Margrét Sölvadóttir skrifar athyglisverða grein í Stundina um hversu háa skatta eldri borgarar greiða af lífeyrisgreiðslum sínum. Margrét var á vinnumarkaði í sextíu ár og greiddi sína skatta og skyldur öll þau ár.
„Þau 60 ár sem ég hef verið á vinnumarkaðinum tilheyrði ég lífeyrissjóði eins og flestir landsmenn. Við greiddum skatt af laununum og settum svo pínulítið af þeim í lífeyrissjóð, til notkunar á efri árum, af þessum launum hef ég þegar greitt skatt en greiði nú aftur skatt af þessum sparnaði.
Nú er ég á tímamótum, atvinnulaus einmitt þegar ákveðið var að setja frítekjumörkin í 100.000 krónur. En áður varð ég að greiða Tryggingastofnun til baka af því að ég hafði of miklar tekjur það árið og hafði ekki haft vit á að segja þeim að hætta að greiða mér ellilaun. Það tók mig þrjú ár að greiða þeim til baka.
Ekki skildi ég þetta kerfi þá og nú er nýi greiðsluseðilinn, janúar 2018, kom og þar stendur að mín réttindi séu 225.461 krónur á mánuði, en staðgreiðsla skatta sé 48.895 krónur – samtals til útborgunar 176.566 krónur – þá skil ég þetta enn síður. Ég hringdi í TR og þjónustufulltrúinn sem svaraði sagði mér að kvarta við skattstofuna þar sem ég skildi ekki af hverju tekið var af mér 48.895 kr í staðgreiðsluskatt af svo litlum bótum.
„Þetta eru lög í landinu og við förum að lögum“. Ég spurði þá ef ég nýti minn persónuafslátt að fullu hjá TR en ekki hluta hjá lífeyrissjóðinum væri greiðslan eitthvað hærri sem ég fengi frá ykkur og svarið var nei. „Þú greiðir alltaf þessi rúm 37% í skatt og fullur persónuafsláttur er bara um 53.000 kr“. Næst var að athuga þetta hjá skattstofunni en þar var svo löng bið að ná tali af þjónustufulltrúa að mín þolinmæði þraut, enda hefði mér bara verið svarað að þetta væru lög í landinu og þeir færu að lögum. Ég fékk rukkun frá skattstofunni í september um að ég skuldaði 30.000 krónur, í viðbót við það sem ég hafði þegar greitt í staðgreiðslu. Ég fór að athuga nánar hvað ég fengi í raun frá TR og sá þá að bæturnar voru hærri en ég hafði haldið og að skatturinn hirti stóran hluta. Ég skil vel að fólki finnst það ekki gáfulegt en ég hafði bara látið mér nægja að skoðað það sem kom inn á bankareikninginn frá TR en ekki dottið í hug að athuga útreikningana og skattlagninguna. Það er svo fáránlegt að skattleggja ellibætur að mér datt ekki í huga að á hverjum mánuði tæki ríkið nærri 38% af bótunum mínum til sín. Svo ég fór að reikna: Ef ég greiði í staðgreiðslu 48.895 kr skatt á mánuði er ég að greiða 586.740 kr á ári. Þið verðið að afsaka en mér finnst þetta nokkuð há upphæð af þessum fáu krónum sem ellilaunin eru. En ef TR kallar þetta tekjur og frítekjumörkin voru hækkuð í 100.000 krónur, af hverju gildir það þá aðeins um tekjur sem fást á vinnumarkaðinum af hverju gildir það ekki líka um tekjur frá TR? Ef ég fengi nú bæturnar allar greiddar án þess að tekinn sé af þeim skattur þá yrði ég bara sátt. Ég verð sem sagt að fara aftur á vinnumarkaðinn til að fá fríar 100.000 krónur, en hver vill 73 ára gamla konu í vinnu?“ Grein Margrétar er hægt að lesa í heild hér en hún er nokkru lengri en brotið sem Lifðu núna birti.