda tengslum en hann gætti þess vandlega að ofgera ekki starfsfólkinu með nærveru “þess gamla”. Eitt sinn þegar morgunkaffitímanum lauk bað ungi nýi framkvæmdastjórinn forvera sinn um að setjast inn á skrifstofu sína. “Ég stend frammi fyrir vandamáli sem veldur mér áhyggjum og ég er ekki viss um hvernig ég á að leysa,” sagði ungi framkvæmdastjórinn. Svo lýsti hann vandamálinu. “Í framkvæmdastjóratíð minni stóðum við tvisvar frammi fyrir sama vandamáli. Árið 1987 og 2004. Í fyrra tilfellinu leystum við vandamálið á rangan hátt og ég lærði af því. Ég var því viðbúinn þegar sama staða kom upp árið 2004 og við leystum vandamálið á farsælan hátt” sagði Guðmundur. Svo lýsti hann lausninni. Ungi framkvæmdastjórinn þakkaði fyrir upplýsingarnar og kvaddi forvera sinni léttari í bragði.

Ég hef verið aðdáandi Star Trek sjónvarpaþátta og kvikmynda í 40 ár frá því ég kynntist þáttunum þegar ég var í háskólanámi í Bretlandi. Margar framúrstefnu tæknihugmyndir hafa komið þar fram. Ýmsar hugmyndir hafa orðið að veruleika en aðrar verða það líklega seint. Í þáttaröðinni Deep Space Nine (gerist um 2370) er persóna sem nefnist Jadizia Dax ung kona en samt með 300 ára lífsreynslu. Svonefndur samlifungur (symbiont) var líffæri sem hægt var að flytja milli fólks í þáttunum. Samlifungurinn Dax flutti með sér þekkingu, reynslu og minningar þeirra fyrri 7 persóna sem höfðu haft þennan ígrædda samlifung. Skemmtileg hugmynd og æskilegt líffæri en líklega seint framkvæmanleg.

Nú þegar ég er kominn yfir 70 ára aldur hef ég meiri tíma til þess að horfa til baka yfir starfsferil minn. Ég hef velt fyrir mér ýmsu sem ég hefði framkvæmt öðruvísi á fyrstu árum mínum í atvinnulífinu ef ég hefði haft þá reynslu sem ég fékk síðar. Ég hef einnig velt fyrir mér hvernig mætti liðsinna reynslulitlu ungi fólki og fólki á öllum aldri sem er að hefja atvinnurekstur eða er í atvinnurekstri og vonandi stytta því leið yfir erfiðleika og mistök í ákvarðanatöku. Nú fer vaxandi fjöldi fólks á eftirlaun. Margir eru hressari en fyrri kynslóðir, með víðtæka reynslu í atvinnulífinu og fullir af lífskrafti. Sumir vilja vera lausir við afskipti af atvinnulífinu. Aðrir eru ánægðir með að vera ekki lengur með daglega ábyrgð í stjórnunarstörfum en hefðu ekkert á móti því að vera í tengslum við atvinnurekstur og kraftmikla frumkvöðla og deila langri reynslu t.d. á stuttum fundum.

Til þess að nýta þessa varnýttu reynslu mætti stofna Reynslubanka Íslands sem gæti t.d. verið undir umsjá Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eða jafnvel í einkaframtaki. Þar gæfu sig fram einstaklingar á skilgreindum sérsviðum sem hefðu áhuga á því að vinna með fólki og hitta á rabbfundum. Ef um er að ræða leyndarmál má skrifa undir trúnaðaryfirlýsingu. Sumir munu vilja fá greiðslur fyrir fundina og fá þá greitt tímagjald. Aðrir eru tilbúnir til þess að vinna þetta ánægjunnar vegna og myndu ekki óska eftir launagreiðslum. Ef um stærri verkefni verður að ræða mætti hugsa sér að viðkomandi einstaklingar fengju greitt í hlutafé. Fyrir þessa milligöngu mætti greiða lágmarksgjald. Markmiðið er ekki að þessi ráðgjöf komi í stað rekstrarráðgjafar heldur vera meira til hvatningar og til leiðbeiningar í ljósi reynslunnar.

Þegar ég hugsa um eigin reynslu mína tel ég að með stofnun Reynslubanka Íslands væri hægt að hjálpa mörgu fólki og stytta lærdómsleiðina til árangurs. Marga eftirlaunaþega vantar verkefni og eldri stjórnendur myndu hafa gaman af því að tengjast atvinnulífinu og miðla af reynslu sinni. Stofnum því Reynslubanka Íslands.

 

Þráinn Þorvaldsson febrúar 10, 2015 09:47