Skiptir ekki máli hver er við völd

Þegar Jóna Valgerður Kristjánsdóttir fyrrverandi þingmaður, sveitarstjóri, húsmóðir og formaður Landsambands eldri borgara var að alast upp í Reykjafirði á Hornströndum voru bakaðar drullukökur úr moldarleðju og þær látnar þorna á

Foreldrar Jónu Valgerðar, Jóhanna Jakobsdóttir og Kristján S.Guðjónsson

Foreldrar Jónu Valgerðar, Jóhanna Jakobsdóttir og Kristján S.Guðjónsson

nálægum steinum. Bollapörin voru glerbrot og bústofninn á bæ barnanna, leggir og skeljar. Jóna Valgerður fæddist í torfbæ afa síns og ömmu. Móðirbróðir hennar Jóhannes, sem var mikill hlaupagikkur, sagðist aldrei hafa hlaupið jafn hratt og þegar hann átti að sækja lækni til að vera við fæðinguna, en hann hljóp frá Reykjafirði í Hrafnfjörð á tveimur klukkutímum. Læknirinn var á Hesteyri, en þegar á hólminn var komið þurfti hann ekki að hjálpa Jónu Valgerði í heiminn. Ljósmóðirin í Kjós í Jökulfjörðum sá um það.

Gekk í alla skóla nema iðnskólann

Jóna Valgerður var elst níu systkina, sjö dætra og tveggja sona. Þegar hún var sjö ára fluttist fjölskyldan til Ísafjarðar með börnin fimm sem þá voru fædd. Hún lærði seinna að synda í sundlauginni í Reykjafirði sem nú er afar eftirsóttur ferðamannastaður. Hún gekk í alla skólana á Ísafirði, barnaskólann, gagnfræðaskólann, húsmæðraskólann og tónlistarskólann, en ekki iðnskólann. Þangað fóru strákarnir.

Jóna Valgerður er elst níu systkina, það yngsta er ekki fætt þegar myndin er tekin

Jóna Valgerður er elst níu systkina, það yngsta er ekki fætt þegar myndin er tekin

Var feimin og hlédræg

Það er kannski erfitt að trúa því, en sem ung stúlka var Jóna Valgerður feimin og hlédræg. „Ég var bókaormur og hékk á bókasafninu og las. Ég hlustaði líka á útvarp, á framhaldssögurnar og barnatímana“ segir hún og man mest eftir sögunni um Bör Börsson, enda var það á þeim tíma vinsælasta sagan sem hafði verið lesin í útvarpi hér. „Og Helgi Hjörvar las líka þingfréttirnar yfir kvöldmatnum“ segir Jóna Valgerður. Sem elsta systir þurfti hún að gæta yngri systkina sinna og hjálpa til á heimilinu. Hún segist ekki hafa verið í skátunum, en gengið í barnastúku.

Ein skíði fyrir 9 börn

Foreldrar Jónu Valgerðar höfðu ekki efni á að kosta öll börnin í íþróttir og á heimilinu voru einungis til ein skíði. En það var farið í að minnsta kosti eina skíðaferð á ári með skólabekkina á Ísafirði og þá skiptust þau systkinin á með skíðin eða fengu skíði lánuð hjá Skíðafélaginu. Útilegur voru líka á vegum skólans í Birkihlíð í Tunguskógi. Hún segir að skólarnir fyrir vestan hafi verið góðir. “Ég man eftir mörgum góðum kennurum í barnaskólanum og gagnfræðaskólanum og Hannibal Valdimarsson var skólastjóri Gagnfræðaskólans þar á tímabili. Hann var virtur sem skólastjóri“ segir Jóna Valgerður.

