Sjö merki um krabbamein

Um fjörutíu prósent Dana telja að þeir þekki lítið til einkenna krabbameina. Meira en helmingur þeirra vill bíða og sjá til áður en þeir leita læknis vegna einkenna sem gætu bent til krabbameins að því er fram kemur á vef Danska ríkisútvarpsins. Krabbameinsfélagið þar í landi gerði nýlega könnun á meðal 1000 Dana og spurði þá út í hvort þeir þekktu einkenni algengra krabbameina. „Við þurfum að auka þekkingu almennings á einkennum krabbameina og brýna fyrir fólki að leita læknis ef það fær slík einkenni,“ segir Iben Holten læknir og bætir við að það séu betri líkur á að fólk læknist ef það sé greint snemma.

Hann bendir á að það séu sjö kvillar sem fólk ætti að gefa sérstakan gaum og leita strax til læknis verði vart við þá.

  1. Langvarandi erfiðleikar við að kyngja.
  2. Skyndlegt þyngdartap sem ekki er hægt að skýra.
  3. Þrálátur hósti eða  hæsi.
  4. Blæðingar sem ekki er hægt að skýra.
  5. Breytingar á fæðingarblettum og sár sem vilja ekki gróa.
  6. Breyttar hægðir, niðurgangur eða harðlífi.
  7. Þykkildi eða hnútar undir húðinni.

Samkvæmt rannsókninni sem vísað var í hér að framan kom í ljós að annar hver Dani fór ekki til læknis þó að hægðir hans breyttust. Þriðji hver leitaði ekki læknis þrátt fyrir óútskýrt þyngdartap og jafn hátt hlutfall fór ekki til læknis þrátt fyrir að þeir hefðu þjáðst af hósta eða hæsi lengur en í mánuð. „Það getur kostað fólk lífið ef það tekur þessar vísbendingar ekki alvarlega.  Líkaminn er að senda okkur skilaboð um að það sé eitthvað að,“ segir Helene Burén hjá dönsku krabbameinssamtökunum.

 

Ritstjórn febrúar 9, 2017 10:54