Valgerður Sverrisdóttir fyrrverandi ráðherra og þingmaður

„Ég bý á Lómatjörn þar sem ég er fædd og uppalin. Akkurat núna er ég sveitt við að eitra fyrir illgresi á planinu hjá mér. Veðrið er dásamlegt hér fyrir norðan, glampandi sól og blíða. Það hefur verið ágætis veður hér í allt sumar,“ segir Valgerður og hlær þegar Lifðu núna hringir í hana til að spyrjast fyrir um hvað hún sé að gera þessa dagana. Fyrir þá sem ekki vita þá er Lómatjörn í Grýtubakkahreppi skammt frá Grenivík.

Valgerður sat á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn í rúma tvo áratugi. Á þeim tíma gegndi hún embætti viðskipta og iðnaðarráðherra í sjö ár og embætti utanríkisráðherra í eitt ár. Auk þess að vera samstarfsráðherra Norðurlanda í eitt ár. Hún hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa fyrir sinn flokk og setið í stjórnum margra fyrirtækja og sjóða í gegnum tíðina.

„Eftir að ég hætti sem þingmaður ákváðum við Arvid Kro eiginmaður minn að fara út í ferðaþjónustu. Það er gamalt íbúðarhús hér á Lómatjörn, við gerðum það upp og það er bara ansi huggulegt og kósí. Í húsinu er sex tveggja manna herbergi og fullkomin eldunaraðstaða. Mér finnst gaman að fá fólk í heimsókn og reyni að taka vel á móti því. Það er mikið að gera á sumrin við að taka á móti gestum og gangandi og halda öllu snyrtilegu bæði úti og inni.“ Valgerður segir að það séu mest útlendingar sem koma að Lómatjörn þau fái til að mynda marga Ítali í heimsókn þegar líður á sumarið en fyrripart sumars er nokkuð um Svía. „Ég hef ekki verið alveg nógu dugleg í markaðssetningu. Við erum reyndar með síðu á Fésbók undir heitinu Lómatjörn Gisting en svo hefur fólk verið að koma aftur og aftur sem hlýtur að gefa til kynna að fólk sé ánægt.

En Valgerður er ekki með öllu hætt í pólitíkinni. Hún er enn virk í flokksstarfi Framsóknarflokksins og situr í tveimur nefndum á vegum ríkisins. „Ég eyddi rúmum tuttugu árum á þingi,  það er drjúgur tími. Ég sé ekki eftir þessum tíma, að vera þingmaður og ráðherra gaf manni mikið. En mig langar ekki að snúa aftur á þing þó ég hafi ódrepandi áhuga á pólitík og óendanlegan áhuga á að fylgjast með því sem er að gerast á hverjum tíma. Ég er í stjórn Fjarskiptasjóðs og formaður Þróunarsamvinnunefndar. Mér finnst gaman að því að sitja í þessum nefndum. Fjarskiptasjóðurinn veitir fjármagni til uppbyggingar ljósleiðarakerfisins sem hefur verið gríðarlega mikilvægt byggðamál. Þróunarsamvinnunefndin er ráðgefandi nefnd gagnvart utanríkisráðherra og fjallar eins og nafnið bendir til um þróunarsamvinnu á breiðum grundvelli. Ég hef mikinn áhuga á þróunarsamvinnu og hef haft allar götur síðan ég var utanríkisráðherra,“ segir hún.

Valgerður á þrjú barnabörn en það fjölgar í hópnum í september því þá er barnsvon í fjölskyldunni. „Mér finnst ég aldrei sjá nóg af ömmustelpunum. Þær koma alltaf í sveitina  á vorin til að líta á sauðburðinn og svo eitthvað þar fyrir utan með foreldrunum.  Maður sér alltaf betur og betur hvað afa og ömmuhlutverkið er mikilvægt og skemmtilegt.  Mér finnst  gaman að geta hjálpað til þegar dæturnar þurfa á því að halda og segi gjarnan að ég sé að bæta upp „vanrækslu fyrri ára“ segir ferðaþjónustubóndinn að lokum.

Ritstjórn júní 27, 2018 06:21