Þótt lítið sé vitað um daglegt líf steinaldarmanna er ábyggilega óhætt að gera því skóna að þeir hafi snemma farið að gera upp á milli klæðnaðar. Sennilega hefur þá ráðið mestu að þau skinn sem þeir klæddust sögðu til um dugnað og lagni við veiðina. Hégómagirnin er einfaldlega inngróinn í mannskepnuna og engum sama hvernig hann lítur út. Í dag er tískuvöruiðnaðurinn meðal arðbærustu og öruggustu fjárfestinga sem völ er á. Þessi duttlungafulla dægurfluga á ótrúlega sterk ítök í bæði mönnum og konum en sú sem hvað föstustum tökum nær er skótískan.
Þegar fyrstu Vesturlandabúarnir hófu ferðir til Kína og Indlands urðu þeir undrandi á þeirri íhaldssemi sem ríkti í klæðaburði þar en jafnframt heillaðir af þeim einstöku efnum sem þar var að finna. Kublai Khan Mongólíukeisari klæddist silki og hneppti að sér skyrtum sínum og kápum en þá voru hnappar óþekktir í Evrópu. Þar var fötum haldið saman með beltum og reimum en kínversku lykkjurnar skrautlegu og litlu hnapparnir sem þeim var krækt aftur með urðu fljótt vinsæl viðbót.
Hnapparnir eru ekki það eina sem barst frá Mongólíu til Vesturlanda. Mongólar voru snjallir reiðmenn og til að halda fótunum betur í ístaðinu á þeysireið höfðu þeir þróað hæla undir skó. Aðferðin við að beygja og aðlaga sólann að hælnum varð fljótt töm um skósmiðum við hirðir evrópskra fyrirmanna og hirðdömur og -herrar nutu þess að geta hækkað sig ögn á dansgólfinu. Raunar er ekki alveg víst að þessi skósmíðatækni hafi borist með Marco Polo til Ítalíu margir sagnfræðingar halda því fram að tískan hafi einfaldlega heimtað að konur væru ögn hærri og skósmiðirnir því einfaldlega þurft að finna leiðir til að hækka skóna.
Að snúa sig á hæl
Fram að þeim tíma gengu menn á flatbotna skóm eða með örlítiið þykkari sóla aftan á fætinum en að framan. Þykktinni náðu menn fram með því að leggja nokkuð fleiri lög af leðri frá miðju sólans og aftur úr. Til þess að sóli geti borið hæl þarf að sérstyrkja hann í miðjunni annars er hætta á að hann hrynji. Í upphafi var gjarnan notaður til þess trébútur eða þykkt leður en nú á dögum er stálbiti. Rómverjar höfðu reyndar búið til slíka styrktarhluta lengi áður en hælarnir komust í tísku en tilgangur þeirra var að koma í veg fyrir að sólinn verptist og yndi upp á sig heldur aðlöguðust lagi fótanna. Kannski er þess vegna ekki undarlegt til þess að hugsa að fyrstu hælaháu skórnir sem þjónuðu eigendum sínum í Feneyjum á fjórtándu öld buðu eingöngu upp á tveggja til tveggja og hálfs sentimetra hækkun.
Hælaskórnir vour kallaðir chopines og fljótlega breiddist þessi tíska út um alla Evrópu. Korksólar fylgdu í kjölfar tréhælanna og hælarnir hækkuðu. Í þá daga höfðu menn ekki lag á að sauma hælinn við sólann þannig að vel væri svo hælinn dinglaði laus frá sólanum að aftan. Sennilega hefur ekki verið þægilegt að fóta sig á slíkum skóm en hvenær hefur mannfólkið tekið þægindin fram yfir tískuna? Á meðan gengu Íslendingar enn á sauðskinnskóm hvort sem ferðast var tún og engi eða fjöll og firnindi.
Pinnahælar, diskóskór og stígvél
Hælar á skóm þróuðust hratt og urðu fljótlega til af öllum stærðum og gerðum. Menn fundu leið til að sauma hælinn fastan, klæða hann með leðri eða taui og breyta lagi hans. Og líkt og við öll þekkjum hafa skipst á kínahælar, pinnahælar, fylltir hælar, þykkir botnar og flatbotna skór æ síðan. Skóhönnuðir fóru fljótlega að láta til sín taka og Ítalir náðu mikilli færni í skógerð. Í dag eru það Manolo Blahnik, Jimmy Choo, Anne Klein, Steve Weitzman Cesare Paciotti og margir fleiri hafa gert garðinn frægan og hannað óviðjafnanlega skó. Hjá helstu tískuhúsum eru að sjálfsögðu starfandi skóhönnuðir og Prada, Gucci, Louis Vuitton, Versace og Fendi bjóða upp á eigin skólínu.
Hinir undarlegu duttlungar tískunnar hafa einnig séð til þess að alls konar skór koma og fara úr tísku með reglulegu millibili. Há leðurstígvél, einna líkust reiðstígvélum fóru að ryðja sér til rúms á sjöunda áratug síðustu aldar, kúrrekastígvél og meira að segja gúmmístígvél hafa orðið tískufyrirbæri. Áhugaverðasta skótískan var án efa diskóskórnir sem voru með þykkum sóla og háum hæl. Á þessu dönsuðu menn með meiri tilþrifum en lengi höfðu sést á dansgólfum Vesturlanda og sennilega muna allir, sem á annað borð hafa séð þá kvikmynd, eftir skónum sem melludólgurinn var í I’m gonna get you sucka. Ekki var nóg með að skórnir væru óvenjulega háir heldur voru þeir úr glæru plasti og í þykkum sólunum syntu gullfiskar.
Líklega hefur aldrei í sögunni verið meira úrval skóm til í verslunnum en einmitt nú. Á sínum tíma voru yfirstéttakonur gjarnan í háhæluðum skóm, skeyttum perlum og glitrandi steinum. Sú tíska dúkkar upp af og til og gengur sannarlega aftur í glimmerskóm þeim sem sjást í búðum nú. Já, skótískan hefur átt sínar hæðir og lægðir líkt og önnur fyrirbæri sem sköpuð eru af mönnum. Að undanförnu hefur nánast allt verið í tísku og támjóir, tábreiðir, háir og lágir skór sjást á götunum rétt eins og engin sérstök tíska ráði. Íþróttaskór hafa þó verið óvenjulega áberandi. Þeir eru ekki lengur notaðir eingöngu til að hlaupa á eða styrkja fótinn meðan sparkað er í bolta. Það þykir ekkert tiltökumál að mæta í kirkju eða veislu í íþróttaskóm og strigaskór við pils eru smart en ekki óviðeigandi. Sennilega ber að fagna þessu því íþróttaskór fara vel með fæturnar og þægilegir að ganga á þeim. Hælskór hverfa sennilega aldrei úr tísku en þeir geta verið hættulegir og alls ekki hollt fyrir líkamann að klæðast þeim. Nú svo geta menn fylgt fordæmi bónda nokkurs er komst í fréttirnar fyrir nokkru en sá gengur til allra verka úti jafnt sem inni berfættur og vert að minna á að Abebe Bikila komst alla leið á ólympíuleikana berfættur og hefur aldrei hlaupið í skóm.