Tólf hundruð manns boðnir í Hörpu í gær

Þetta er fimmta sinn sem Sinfóníuhljómsveit Íslands býður eldri borgurum á opna æfingu fyrir Vínartónleika. 1200 manns nutu tónleikanna á æfingunni í gær og hlýddu á vínarvalsa og dúetta í flutningi söngvaranna Valgerðar Guðnadóttur og Kolbeins Ketilssonar. Dansarar stigu einnig á svið. Hljómsveitarstjórinn Karen Kamenensek hélt um tónsprotann en hún er fyrsta konan til að stjórna þessum vinsælustu tónleikum hljómsveitarinnar.

Meira hugsaðir fyrir samtök

„Þessir tónleikar eru meira hugsaðir fyrir samtök en einstaklinga“, segir Hjördís Ástráðsdóttir fræðslustjóri Sinfóníunnar, en í gær voru það einkum hópar frá dvalarheimilum í Reykjavík og félagsstarfi eldri borgara víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu sem sóttu tónleikana. „Við segjum já á meðan við getum tekið við fólki í salinn“, bætir hún við. Öllum samtökum eldri borgara er frjálst að sækja um að komast á tónleikana og eftirspurnin hefur aldrei verið meiri en í ár.

Klukkutími hæfilega langur tími

Hjördís segir að þessir tónleikar fyrir eldra fólkið hafi staðið í klukkutíma, en á æfingunni var síðari hluti Vínartónleikanna fluttur. Þetta hafi vissulega verið æfing, en einsöngvararnir hafi verið í sínu fínasta pússi og dansararnir komnir í búninga. Hjördís segir að klukkutími sé hæfilega langur tími fyrir marga í þessum hópi. „ Þetta er mátulega löng stund, til að að komast í salinn og fá að sitja og njóta góðrar tónlistar“.

Anna 1200 gestum

Hjördís segir að 18 manns hafi unnið við að taka á móti gestunum í gær. Þjónustufulltrúar frá húsinu hafi verið þar í aðalhlutverki, en starfsmenn Sinfóníunnar hafi einnig unnið við að taka á móti fólki og aðstoða það við að finna sætin sín. „Þetta eru mörg handtökin, margt af þessu fólki fer hægar yfir, en þetta eru glöðustu og þakklátustu áheyrendur sem við fáum. Við önnum því að taka á móti 1200 manns. Þegar við reyndum í fyrra að taka á móti 1300 gestum, varð upplifunin ekki jafn ánægjuleg. Það mynduðust langar biðraðir við lyfturnar og einhverjir náðu ekki í sætin sín í tæka tíð“, segir hún.

Nýársgjöf Sinfóníuhljómsveitarinnar

Hjördís segir að það sé nýársgjöf hljómsveitarinnar að bjóða þessum hópi á lokaæfingu Vínartónleikanna og hópur af dvalarheimili sem ekki komst í ár, muni fá heimsókn frá þýska sellóleikaranum Alban Gerhardt, sem er væntanlegur hingað til lands, en hann óskaði sérstaklega eftir að fá að spila úti í samfélaginu. Hjördís segir að allt samfélags- og fræðslustarf hljómsveitarinnar sé þeim sem njóta að kostnaðarlausu, en fólk þurfi sjálft að útvega sér far á tónleikana. Sinfónían hefur einnig haldið tónleika fyrir Rauða krossinn og fyrir flóttamenn. „Auðvitað má alltaf gera betur, það er alltaf hægt, en við reynum að sinna þeim hópum sem við getum. Það gefur okkur og okkar fólki mikið“, segir hún.

Fyrstu Vínartónleikarnir voru í Hörpu í gærkvöldi og fleiri verða í kvöld og á morgun. Það er ekki alveg uppselt á alla tónleikana, ennþá er hægt að fá miða, en þá kannski bara staka miða. Þá er stundum hægt að fá ósóttar pantanir rétt fyrir tónleika, ef fólk getur farið með stuttum fyrirvara.

 

 

Ritstjórn janúar 5, 2018 17:07