Tengdar greinar

Slæm heilsa og neikvætt viðhorf tengjast hættu á einmanaleika

Það er meira vitað um afleiðingar þess að vera einmana, en orsakir. Þess vegna ákvað Heiðrún Una Unnsteinsdóttir í samráði við leiðbeinanda sinn, Hörpu Lind Jónsdóttur lektor við Háskóla Íslands, að skoða áhættuþætti einmanaleika hjá eldra fólki. Rannsóknin er meistaraverkefni hennar í félagslegri sálfræði.

Verri heilsa eykur hættu á einmanaleika

Heiðrún notaði gögn úr rannsókn frá 2016, um hagi og líðan aldraðra sem grunn til að skoða áhættuþætti einmanaleika. Niðurstöðurnar sýndu að 35% eldra fólks var félagslega einangrað, en 17% voru einmana. Verri heilsa og þörf fyrir aðstoð tengist hættu á einmanaleika og einangrun, svo og lítil hreyfing. Niðurstöður sýndu einnig að eldra fólk sem taldi sig hafa slæmt aðgengi að heilbrigðisþjónustu og upplifði neikvætt viðhorf til sín í samfélaginu, átti frekar á hættu að vera einmana, en ekki endilega félagslega einangrað.

Eru neikvæðir meira einmana?

Heiðrún segir að tengslin milli verri heilsu og einangrunar fólks hafi ekki komið á óvart, þau hafi komið fram í erlendum könnunum. „ En mér fundust áhugaverð tengslin milli neikvæðra viðhorfa og einmanaleika. En það er erfitt að segja til um hvort kemur á undan, að neikvæð viðhorf komi til vegna einmanaleika eða að fólk verði einmana þegar það upplifir neikvæð viðhorf í sinn garð frá samfélaginu. Til að fá svar við því þyrfi að kanna þetta yfir lengra tímabil“, segir hún.

Þarf að huga að einmana fólki í öldrunarþjónustunni

Þar sem niðurstöðurnar sýna að fólk sem er slæmt til heilsunnar og háð aðstoð í daglegu lífi er í mestri hættu á að verða einmana, segir Heiðrún, að unnt sé að taka það til greina í allri þjónustu við eldra fólk. „Þeir sem veita þjónustuna geta náð til hópsins sem er í mestri áhættu og gert honum kleift að viðhalda virkni. Hjálpað fólki að sinna sínum áhugamálum og gera það sem þau voru vön að gera áður eins og hægt er. Fái fólk ekki aðstoð til þess, gæti það ýtt undir einmanaleika“.

Meirihluti eldra fólks er ekki einmana

Heiðrún ítrekar að það megi ekki halda á lofti þeirri staðalímynd að allir sem eldast séu einmana. „Það er nefnilega jákvætt að fleiri í þessum aldurshópi skuli ekki vera einmana. Það er alvarlegt að 17% séu einmana, en 83% viðmælenda sögðust aldrei eða sjaldan einmana og það þarf að skoða málið í heild sinni“, segir Heiðrún sem starfar á skrifstofu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar að árangurs- og gæðaeftirliti.

 

 

 

 

Ritstjórn júlí 19, 2022 07:21