Skapandi raunveruleikaþættir

Alls konar keppni er mjög gott sjónvarpsefni og flestir raunveruleikaþættir ganga út á það að einn stendur uppi sigurvegari að lokum. Líklega er hægt að keppa í öllu, í það minnsta virðist hugmyndaflugi sjónvarpsframleiðenda lítil takmörk sett hvað þetta varðar. Fyrir utan að keppa í að komast af á eyðieyjum, um ástir ungra manna og kvenna, í matreiðslu, bakstri eða hver er útsjónarsamasti ferðalangurinn er nú farið að keppa í fatahönnun og saumaskap. Nýlega rak á fjörur Lifðu núna þáttaröð að nafni The Great British Sewing Bee.

Dómarar og kynnar þáttanna, The Great British Bake Off. Dómarar eru Paul Hollywood og Prue Leith. Kynnar eru þeir Matt Lucas og Noel Fielding..

The Great British Bake Off er af sama toga en þar er keppt í bakstri og nokkrir slíkir þættir voru sýndir á Stöð 2. Í saumaklúbbnum eða sewing bee er safnað saman áhugafólki um saumaskap, tólf manns byrja og einn dettur út í hverjum þætti og að lokum standa þrír eftir og einn þeirra er útnefndur sigurvegari. Fyrirfram hefði maður kannski talið að litla spennu væri hægt að skapa í kringum fólk að sníða og sauma, kjóla, blússur, skyrtur og buxur en það er mesta furða hversu skemmtilegt þetta er. Inn í þættina er fléttað ótal fróðleiksmolum um sögu margskonar sniða og tiltekinna flíka, fjallað um sóun og endurvinnslu, mismunandi klæðnað frá framandi löndum og ótal margt fleira. Og það er bara mannlegt að einn verður uppáhalds og áhorfandinn fer að halda með honum og getur ekki annað en kveikt á næsta þætti.

Meðal þess sem þátttakendur þurfa að gera er að skapa eitthvað nýtt úr gömlum flíkum. Í því sambandi kom fram að við höfum þegar framleitt nægilegt magn af fatnaði til að klæða næstu sex kynslóðir manna á plánetunni Jörð. Sóunin er gegndarlaus og aldrei hefur jafnmiklu verið hent af textíl og einmitt nú. Þess vegna er mjög mikilvægt að menn fari að nýta betur fötin sín og nýta úr þeim eins og forfeður okkar gerðu. Vissulega eru flíkurnar misklæðilegar sem út úr þessu koma en tilraunirnar sérlega skemmtilegar. Dómarar í þessum þáttum eru Patrick Grant klæðskeri og Esme Young fatahönnuður.

Nýjir dómarar í þáttunum Project Runway.

Endurvinnsla, endursköpun og viðgerðir

En þetta eru ekki einu þættirnir þar sem reynir á hæfni manna til að hanna, sníða og sauma föt. Nefna má Project Runway þar sem óþekktir eða lítt þekktir fatahönnuðir fá að spreyta sig. Þessir þættir hafa verið í gangi í 20 ár og stjórnendur voru lengst af þau Heidi Klum og Tim Gunn. Nú hefur Karlie Kloss tekið við af Heidi og Christian Siriano af Tim. Next in Fashion hafa aðeins gengið í tvö ár en það eru þau Tan France og Gigi Hadid sem leiða keppni milli tólf hönnuða og sá sem vinnur er sem sagður næsta stóra nafnið í tískuheiminum. Tan France er velþekktur stílisti og hann hefur verið áberandi í þáttunum Queer Eye for the Straight Guy. A Stich in Time eru svo frábærir þættir um sögu fataframleiðslu og tísku. Amber Butchart er sagnfræðingur með fatnað að sérgrein og hún fær í lið með sér í hverjum þætti og endurskapar klæðnað fólks sem sjá má á gömlum málverkum. Allt er gert með þeim aðferðum sem notaðar voru á þessum tíma og Amber leiðir áhorfendur í gegnum tæknina, sögu fólksins og hvað flíkurnar og efnin segja okkur um þá tíma sem það lifði. Ein þáttaröð þessa frábæru þátta var sýnd á RÚV fyrir nokkrum árum og gaman væri af menn þar á bæ kæmu með fleiri og einnig hina bráðskemmtilegu The Great British Sewing Bee.

Tan France og Gigi Hadid eru kynnar í þáttunum Next in Fashion.

Undanfarið hefur einnig borið á að þættir um viðgerðir og endursköpun gamalla hluta hafi slegið í gegn. Í Bandaríkjunum gera menn gjarnan upp gamla bíla og hús og milljónir manna fylgjast með hvernig það gengur. Danskir þættir gengu út að komið var með gömul reiðhjól til handlaginna manna og þeir ýmist gerðu þau upp eða gerðu úr þeim einhvers konar önnur farartæki. Í Bretlandi tekur hópur handverksmanna við gömlum skemmdum hlutum, allt frá leikföngum upp í húsgögn og gerir við skemmdir og gefur hlutunum þar með áframhaldandi líf. Þættir af þessum toga hafa ekki bara skemmtanagildi. Þeir eru vel til þess fallnir að vekja athygli á öllum þeim ótrúlegu möguleikum sem felast í sköpun og hversu gaman er að gera hlutina sjálfur. Í kjölfar þeirra eykst gjarnan áhugi fólks á heimabakstri, endurnýtingu, endurvinnslu og því að gera hlutina frá grunni. Slíku tómstundagamni fylgir oft sparnaður, meiri hollusta og líka varðveisla þekkingar á hvernig ákveðnir hlutir eru unnir. Einhverja af þessum þáttum er hægt að nálgast á streymisíðum á borð við Apple og Netflix eða á dönsku, norsku eða sænsku sjónvarpsstöðvunum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn ágúst 13, 2024 07:03