Bestu kvikmyndirnar fyrir fullorðna

Samtök eftirlaunafólks í Bandaríkjunum AARP veittu nýlega viðurkenningar sínar fyrir bestu kvikmyndirnar fyrir eldra fólk, eða Grownups Awards.

Kvikmyndin Green Book  með þeim Mahershala Ali og Viggo Mortenssen í aðalhlutverkum var valin besta kvikmyndin fyrir fullorðna. Leikstjóri myndarinnar er Peter Farelly en hún fjallar um jassgeggjarann Don Shirley sem ræður næturklúbbseiganda sem bílstjóra og lífvörð á ferðalagi um Suðurríkin. Þeir verða góðir vinir þrátt fyrir að vera af sitt hvorum kynþættinum og koma úr mismunandi menningarheimum. Á vef AARP segir að þetta sé einnig „ feel good movie“ ársins. Green Book er sýnd í Sambíóunum Kringlunni.

Glen Close var valin besta leikkonan fyrir hlutverk sitt í myndinni The Wife, sem núna er einnig sýnd í Sambíóunum Kringlunni. Glen er 71 árs og hefur sjö sinnum verið tilnefnd til Óskarsverðlaunanna. Hún leikur í myndinni eiginkonu manns,  sem er Nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum.

Viggo Mortensen

Viggo Mortensen var valinn besti karlleikari í aðalhlutverki fyrir leik sinn í myndinni Green Book. Mortensen sem er sextugur, sagði að það myndi hafa verið mun erfiðara að leika hlutverkið ungur. „Ég held að þú þurfir að hafa náð ákveðnum aldri.  Menn læra tvímælalaust með aldrinum“, segir hann.

Judi Dench fékk verðlaun fyrir bestu frammistöðuna í aukahlutverki í myndinni All Is True í leikstjórn Kenneths Branagh. Hún lék í mörgum Shakespeare verkum á árum áður, en varð kvikmyndastjarna rúmlega sextug. Nú er hún 84 ára og stjarna hennar hefur aldrei skinið skærar en í hlutverki eiginkonu Shakespeares, segir á AARP vefnum.

Ridhard E Grant fékk verðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki í myndinni Can You Ever Forgive Me? Í leikstjórn Marielle Heller. Richard hefur leikið í kvikmyndum eftir Francis Ford Coppola og Robert Altman og í seríum á borð við Downton Abbey og Star Wars, en í þessari mynd slær hann almennilega í gegn, á sextugasta og öðru aldursári. Myndin er komin á „VOD-ið“ hjá Símanum.

Eldri hjónin í myndinni What they had

Besta ástarsagan fyrir fullorðna, var valin myndin What They Had í leikstjórn Elizabeth Chomko. Í þessari mynd greinir frá tveimur hjónaböndum, annars vegar slæmu hjónabandi ungrar konu sem leikin er af Hillary Swank og hins vegar ástríku hjónabandi móður hennar sem er komin með heilabilun. Þegar hún villist út á jólanótt, reynir unga konan að sannfæra föður sinn um að hún þurfi að fara á stofnun.

Shirley MacLaine var mjög ánægð með viðurkenninguna

Shirley MacLaine hlaut viðurkenningu fyrir langan leikferil sinn, en hún verður 85 ára í apríl næst komandi.  Shirley er ekki bara leikkona, hún er söngvari og dansari, aðgerðasinni og rithöfundur. Hún hefur leikið mörg eftirminnileg hlutverk um ævina og er margverðlaunuð.  Hún hefur fengið Óskarinn, Emmy verðlaunin og Golden Globes verðlaunin fyrir frammistöðu sína í áranna rás.

Á lista AARP yfir myndir fyrir fullorðna koma fleiri myndir við sögu og skulu hér nefndar þrjár þeirra.

Kvikmyndin Roma eftir Alfonso Cuarón, sem segir frá barnfóstrunni sem annaðist hann og bjó alla tíð á bernskuheimili hans.

Bohemian Rhapsody, myndin um Freddie Mercury og hljómsveitina The Queen,en það er Bryan Singer sem er leikstjóri myndarinnar.

A Star Is Born með Lady Gaga og Bradley Cooper. Í myndinni segir frá eldri tónlistarmanni sem mátti muna fífil sinn fegri. Hann er farinn að halla sér fullmikið af flöskunni, þegar hann hittir unga og upprennandi tónlistarkonu.

Ritstjórn febrúar 22, 2019 11:18