Söngur mállausa mannsins

 

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar

Um daginn sagði mér kona frá skemmtilegri lausn fyrir starfsfólk sem hlynnir að fólki sem er orðið heilabilað en það þekkir lítið til. Í Danmörku er á heimilum fyrir heilabilaða gjarnan sett fyrir ofan rúm viðkomandi vistmanns saga hans í stórum dráttum. Það er, hvar hann er fæddur, hvar hann ólst upp, hvaða menntun hann fékk, hvar hann vann og svo getið um fjölskylduaðstæður. Þetta er prentað á fallegan pappír, oft með myndum. Þetta gefur starfsmanninum góðar hugmyndir um umræðuefni sem eru heppileg.

Flestir muna sitthvað frá æskuárum sínum þótt skammtímaminnið sé farið að gefa sig. Þá er ekki ónýtt að geta byrjað samræður á einhverju sem tengist sveitinni eða bænum sem viðkomandi ólst upp í, eða þá að brydda upp á einhverju sem tengist atvinnu þeirri sem viðkomandi sinnti lengst af. Þannig má oft koma á innihaldsríkum samræðum við hinn heilabilaða, á þeim grundvelli sem hann stendur kannski nokkuð traustum fótum á.

Það er mikilvægt fyrir heilabilað fólk, eins og aðra, að hafa jákvæð samskipti við þá sem eru í umhverfi þess. Þótt að þessi lausn sé víst einkum notuð á sérstökum heimilum fyrir heilabilaða þá er þessi hugmynd vel nýtanleg í heimahúsum. En þá mætti kannski gera þetta öðruvísi. Segja söguna í máli og myndum eftir því sem þörf er á, til dæmis fyrir aðstoðarfólk sem kemur á heimilið eða þá gesti sem vilja heilsa upp á viðkomandi en þekkja hann ekki mikið.

Vel má vera að hér á landi séu heimili sem gera svona sögur í máli og myndum um vistmenn sína án þess að ég hafi heyrt um það. Ég hef þó ekki séð neitt slíkt þar sem ég hef komið og heilabilaðir búa.

Um tíma, nokkru eftir bankahrunið fór ég oft í heimsókn á heilabilunardeild og söng með vistfólkinu og sagði því ýmislegt. Einu sinni sagði ég þessu fólki frá því þegar skáld nokkurt sem frægt var á sínum tíma, dansaði af svo mikilli innlifun við unga stúlku á Akureyri að hann tók hana upp og varpaði henni ofan á stærstu trommuna. Af því varð heljarmikill hávaði og mikið hneyksli. Þá sneri ein í áheyrendahópnum sér að annarri og sagði: „Þetta er nú bara skemmtileg kona!“ Fólk er samt við sig, þótt það verði heilabilað. Það hefur gaman af að heyra sögur, ekki síður af mergjaðri tegundinni.

Söngur er líka mikilvægur fyrir heilabilaða. Einu sinni tók ég viðtal við mann sem hafði fengið heilablóðfall og gat ekki talað. Konan hans sagði að mestu sögu hans og svo spurði ég og hann skildi vel hvað ég sagði, gat kinkað kolli eða hrist höfuðið eftir því sem við átti. Í lok viðtalsins sagði kona mannsins mér að hann gæti sungið, hún færi oft með honum út að keyra og þá syngju þau saman. Hún spurði hvort ég vildi syngja með þeim hjónum. Ég sagði að auðvitað vildi ég það. Svo hófum við upp raust okkar og sungum saman: Í birkilaut hvíldi ég bakkanum á…

Það var næstum eins og kraftaverk að heyra manninn, sem ekki hafði lengur mál, syngja skírt og greinilega með hljómmikilli röddu þetta fallega ljóð Steingríms Thorsteinssonar; Draumur hjarðsveinsins. Mér er þessi samsöngur ógleymanlegur.

Þau kynni sem ég hef haft af heilabiluðu fólki hafa fært mér heim sanninn um að það getur rætt um svo margt sem það áður þekkti og sungið fjölmörg ljóð sem það lærði á yngri árum. Heilinn í fólki er merkilegt fyrirbrigði sem kemur oft á óvart. Og þó að fólk muni ekki lengur neitt sem gerist frá degi til dags í nútímanum þá á það oft geymda fjársjóði í leynum hugans.

 

Guðrún Guðlaugsdóttir desember 10, 2015 10:21