Sjálfhverfa samfélagið

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar                                                                                                                                                                                                        

Einhvern veginn virðist manni fólk sjálfhverfara en það áður var. Þegar litið er yfir tjáningu fólks á Facebook eða skrif og spjall í fjölmiðlum blasir þetta við. Ekki síst á þetta við um fólk í yngri kantinum. En hugsanlega er það bara opinskárra en áður var og með óheftari aðgang að áhrifaríkari miðlum? Það er svo sem ekki nýtt í veraldarsögunni að hafa sérstakan áhuga á sjálfum. Og menn hafa lengst af hugað vel að hagsmunum sínum og sinna. Það sýna til dæmis fornsögurnar. Þar höfðu hetjur ekkert á móti athygli og deilurnar og drápin snerust mest um hagsmuni, svo sem hagabeit og önnur hlunnindi sem eftirsóknarverð þóttu.

En er slæmt að huga að hagsmunum sínum? Varla ef það er innan skynsamlegra marka. Slíkt sprettur af öryggisþörfinni, sem virðist mjög rík í mannlegu eðli. Flestum líður betur þegar nóg er að bíta og brenna og jafnvel til fyrningar sem grípa má til. Auðvitað safnar fólk ekki lengur mat í stórum stíl og geymir heima hjá sér, né heldur safnar það eldiviði að ráði. Það fer bara út í búð og skrúfar frá heita vatninu eða rafmagnskyndingunni. En samt er ríkt í fólki að eiga fyrningar. Í nútímanum eru slíkar fyrningar geymdar í steinsteypu, landi eða banka.

Stundum virðist öryggisþörfin hins vegar fara út fyrir skynsamleg mörk, verða markmið í sjálfu sér. Þá tekur fólk að safna að sér eignum og peningum með öllum ráðum, líka þeim siðlausu. Miklu meiri fyrningum en nokkur maður getur haft gagn af. Þá er eins og fólk gleymi að það eru ekki vasar á líkklæðunum. Ég fór að hugsa um þetta þegar ég talaði við mann um daginn, sem eytt hefur ævinni í að fylgjast með hræringum samfélags okkar. Honum fannst að á níunda áratugnum hafi sannfæring verulega tekið að láta í minni pokann fyrir siðlitlu hagsmunapoti af öllu tagi.

Kannski er sjálfhverfan, sem maður sér, hluti af þessari þróun. Þeir sem hafa að markmiði að skara sífellt eld að eigin köku og láta sér á sama standa þó aðrir hafi lítið virðast óneitanlega ekki sterkir á siðferðilega svellinu. „Sjálfsmyndirnar“ sífelldu vekja líka grunsemdir um að viðkomandi hugsi til muna meira um sjálfan sig en aðra.

Stundum velti ég fyrir mér hvort sjálfhverfan stafi í raun og veru af hagsmunaástæðum eða því að viðkomandi hafi fengið óhóflega athygli og sé háður slíku. Og þá hvort þessi þróun kunni að stafa af því hve fámennar fjölskyldur eru orðnar algengar? Allavega er auðveldara að fá athygli þar sem fáir eru en þar sem fjöldi er á fletjum fyrir.

Eitt er þó umhugsunarvert, getur eldra fólk sem hefur úr lífsreynslu að moða kannski orðið þarna að liði? Sjálfhverfa er ekki aðeins leiðinleg heldur getur verið ávísun á erfiðleika í samskiptum og sambúð þegar út í lífið er komið. Valdið jafnvel ónauðsynlegum harmleikjum. Það er því ástæða til þess að benda þeim yngri á hætturnar sem stafa af því að hafa „sjálfan sig á heilanum.“ Líka er athyglisvert hve hógværð og lítillæti eru lítils metnir eiginleikar núna. Sýnast ekki taldir til dyggða, heldur benda fremur til að viðkomandi hafi ekki „nógu góða sjálfsmynd“, eins og það er orðað.

Gæti verið gott „move“ hjá hinum eldri að segja ungu fólk að skoða textann sinn? Athuga þar hvort alltof margar setningar byrji á „ég“. Og hvort sjálfsmyndirnar setji helsta svipinn á síðuna hjá viðkomandi? Hinir eldri geta í rólegheitum skoðað sinn hóp. Ef ástæða þykir til gætu þeir bent ungum aðstandendum sínum á hættur sjálfhverfninnar? Og einnig á muninum á eðlilegri öryggisþörf og græðgi – sem á endanum skilar ekki öryggi heldur eyðileggur það. Þetta myndi varla skaða.

Ýmislegt bendir til að sjálhverfa muni í framtíðinni setji um of mark sitt á samfélag okkar. Sem dæmi um skrýtna þróun má til dæmis sjá í færslum á Facebook. Þar er getið um hópa af „prinsessum“ og „prinsum“ sem eru að alast upp. Hætt við að æði margir sem fá þannig uppeldi verði fyrir vonbrigðum þegar þeir koma út í hversdagleika hinnar óumflýjanlegu lífsbaráttu. Hér er nefnilega ekkert konungdæmi að erfa.

 

 

 

 

Guðrún Guðlaugsdóttir október 5, 2015 10:09