Sérframboð hafa ekki skilað miklum árangri

Sérlistar eldri borgara eða eftirlaunafólks hafa á síðastliðnum 30 árum verið boðnir fram í kosningum í 23 löndum. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir að flestir hafi þeir fengið mjög lítið fylgi og yfirleitt hafi þeir verið skammlífir. Þó séu dæmi þess að flokkar af þessu tagi hafi náð fulltrúum inn á þjóðþing, í sveitarstjórnir, héraðsstjórnir eða inn á Evrópuþingið.

Eldri borgarar fengu 7 þingmenn

Það er einungis í fjórum löndum sem eldra fólkið hefur komið mönnum á þing, en þau eru Ísrael, Ítalía, Holland og Króatía. „Mesti sigur eldriborgaraflokks var í Ísrael árið 2006, en þá fékk slíkur flokkur 7 þingmenn af 120,“ segir Ólafur og bætir við: „Það sem var sérkennilegt við þær kosningar var að flokkurinn fékk mikið fylgi frá ungum kjósendum, sem kusu hann fyrst og fremst til að láta í ljósi andúð á gömlum og að þeirra mati spilltum flokkum. Þessir ungu kjósendur litu á stuðning við gamlingjana sem mótmæli gegn ríkjandi kerfi.“

Hafa beitt öðrum og árangursríkari aðferðum

Ólafur telur að sérframboð eldri borgara hafi þannig almennt skilað litlum árangri. Hins vegar hafi þeir beitt öðrum og árangursríkari aðferðum, svo sem eins og þrýstingi innan stjórnmálaflokka eða með stofnun hagsmunasamtaka sem hafi reynt að þrýsta á þingmenn, og flokkana, til að fá þá til að sinna málefnum eldri borgara og minna þá á hvað þeir eru fjölmennur kjósendahópur. „Í Bandaríkjunum eru vel skipulögð hagsmunasamtök AARP sem flokkarnir taka töluvert mikið tillit til, enda eru eldri borgarar kjósendahópur sem fer stækkandi í flestum löndum,“ segir hann.

Hafa tekið þátt í kosningabandalögum og sameinast öðrum

„Það er sjálfsagt víðar en á Íslandi sem eldri borgurum finnst að ekki sé hlustað á þá,“ heldur Ólafur áfram. Hann segir það hafa gerst í þó nokkur skipti að málefni eldri borgara hafi verið í brennidepli í kosningum, til að mynda deilur um eftirlaunakerfi og fleira. „Þó að þeir hafi ekki náð miklum árangri þegar þeir bjóða fram sjálfir, og ekki náð jafn miklum árangri og þeir hefðu viljað, er hægt að finna ýmis dæmi um að árangur hafi náðst. Margir hefðbundnir flokkar gera sér grein fyrir að þetta er stór kjósendahópur. Ég sé að einhverjir flokkar eldri borgara hafa tekið þátt í kosningabandalögum og stundum sameinast öðrum stjórnmálaflokkum. En það eru fleiri dæmi um að þeim hafi gengið vel í sveitarstjórnarkosningum en þingkosningum.“

Ritstjórn ágúst 10, 2021 07:00