Skóburstarinn

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar

Nú á þessum dapurlegu tímum er ekki úr vegi að leggja til hliðar alvarlegar hugleiðingar um lífið og tilveruna og taka upp léttara hjal. Ég hef á starfsævi minni þurft að ferðast mikið. Ýmislegt skemmtilegt hefur komið fyrir á þessum ferðalögum. Hér er ein saga.

Eftir að ég kom frá framhaldsnámi í Bretlandi árið 1974 hóf ég störf sem framkvæmdastjóri Hildu hf. sem flutti út ullarvörur mest til Bandaríkjanna og Kanada og einnig til Evrópu. Fyrirtækið var í eigu hjónanna Tómasar og Hönnu Holton. Fyrri hluta ársins voru farnar söluferðir og á haustin ferðir þar sem haldnar voru kynningar fyrir afgreiðslufólk og viðskiptavini í stórverslunum. Fór ég víða um Bandaríkin, Kanada og Evrópu á þessum árum oft með Tómasi Holton en stundum einn. Ferðast var borg úr borg og dvalið einn dag á hverjum stað. Elín kona mín kom stundum með mér í kynnisferðunum og klæddist hún þá jafnan íslenskum búningi í verslunarkynningum.

Í einni vetrarferðinni um Bandaríkin í kringum 1980 var einn áfangastaðurinn Salt Lake City. Ég var einn á ferð. Eftir að hafa haldið fund með innkaupastjórum stórverslunarinnar á staðnum, sýnt þeim sýnishorn af vörulínunni og tekið niður pantanir langaði mig til þess að sjá eitthvað af þessari frægu borg þótt tíminn væri stuttur og liðið á daginn. Ég hljóp um miðborgina og tókst að komast í Tabernacle hofið og heyra í einu frægasta og stærsta orgeli í heimi, en einhver var að æfa sig á það. Svo náði ég að skoða Beehiver house þar sem annar í röðinni af leiðtogum Mormóna hreyfingarinnar Brigham Young bjó með konum sínum. Snjór var yfir öllu og sem vænta mátti var salt borið á göturnar í Saltvatnsborg. Þegar ég kom á hótelið voru skórnir mínir heldur illa útleiknir eftir hlaup um saltslegnar göturnar, rennandi blautir og vel saltpæklaðir.

Áður en ég fór að sofa um kvöldið velti ég því fyrir mér að setja skóna út á gang en á þessum tíma var algengt að hótel byðu upp á þá þjónustu að bursta skó sem settir voru út fyrir herbergisdyrnar. Ekki var vanþörf á hirðingu skónna en ég var minnugur þess sem einn kunningi minn sagði mér þegar hann hafði verið á ferðalagi í Bandaríkjunum. Síðustu nóttina áður en hann fór heim til Íslands setti hann skóna sína út fyrir dyr til burstunar. Honum brá í brún um morguninn þegar engir voru skórnir og starfsfólkið í afgreiðslunni gat ekki hjálpað honum. Maðurinn sagði að sem betur fór hafi hann haft þykka íslenska ullarsokka í farangrinum. Enginn tími var til að fara í verslun til skókaupa. Þetta hafi verið í eina skiptið sem hann hafi læðst inn til Íslands á sokkaleistunum.

Um morguninn þegar ég vaknaði og leit á skóna mína brá mér. Skórnir voru orðnir þurrir en litu hræðilega út, marglitir úr saltpæklinum og það sem verra var þeir litu út eins og skór komnir úr ævintýrinu Þúsund og einni nótt. Á þessum tíma voru támjóir skór í tísku og tærnar höfðu hringað sig upp á við. Mér leist ekki á blikuna að mæta á innkaupafund í næstu borg og ákvað að hraða mér út á flugvöll í von um að fá þjónustu skóburstara.

Það stóð heima. Á flugvellinum var skóburstari og langur bekkur sæta þar sem maður dökkur yfirlitum afgreiddi menn einn eftir annan. Annar maður tók við greiðslu og nýr viðskiptavinur settist í autt sæti. Mikill kraftur var í skóburstaranum, svitinn bogaði af honum og það kjaftaði á honum hver tuska eins og sagt er, á meðan hann burstaði. Ég settist í autt sæti á miðjum bekknum. Þegar skóburstarinn kom að mér og leit á skóna varð hann gjörsamlega orðlaus og honum féllust algjörlega hendur. Eftir stutta stund hóf hann burstunina af mikilli fagmennsku, hreinsaði og bar á feiti. Hann spurði mig hvaðan ég væri og ég sagði honum frá Íslandi sem hann hafði aldrei heyrt um. Ýmislegt ræddum við meðan burstunin stóð yfir en hún tók nokkurn tíma. Þegar kom að lokum þagði skóburstarinn nokkra stund og sagði síðan: „Eru engir skóburstarar til á þessu Íslandi?“ Hvort skóburstarinn var að hugsa um hve þetta Ísland væri menningarsnautt að hafa ekki skóburstara eða hann velti fyrir sér hvort á Íslandi væri atvinnutækifæri fyrir hann veit ég ekki. Hins vegar voru skórnir sem nýir að meðferðinni lokinni. Ég hugsaði með þakklæti til skóburstarans það sem eftir var ferðarinnar.

 

Þráinn Þorvaldsson maí 11, 2020 08:10