Börn Jónu Valgerðar og Guðmundar. Það yngsta er ófætt þegar myndin var tekin

Börn Jónu Valgerðar og Guðmundar. Það yngsta er ófætt þegar myndin var tekin

Réðust í húsbyggingu

Eins og svo margar aðrar ungar konur, giftist Jóna Valgerður rúmlega tvítug. Eiginmaðurinn var Guðmundur H. Ingólfsson í Hnífsdal. Ungu hjónin fengu lóð þar og réðust í húsbyggingu. Saman áttu þau eftir að eignast fimm börn, en bæði voru virk í félagsmálum og pólitík, einkum í sveitarstjórnarmálum. Á meðan börnin voru ung, var Jóna Valgerður mest heima, en stundaði jafnframt hlutastörf, vann í kaupfélaginu og kenndi í barnaskólanum. Hún fór líka snemma í kór og í kvenfélagið, þar sem hún var formaður í nokkur ár. Á tímabili var hún einnig formaður Sambands vestfirskra kvenna.

Fer út í pólitík

Árið 1986 fer Jóna Valgerður að starfa með samtökunum Jafnrétti milli landshluta og þar með má segja að teningunum hafi verið kastað. Þessi samtök urðu síðar að stjórnmálaflokki, Þjóðarflokknum sem bauð fram í þremur kjördæmum í næstu Alþingiskosningum. Jóna Valgerður sem var í framboði á Vestfjörðum segist hafa verið þingmaður í tvo tíma á kosninganótt, en vantað örfá atkvæði til að ná kjöri. Á þessum tíma hafði Kvennalistinn einnig verið að falast eftir kröftum Jónu Valgerðar og árið 1991 fer hún fram fyrir listann, í efsta sæti á Vestfjörðum. Hún var kjörin á þing og sat þar í fjögur ár.

Árangurinn á Alþingi of lítill

„Það var mjög skemmtilegt og lærdómsríkt en stundum þreytandi“, segir hún. Það er hennar skoðun að árangur af starfi Alþingis sé of lítill. „Þarna er fjöldi fólks með góðar hugmyndir, en þetta var alltof mikið stapp. Mér leið stundum eins og móður sem er að ala upp börn og fékk alveg nóg af „sandkassaleik“ á þinginu. Ég neitaði að taka þátt í honum og ég neitaði að taka þátt í málþófi. Mér fannst í lagi að ræða málin, þegar ég hafði eitthvað um þau að segja, en ekki að endurtaka sömu ræðuna aftur og aftur eingöngu til að stoppa mál. Það er svo mikil sóun“. Jóna Valgerður segir að langflestir sem fari inná þing, vilji í upphafi bæta heiminn og koma góðum málum áfram. „En svo fer hver og einn í sína skotgröf eftir flokkum“.

Jóna Valgerður og eiginmaður hennar Guðmundur H. Ingólfsson

Jóna Valgerður og eiginmaður hennar Guðmundur H. Ingólfsson

Alltaf sömu skerðingar

„Það er sama hver er við völd, ef horft er á skerðingar og kjör eldri borgara“ segir Jóna Valgerður. „Það er alltaf farið framhjá 69. grein Almannatryggingalaganna um að ellilífeyrir skuli taka mið af launaþróun , en þó aldrei hækka minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs . Þessi grein er alltaf gerð óvirk með fjárlögum og skiptir engu hvaða ríkisstjón er við völd“. Hún telur ekki nægilega mikið hlustað á eldra fólk og sér ekki hvað er hægt að gera til að breyta því. Henni finnst að kynslóðabilið hafi frekar aukist á síðustu árum. Það sé talað niður til fólks og hún hafi til dæmis orðið vör við það að yngra fólki hafi fundist Sigrún Magnúsdóttir með alla sína reynslu, of gömul til að verða ráðherra. Það hefði átt að velja einhvern yngri. Jónu Valgerði varð þá að orði hvort ekki væri allt í lagi að gefa henni tækifæri, áður en farið væri að dæma hana. Jú, það var fallist á það með semingi.

Flytja að Reykhólum

Eftir annasöm ár, flytja Jóna Valgerður og Guðmundur að Reykhólum árið 1996, en þar var hann beðinn um að taka að sér sveitarstjórastarf í 6 mánuði. Starfið vatt uppá sig og Jónu Valgerði var boðið starf þar líka sem hún afþakkaði og sagðist þeirrar skoðunar að það ætti að auglýsa störf fyrir sveitarstjórnina. Þegar enginn sótti um, fór hún að sinna ákveðnum verkefnum fyrir sveitarstjórnina, sem jukust þegar Guðmundur veiktist af krabbameini. Þau höfðu keypt jörðina Mýrartungu II, sem er afar fallegur staður.

