Viðar Eggertsson leikari og leikstjóri skrifar.
Við árgangurinn minn úr Leiklistarskóla SÁL sem útskrifuðumst 1976 höfum haft að sið síðan að halda saman pálínuboð á gamlársdag. Þá fögnum við lífinu, árinu sem er að kveðja og nýju komandi ári. Þetta er yndisleg árviss stund. Auðvitað höfum við breyst, því öll erum við hvert með sínu móti. En við eigum þessi tímamót sameiginleg og vináttuna sem aldrei bregst. Við höfum skiljanlega þroskast heilan helling á þessum 48 árum – aðallega líkamlega. En mikið er þetta gaman!
Á sama tíma fór fram annað partý í öðru húsi með öðru fólki. Það partý fór fram fyrir opnum tjöldum fyrir alþjóð og kallast Kryddsíld. Ég sá það ekki fyrr en mínu vinaboði lauk.
Í tímaflakkinu sá ég að fólkið í Kryddsíldinni sat ekki hringinn í kringum veisluborðið eins og við gerðum og gátum verið í góðu augnsambandi, heldur sátu þau við háborð með óbreytta horfandi á úr rökkvuðum sal og þjóna á hverjum fingri.
Fyrir miðju tveir gestgjafar og þrír stjórnmálaleiðtogar á hvora hönd þeirra; þrjár konur sem nýbúnar eru að mynda ríkisstjórn með ríflegum fjölda þingsæta eftir lýðræðislegar kosningar og hins vegar þrír karlar sem lutu í lægra haldi og sitja nú í minnihluta á þingi. Allir karlarnir eiga að baki endasleppta veru í stóli forsætisráðherra og hrökkluðust frá yfirleitt vegna baktjaldamakks og hneykslismála.
Þetta var erfitt að horfa á. Þarna reigðu sig föllnu höfðingjarnir þrír sem auðljóslega töldu að þeir hafi verið bornir til auðs (rétt) og til valda (rangt)! Þeir hjuggu á báðar hendur – bókstaflega – því konunum hafði verið stillt upp á milli þeirra við háborðið. Þeir létu eins og þeir hafi verið rændir völdum af skríl.
Sérstaklega hömuðust þeir með svívirðingum á Ingu og gerðu bókstaflega hróp að henni sem stofnaði stjórnmálaflokk 2016 til að berjast fyrir þá sem verst eru settir. Hún sjálf þá öryrki í öryrkjaíbúð og með lítið á milli handanna eins og margir í þeirri stöðu. Hvað vill hún upp á dekk, óbreytt alþýðukonan?!
Hún komst á þing með flokkinn sinn 2017 og hefur verið óþreytandi í að segja silfurskeiðingunum sem hafa stjórnað Íslandi að það hafa það bara alls ekki allir jafn gott í samfélagnu og þeir. Því þó þeir hafi hrópað á móti: „Sjáið þið ekki veisluna?!“ Þá hefur hún óhrædd bent þeim á að hin svokallaða „veisla“ er bara einkapartý milljarðamæringa í Garðabænum.
Nú er hún komin í valkyrjuríkisstjórn og orðin ráðherra. Í stað þess að samfagna og bera tilhlýðilega virðingu fyrir henni, lá við að þeir misstu sig af reiði og hneykslun á að hún skyldi vera komin þangað sem hún er komin vegna eigin verðleika. Auðvitað varð hún bæði særð og reið og reyndi af fullum mætti að svara fyrir sig.
Þorgerður Katrín og Kristrún voru þær einu af gestum háborðsins sem sýndu yfirvegun og voru málefnalegar og hvetjandi við háborðið. Þær sýndu vel úr hverju þær eru gerðar og hvers má vænta af valkyrkjunum á komandi árum – og vonandi áratug.
Fallegast var þegar Kristrún forsætisráðherra minnti ákveðið og rólega óknyttadrengina og hrekkjusvínin á að Inga væri fullgildur flokksformaður í ríkisstjón og nyti trausts og virðingar sem slíkur. Þarna var landsmóðir sem kunni að tala við óuppdregna pörupilta.
Það eru breyttir tímar með rísandi sól!
Myndin er af veisluborði okkar SÁLarana sem við nutum af innilegri gleði meðan hnútuköst fúllyndra karla sem töldu sig eiga Ísland flugu um háborð Kryddsíldarinnar.