Stefán Þorleifsson fæddist í Neskaupstað fyrir rúmum 100 árum. Hugur hans stóð til mennta, hann fór á sjó og safnaði peningum til að komast í nám. Eftir að hann lauk prófi frá Héraðsskólanum á Laugarvatni lá leiðin í Íþróttakennaraskólann þar. Hann var íþróttakennari í Neskaupstað þar til hann varð forstöðumaður á Fjórðungssjúkrahúsinu sem þá var nýbyggt. Frásögn af lífi hans og afstöðu til efri áranna og dauðans er að finna í bókinni Raddir. Annir og efri ár eftir Jón Hjartarson og Kristínu Aðalsteinsdóttur, en þar er sagt frá lífi 28 einstaklinga.
Nú er ég sestur í helgan stein. Út af fyrir sig finnst mér ellin ágæt. Ég áttaði mig strax á því, að þegar fólk sest í helgan stein og hættir að hafa ákveðið starf til að vakna til, má það ekki leggjast í leti og doða, þess vegna byrja ég hvern einasta dag á leikfimi áður en ég fer í bað, því sleppi ég aldrei. Til skamms tíma var ég vanur að fara á hverjum morgni í sundlaugina og synda þar nokkrar ferðir og hitta vinahópinn, en varð að hætta því nýlega samkvæmt læknisráði. Nú þegar ég er hættur að fara í sundið fer ég bara í mína venjulegau leikfimi á hverjum morgni heima í stofu, allir morgnar byrja þannig. Þetta hef ég gert í áratugi.
Ég hef aldrei reynt að svara því sjálfur hvort ég sé orðinn gamall, hef reyndar aldrei hugsað um það af einhverri alvöru. Ég var lengi formaður golfklúbbsins og fer enn í golf, ég hef ákaflega gaman af þeirri íþrótt og stunda hana enn. Það eru aðeins fjögur ár síðan ég hætti að fara á skíði, þá fór ég upp í Oddsskarð í brekkurnar þar, en það er okkar skíðasvæði. Ég hafði ákaflega gaman af skíðaíþróttinni.
Eiginkona Stefáns, Guðrún Sigurjónsdóttir, féll frá árið 2013. Hann segist vera búinn að koma jafvægi á líf sitt og býr enn í húsinu þar sem þau bjuggu saman.
Ég er því tiltölulega sáttur við lífið í ellinni eins og það er. Ég finn hvorki fyrir hræðslu eða sorg yfir því að lífið sé að styttast, ég hugsa ekkert um það, ég er ekkert að hugsa um neina framtíð, ég veit að hún er engin, ég byrja bara af mínum hefðbundna vana á leikfimi á hverjum einasta morgni áður en ég fer að fá mér nokkra næringu og fer svo í sturtuna. Þegar veður er gott fer ég inn á golfvöll og spila golf. Ég tel að það vitlaustasta sem fólk gerir þegar það eldist sé að hætta að hreyfa sig.
Stefán segist aldrei hugsa um lengd lífsins, hann hugsi tæplega um morgundaginn, en passi vel uppá það að halda sig við það sem hefur gert honum gott, eins og að fara í leikfimi. Hann segist ekki hitta margt fólk núorðið, en hann sé í Rótaríklúbbi, þar sem hann sé langelstur. Hann hefur verið í klúbbnum frá því hann var stofnaður. Hann segir líka mikils virði að vera í golfklúbbnum þar sem hann var eitt sinn formaður. Þetta sé hvoru tveggja mikils virði.
Ég get sagt alveg eins og er að mér finnst lífið skemmtilegt, ég er heilbrigður og oftast með skemmtilegu fólki. Við hjónin bjuggum í sex ár í íbúðum fyrir aldraða, en sáum fljótt að það var engin ástæða fyrir okkur, fullfrískt fólk, að taka heimilispláss frá öðrum meira þurfandi og fluttum því aftur heim í gamla húsið okkar. Þegar heim var komið hófumst við handa við að lagfæra húsið utan sem innan, styrkja þetta allt saman og gera að okkar heimili uppá nýtt og það tókst. Enn er ég hér, en hún Guðrún mín blessunin, er búin að kveðja þennan heim, ég sit í húsinu okkar, daginn langan og hugsa til hennar á hverjum degi, oft á dag.