Þegar náðist í Sigurð Rúnar Jónsson, eða Didda fiðlu eins og flestir þekkja hann, var hann að fara að ná í sonardóttur sína í skólann þar sem þau búa í Saarbrücken í Þýskalandi svo samtalið frestaðist um stund. Diddi fiðla flutti búferlum til Þýskalands fyrir sex árum. Hann segir að þá hafi hann og eiginkona hans, Ásgerður, verið búin að missa allar sínar eigur á Íslandi. Á sama tíma var Ólafur, einkasonur þeirra hjóna, kominn með fastan samning við Óperuhúsið í Saarbrücken og var kominn þangað með eiginkonu sína Sigurbjörgu og tvær dætur, þær Ásu og Brynju. Ólafi og fjölskyldu bauðst að leigja stórt hús úti í skóginum við borgina en húsið var heldur stórt fyrir þau að sögn Sigurðar. „Og þegar í ljós var komið á sama tíma að við Ásgerður vorum búin að missa húsnæði okkar á Íslandi þurftum við ekki að hugsa okkur tvisvar um þegar hugmyndin um að við flyttum líka út, kom upp. Við sáum strax að við hefðum ekki frá miklu að hverfa heima, skelltum okkur til Þýskalands og leigðum húsið með Ólafi og fjölskyldu. Og nú búum við öll saman í stóru húsi þar sem þrjár kynslóðir mætast og allir græða nokkuð,“ segir Sigurður og er augljóslega ánægður með ákvörðun þeirra hjóna að flytja af landi brott. Ásgerður var kennari og er komin á eftirlaun en Sigurður segir brosandi að hann sé upptekinn við að láta sér líða vel og hefur tekið að sér smá verkefni sem tengjast tónlist svo sem útsetningar, upptökur o.þ.h.
Sigurður segir að hann hafi kviðið því nokkuð fyrst að flytja frá Íslandi því hann hélt að hann myndi sakna bláu litanna svo mikið sem séu svo dásamlegir á Íslandi. „En þegar til kom voru grænu litirnir hér úti svo áberandi að þeir bættu þá bláu upp.“
Á meðan á samtalinu stóð var Sigurður staddur úti í garði fyrir utan heimili þeirra og var spurður hvað bæri fyrir augu. „Hér er ég að horfa á eplatré, heslihnetutré, brómberjarunna og stöku íkorna sem eru að stela mat fuglanna. Hér er mikið dýralíf því fyrir utan íkornana sjást hér villisvín og hirtir svo allt umhverfis húsið er ólgandi villt náttúra.“ Eftir að hafa búið í nokkurn tíma í Saarbrücken segist Sigurður hafa hugsað með sér af hverju hann hafi ekki fyrir löngu verið búinn að taka þetta skref að flytja til annars lands því kostirnir séu óneitanlega miklir. Þarna sé veðurfarið til dæmis allt annað, maturinn mjög góður og mun ódýrari en á Íslandi og þarna sé yndislegt fólk sem sé auðvitað heima líka, en veðurblíðan og maturinn hafi óneitanlega vinningin.
Diddi fiðla og Ásgerður una hag sínum vel í veðurblíðunni í Þýskalandi og þótt þau búi afskekkt segir hann að samfélagið sé mjög öruggt og barnvænt og glæpatíðni mjög lág.