Stórkostlegt að vera hættur að vinna

Á kaffistofunni

„Þetta er mjög skemmtilegt. Á haustmisseri tek ég tvö námskeið annað er Modern art og hitt er List, náttúra og ómennskir gerandur. En ef ég á að fara útskýra fyrir þér hvað felst í ómennskir gerendur lendi ég í vandræðum. Ég er bara ekki alveg búin að átta mig á því enn,“ segir Eysteinn Jónsson einn af eldri nemendum Listaháskóla Íslands. Hann segist hafa verið að fletta blöðunum í ágúst og rekist á auglýsingu um Opna Listaháskólann. „Mér fannst þetta spennandi og ákvað að slá til og prófa. Í Laugarnesið mæti ég svo þrisvar í viku í fyrirlestra einn og hálfan tíma í senn.  Það er tvennt sem mér finnst skemmtilegt við námið hér annars vegar að rifja það upp sem ég lærði einu sinni, en nú með öðrum kennurum. Það er svolítið eins og að læra hlutina upp á nýtt. Hitt er að kynnast nemendunum hér sem ætla að verða listamenn framtíðarinnar. Ég gæti verið afi þeirra flestra,“ segir Eysteinn og kímir. Hann segist ekki stunda félagslífið með unga fólkinu. „Nei, ég fer ekki í partí með þeim, þar dreg ég mörkin,“ segir hann og hlær. Eysteinn segir að samnemendur hans hafi tekið honum einstaklega vel í skólanum. Þau hafi til að mynda boðið honum að vera með sér í hópvinnu. „Ég sagði nú við þau að ég gæti lítið gert en mér þætti gaman að hlusta á þau. Krakkarnir eru skemmtilegir það mega þeir eiga. Mér finnst gaman að umgangast ungt fólk.“

Sný mér bara á hina hliðina

Eysteinn er fæddur norður í Eyjafirði. Hann stundaði nám í Handíða og Myndlistaskóla Íslands í byrjun sjöunda áratugar síðustu aldar. Hann hefur í áranna rás lagt gjörva hönd á margt. Starfaði meðal annars sem gæslumaður, fangavörður og sendibílstjóri í Reykjavík. Var sveitarstjóri á Flateyri 1967 til 1970, eitt ár var hann vitavörður á Hornbjargsvita, Kaupfélagsstjóri í Bíldudal og aðalgjaldkeri og framkvæmdastjóri á Hornafirði um 14 ára skeið. Þá flutti hann suður varð skrifstofu fjármálastjóri og síðar aðstoðarhitaveitustjóri Hitaveitu Reykjavíkur og svo framkvæmdastjóri og sviðssjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Hjá þessum stofnunum starfaði hann í aldarfjórðung. Auk þess hefur allar götur sinnt myndlist í frítíma sínum. Nú er hann kominn á eftirlaun og hefur nægan tíma til að sinna henni.

„Það er mjög gott að vera hættur að vinna. Það ættu allir að gera þegar þeir verða gamlir. Þegar maður er heilsugóður og laus við allar áhyggjur þá er þetta stórkostlegur tími. Mér finnst gott að vakna klukkan sex á morgna og minna mig á að það sé engin vinna framundan. Svo sný ég mér á hina hliðina og held áfram að sofa. Mér finnst notalegt að vita að ef ég nenni ekki að gera eitthvað í dag þá get ég sagt við sjálfan mig, ég geri það bara á morgun, “ segir hann glaðhlakkalega.

Dýrðartímar á heiðinni

Í skólanum

Eysteinn er kvæntur Erlu Sigurbjörnsdóttur og hafa þau stigið saman lífsdansinn í rúma hálfa öld. „Við eigum stjóra fjölskyldu, börn, barnabörn og barnabarnabörn. Þau koma oft í heimsókn til okkar og okkur finnst gaman að fá þau. Fjölskyldan er samhent. Svo eigum við marga vini, sérstaklega konan mín svo það er engin dauður tími. Það má segja um mig, að ég er seinteknari en hún. Hún kynnist fólki á augabragði. Ég man til dæmis einu sinni eftir því að síminn hringdi um það leyti sem fréttirnar í sjónvarpinu voru að byrja. Ég fór að fylgjast með þeim en heyrði að hún talaði mikið í símann og virtist skemmta sér hið besta. Hún var drjúga stund í símanum og þegar hún kvaddi spurði ég hvort þetta hefði verið einhver sem hún þekkti vel.  Já  hann á tvo stráka og vinnur á Sauðárkróki.. Ég hef aldrei talað við hann áður. Hann hringdi í skakkt númer.Hann fékk bara svo mikinn áhuga á að spjalla við mig þegar ég sagði honum að við værum að veiða norður á Skagaheiði. Svo nú erum við vinir sagði hún.“

Eysteinn segir að fjölskyldan hafi mjög gaman af að veiða. Þau séu í veiðifélagi sem veiði á Skagaheiði. Félagið hafi byggt veiðihús á heiðinni og þau hafi aðgang að því tvisvar sinnum á hverju sumri. Í viku í senn. Það séu dýrðartímar.

