Breski þjóðlagasöngvarinn Roger Whittaker er fyrir löngu orðinn þjóðsagnapersóna sem eldri kynslóðir kannast vel við. Hálf öld er liðin síðan hann sló í gegn með laginu „The Last Farewell“ („Hinsta kveðjan“) og varð heimsfrægur. Síðan þá hefur tónlist hans hljómað víða um lönd og hann hefur auðgast vel á sölu 50 milljóna hljómplatna.
Tónlist Whittakers er blanda af þjóðlaga- og dægurlagatónlist, en hann er þekktastur fyrir silkimjúka barítónrödd sína. Einnig hafa flautuhæfileikarnir, þ.e. blístrið, löngum verið eitt af vörumerkjum hans.
Whittaker batt enda á söngferil sinn árið 2011, þegar hann var 75 ára, og hætti öllu tónleikahaldi. Síðan þá hefur hann notið ævikvöldsins í Suður-Frakklandi með eiginkonu sinni, Natalie O’Brien. Þar settust hjónin að í litlu afskekktu sveitaþorpi sem heitir Saint-Cirq-Lapopie.
Whittaker hefur átt láni að fagna í einkalífi engu síður en á tónlistarsviðinu. Hann á 5 börn með eiginkonu sinni, Natalie. Lengi framan af voru þau hjónin barnlaus, en þau ættleiddu dóttur sína Emiliy árið 1968 og síðar Lauren 1970. En þá gerðist kraftaverkið og þau eignuðust þrjú börn saman, Jessicu (1973), Guy (1974) og Alexander (1978).
Nú þegar söngvarinn er orðinn 85 ára segist hann vilja fá eina ósk uppfyllta áður en endalokin koma. Börn hans eru öll orðin fullorðin og búa hvert með sinni fjölskyldunni vítt og breitt um heiminn. Whittaker leitast nú við að ná öllum hópnum saman að minnsta kosti einu sinni áður en hinsta kveðjustundin rennur upp.
Af því að börnin eru dreifð um allan heiminn hefur fjölskyldan ekki oft hist. Þar að auki virðist sem samband söngvarans við börnin hafi eitthvað verið meinum blandið, en Whittaker tók þá ákvörðun snemma á ferlinum að þau skyldu ekki erfa auðæfi hans, heldur skyldu þau renna til góðgerðarmála.
Nú virðist söngvarinn leita sátta við afkvæmi sín, en hann segist eiga þá ósk heitasta að safna fjölskyldunni saman. Hversu langan tíma söngvarinn á eftir í þetta verkefni er því miður óljóst. Hann er veill fyrir hjarta og þjáist af svima sem hamlar honum að ferðast.
Aðdáendur lævirkjans um allan heim vona að hann fái síðustu ósk sína uppfyllta í tæka tíð.