Á sunnudaginn kemur, 26 .júlí verður rokkað á Árbæjarsafni í Reykjavík, milli klukkan 13 og 16, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Borgarsögusafni.
Rokk og ról er yfirskrift viðburðarins á sunnudaginn en þá er gestum boðið að upplifa ferðalag aftur til sjötta og sjöunda áratugsins. Rokktónlist mun hljóma víða um safnið, fornbílar verða á staðnum og eru gestir og starfsfólk hvatt til að klæða sig upp í stíl við þema dagsins.
Félagar í Fornbílaklúbbi Íslands kíkja í heimsókn með drossíurnar sínar, spjalla við gesti og geta gefið góð ráð um meðferð fornbíla. Í Hábæ vinnur húsfreyjan Katrín Rósa fyrir sér með því að greiða nágrannakonunum. Hún veit allt um galdurinn á bak við flotta pin-up hárgreiðslu. Í Lækjargötu stendur Heiða förðunarfræðingur og farðar dömurnar áður en þær skella sér á ball í sínu fínasta pússi! Ilmurinn af nýbökuðum lummum leikur um svæðið í kringum gamla Árbæinn og á baðstofuloftinu verður unnið að tóskap.
Opið verður á kaffihúsi safnsins í Dillonshúsi þar sem er hægt að kaupa heimilislegar veitingar.
Dagskráin hefst klukkan 13 og stendur til klukkan 16 síðdegis.
Ókeypis aðgangur fyrir börn, öryrkja og menningarkortshafa.
Árbæjarsafn er hluti af Borgarsögusafni – eitt safn á fimm frábærum stöðum.