Bókin sem kemur aldrei út

„Við Erla höfum gaman að því að ferðast og höfum farið víða í gegnum tíðina. Við erum samhent í því sem við tökum okkur fyrir hendur þó áhugamálin séu á stundum ólík. Svo hef ég ferðast einn, fór til Kína fyrir nokkru síðan og var svo í Víetnam í mánuð fyrir nokkrum árum. Þar eyddi ég tímanum í að skrifa bók en hún kemur sennilega aldrei út, mér finnst hún ekki nógu og góð. Annars var þessi tími sem ég dvaldi þar mjög áhugaverður. Ég bjó á fjölskylduhóteli í Saigon. Svo kynntist ég fjölskyldu þarna, afinn hafði barist í Víetnamstríðinu, bæði  fyrir suðurvíétnama og svo fyrir norðurvíétnama. Hann var kallaður í her sunnanmanna en ákvað að gerast liðhlaupi og fór að berjast með uppreisnarmönnum að norðan. Ég kynntist engum í Víetnam sem hafði ekki misst einhvern í stríðinu. Það er tvennt sem ég sækist einkum eftir þegar ég er á ferðalögum annað er að kynnast venjulegu fólki sem býr í venjulegum löndum og hitt er að skoða listasöfn.“

Eysteinn segir að brátt leggi þau hjónin upp í langferð því þau séu á leið til Abu Dabi. „Dóttir okkar og tengdasonur bjóða okkur með í tveggja vikna ferð. Eitt barnabarnið er að fara að keppa á Special Olympics og við ætlum að fylgjast með honum. Lífið er svo sannarlega skemmtilegt,“ bætir hann við.

Hjartaáfall ekki nauðsynlegt

Einu sinni í viku hittist gönguhópur sem Eysteinn er félagi í. „Ég var í héraðsskólanum í Reykholti 1956 til 1959. Einn af skólafélögunum var meira drífandi en aðrir og hann beitti sér fyrir því að við hittumst alltaf á fimm ára fresti í Reykholti, við héldum því alltaf einhverju sambandi þessir gömlu skólafélagar. En svo fékk einn okkar skólabræðra hjartaáfall og læknirinn hans sagði honum að hann ætti að fara út að ganga sér til heilsubótar. Honum fannst leiðinlegt að ganga einn og hafði samband við einn af skólafélögunum sem líka var veill fyrir hjarta, svo bættist sá þriðji í hópinn. Konan mín stakk svo upp á því að ég færi að ganga með þeim af því það væri svo gaman hjá þeim og þá var ákveðið að hjartaáfall væri ekki lengur nauðsynlegt til að fá að vera með, það væri nóg að geta fengið hjartaáfall einhvern tímann í framtíðinni. En það hefur fjölgað í hópnum með tímanum og nú eru þetta bæði strákar og stelpur sem ganga saman. Þegar við erum búin að ganga drekkum við svo kaffi saman. Þetta er mjög skemmtilegur félagsskapur.“

Einangrun á Hornbjargi

Á Hornbjargi.

Eysteinn hefur búið víða um land en nú er hann fluttur til Hafnarfjarðar og líkar vel. Einn forvitnilegasti staðurinn sem hann hefur búið á er Hornbjargsviti. „Mér bauðst að leysa vitavörðinn þar af í eitt ár og við ákváðum að slá til. Þetta var ævintýralegur tími við fluttum þangað með börnin sem þá voru ung að árum. Þetta var mikil einangrun en þrátt fyrir það er allt fullt af lífi þarna. Náttúran er stórkostleg og það er alltaf eitthvað að gerast í náttúrunni.  Maður kynntist sjálfum sér og fjölskyldunni upp á nýtt. Krökkunum líkaði afskaplega vel þarna og þegar við vorum flutt til byggða aftur voru þau alltaf að spyrja hvort við gætum ekki farið aftur í vitann.  Ég held að skýringin á því hafi verið sú að þar höfðu þau okkur foreldra sína hjá sér allan sólarhringinn og það fannst þeim gott.  Mörgum árum eftir að við vorum á Hornbjargi skolaði okkur til Hafnarfjarðar. Lífið er tómar tilviljanir. Þegar við fluttum frá Hornafirði bjuggum við um tíma í Reykjavík og eignuðumst okkar eigið húsnæði þar. En hjá okkur eins og öðrum þá fer fyrri hluti fullorðinsáranna í að stækka við sig en svo þarf maður að minnka við sig aftur. Þegar kom að því hjá okkur var ein dóttirin flutt í Hafnarfjörð og vildi endilega að við kæmum þangað líka og það varð úr. Síðan við fluttum eru þrjár dætur okkar fluttar í Hafnarfjörð,“ segir Eysteinn að lokum.

 

Sjá ennfremur um Opna Listaháskólann.

 

Ritstjórn október 12, 2018 10:21