Víxlverkun og skerðingar ellilífeyris

Hún tók sæti í stjórn Landssambands eldri borgara árið 2009. Varð formaður tveimur árum síðar og gegndi formennskunni í þau tvö tímabil sem formaður LEB getur setið. Henni fannst stærsta málið sem sambandið stóð frammi fyrir, að bæta hag þeirra sem eru á lægsta ellilífeyrinum frá Tryggingastofnun og draga úr víxlverkun og skerðingum sem eru milli tekna og ellilífeyris TR. Hvort sem um er að ræða lífeyristekjur eða aðrar. Jóna Valgerður telur að Landssambandið hafi staðið nokkuð vel þegar formennsku hennar lauk, það hefði tekist að gera samning við velferðarráðuneytið og fá aukið framlag frá ríkinu, sambandið hafi fengið viðurkenningu á að vera í forsvari fyrir eldri borgara gagnvart stjórnvöldum, það hafi bætt á sig verkefnum og taldi hún brýnt að félögin vítt og breitt um landið, fengju sömu stöðu gagnvart sveitarfélögunum.

 

Sælureiturinn Mýrarhagi II

Sælureiturinn Mýrartunga II

Skrifa ævisögu?

Eftir annasaman feril, leikur blaðamanni Lifðu núna forvitni á að vita hvað hún ætlar að taka sér fyrir hendur næst. „Börnin mín eru að skora á mig að skrifa ævisöguna mína“ segir hún og segist ævinlega hafa haft næg viðfangsefni. Skógræktin bíði sín líka vestra, en hana hefur hún stundað í 10 ár. Skógræktin er hluti af verkefni sem heitir Skjólskógar á Vestfjörðum og Jóna Valgerður dreif sig ásamt dóttur sinni á námskeið sem heitir Grænni skógar til að læra til verka. Raunar hefur hún alla tíð verið óþrjótandi að sækja námskeið af ýmsu tagi, því það tíðkaðist ekki þegar hún var ung, að hvetja ungar alþýðustúlkur til að ganga menntaveginn.

Var á móti virkjunum í Þjórsárverum

Þegar hún lítur yfir farinn veg í félagsmálum, finnst henni að seta hennar í Samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins hafi verið með því skemmtilegra sem hún hefur gert. Nefndin ferðaðist m.a. um allt land og hitti sveitarstjórnarmenn, en verkefnið snerist um að sveitarfélögin lykju sínu aðalskipulagi og samræmdu það skipulagi miðhálendisins. Meirihluti nefndarinnar lagðist gegn virkjunum í Þjórsárverum og var Jóna Valgerður í þeim hópi.

Vera með börnin úti á landi

„Þegar ég horfi tilbaka finnst mér það hafa verið forréttindi að geta verið heimavinnandi húsmóðir á meðan börnin þurftu á því að halda“, segir hún. Henni finnst líka að það hafi verið forréttindi að ala börnin sín upp úti á landi. „Það er svo mikið frjálsræði og þau læra að bjarga sér sjálf og bregðast við alls kyns aðstæðum. Þau upplifa gott veður og slæmt og eflast í glímunni við náttúruöflin. Ég ráðlegg öllum sem eignast börn að vera með þau í að minnsta kosti tíu ár úti á landi. Ég er ekki að halda því fram að konur eigi að vera heimavinnandi, tímarnir hafa breyst, báðir foreldrar eiga að sinna þeim jafnt, en það þarf að skipuleggja þann tíma sem foreldrarnir hafa með börnunum og sjá til þess að þeir gefi sér þann tíma sem þarf þó þeir séu útivinnandi. Það er allt hægt ef skipulagið er fyrir hendi,“ segir Jóna Valgerður að lokum.

 

 

Ritstjórn maí 8, 2015 10:09