Hrefna Ólafsdóttir, sérfræðingur í meðferðarfræðum og lektor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, smitaðist ung af ferðabakteríunni. Hún naut þess að geta ferðast sem barn með ættingjum sem höfðu ferðalög að áhugamáli. Fyrst var ferðast innanlands og ævintýraleg náttúra heimalandsins könnuð og síðar til útlanda þar sem ævintýrin biðu Hrefnu líka. Eftir að hún varð fullorðin hefur hún að mestu skipulagt sínar ferðir sjálf en það hefur orðið sífellt auðveldara með tilkomu Internetsins. Hrefna kann alveg að meta rólegheit við sundlaugarbakka þegar það á við en kýs frekar að upplifa ævintýri á slóðum sem hún hefur einungis kynnst af bókum eða úr kvikmyndum
Bjó í þremur löndum fyrir utan Ísland
Hrefna var við nám í New York borg í Bandaríkjunum og í Lundi í Svíþjóð en bjó einnig á Spáni og alls staðar nýtti hún tækifærin til að ferðast. Þegar upp er staðið hefur Hrefna ferðast í flestum heimsálfunum og á erfitt með að nefna einn stað í heiminum fram yfir annan en hefur komist að því að allir hafa þeir sinn sjarma. Í fyrsta skipti sem Hrefna fór til útlanda hafði hún fengið farmiða til bróður síns í fermingargjöf en hann var þá við nám í Washington borg í Bandaríkjunum. Bróðir hennar gerði henni kleift að upplifa mikil ævintýri á þessum framandi stað, m.a. að fara á tónleika með Rolling Stones og Dave Clark Five sem var meira en unglingur gat látið sig dreyma um í þá daga. Þetta endurtók Hrefna síðan þegar sonarsonur hennar fermdist í vor og gaf honum ferð á tónleika með Jay Z og Beyoncé í Berlín og fermingargjöfin sló í gegn. Þau fóru tvö í þá ævintýraferð.
Tvær ferðir standa upp úr
Hrefna nefnir tvær ferðir sem standa upp úr sem sérlega vel heppnaðar. Fyrst nefnir hún ferð til Tælands sem hún fór í með syni sínum og fjölskyldu hans fyrir nokkru og svo nefnir hún ferð sem hún fór til Jórdaníu með tveimur vinkonum sínum. “Ég gæti alveg hugsað mér að fara á þessa staði aftur,” segir Hrefna. “Náttúrufegurðin í Tælandi er geysilega mikil og öðruvísi en annars staðar. Sú ferð var vel plönuð fyrirfram þar sem við vorum með börn með okkur og allir nutu sín vel. Í Jórdaníuferðinni vorum við hins vegar búnar að skipuleggja allt sjálfar fyrirfram. Við vorum svo heppnar að fá mjög góðan heimamann til að aka okkur allt sem við þurftum að fara en það hafði án efa áhrif á það hversu vel heppnuð ferðin var.
Í Jórdaníu er mikil náttúrufegurð en líka gífurlega merkilegar, gamlar fornminjar sem var óviðjafnanlega merkilegt að skoða.”
Petra – Eitt af undrum veraldar
Í Jórdaníu er eitt af undrum veraldar en það er forn borg að mestu höggvin inn í hamra og ber nafnið Petra. “Þarna er svo mikil og gömul saga sem ég hafði bara lesið um enþarna fengum við að skoða dýrðina.” Þær höfðu gist á hóteli í Amman áður en Petra var skoðuð og fóru á sögulegar slóðir alveg aftur til tíma Krists. Þaðan fóru þær suður með Jórdaníu á leið sinni til Petru, alveg niður að Rauðahafi og fóru í þjóðgarða á leiðinni sem eru merkileg náttúruverndarsvæði. Þegar til Petru kom sáu þær svo hvernig Bedúínarnir bjuggu til forna í hellum sem þeir höfðu hoggið híbýli sín og ýmsar lágmyndir í. “Tilfinningin var eins og að ganga inn í ótrúlega veröld langt aftur í tímann. Og þarna voru Bedúínar á ösnum að leiðsegja sögusólgnum ferðamönnum. Þar fer maður um gangandi, á ösnum, úlföldum eða hestum sem gerði upplifunina mjög sterka.”
Engin hætta búin
Jórdaníuferðin var farin fyrir þremur árum og Hrefna segir að ferðamenn hafi verið mjög fáir í Jórdaníu á þeim tíma enda álagið á svæðinu mikið þótt ekki hafi verið stríð á þessum slóðum. Flóttamannastraumurinn hafi hins vegar þegar verið farinn af stað frá Sýrlandi og flætt inn í Jórdaníu. Í Amman hafi þær séð brynvarða bíla þar sem vopnaðir hermenn fóru um.
Önnur þeirra sem ferðuðust með Hrefnu til Jórdaníu starfaði í Bagdad og þangað hafði Hrefna ætlað að fara í heimsókn. Ástandið þar var þá
þannig þar að þangað hafi ekki verið hægt að fara. Þess vega hafi þær hist í Jórdaníu þangað sem starfsmenn á stríðshrjáðum svæðum fóru gjarnan til að hvílast að sögn Hrefnu.
Þær vinkonurnar voru búnar að rannsaka áður en þær lögðu í hann hvar væri best að gista og fundu t.d. gistiheimili utan í klettunum rétt við Petru til að þurfa ekki að ferðast
langa leið að innganginum í þessa fornu borg.
Gistu í tjöldum í eyðimörkinni
Þær vinkonurnar ferðuðust um eyðimörkina á úlföldum eða í bílum og gistu í tjöldum í tvær nætur. “Við upplifðum þessa náttúrutengingu mjög sterkt sem er sólarupprásin og sólarlagið og stjörnubjarti himininn.” Það er eitt af því sem Hrefna segist aðeins hafa lesið um eða séð í bíómyndum. Kvikmyndin um Indiana Jones hafi til dæmis verið mynduð á þeim slóðum sem þær fóru um og þær hafi allar séð á sínum tíma. Hrefna segir að ævintýrið hafi orðið enn sterkara fyrir bragðið.
Enduðu ferðina á lúxushóteli
Hrefna og vinkonur hennar enduðu Jórdaníuferðina á lúxushóteli þar sem var allt til alls og nutu þess eftir að hafa líka gist við
aðrar og frumstæðari aðstæður.