Ófæra regluþrælanna 

 

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar

gudrunsg@gamil.com

Nú þegar ástandið í þessu landi er orðið næstum því normalt (orð sem mamma mín notaði gjarnan) þá situr enn í mér þegar Vísindasiðanefnd vildi taka sér „eðlilegan tíma“ til að fjalla um það tilboð Kára Stefánssonar hjá Íslenskri erfðagreiningu að skima sem flesta Íslendinga fyrir kóvíd-19 veirunni.

Mér finnst reglufesta ágæt – svo langt sem hún nær. En ef hún fer fram úr sjálfri sér snýst hún gjarnan upp í andhverfu sína. Lífið sjálft er fullt af óreglu, ef svo má segja. Jörðin rífur sjálfa sig til dæmis á hol og spýr yfir sig eimyrju þótt henni mætti vel vera ljóst að slíkt tiltæki er andstætt loftslagsmarkmiðunum.

Við, sem höngum eins og hver önnur smádýr á yfirborði jarðarinnar, eigum mestalla okkar tilveru undir því að skipuleggja okkur. Þess vegna njörvum við sem allra flest niður í lög, reglur og hefðir. Svo gerist eitthvað sem ryður öllu þess um koll – hið óvænta tekur völdin og við hrökklumst út í horn með alla okkar venjubundnu lífshætti. Þannig fór fyrir hinni ágætu Vísindasiðanefnd, hún hélt sínu striki þótt strikið leiddi þarna út í ófæru. Vissulega sáu nefndarmenn að sér og gerðu allt sem þeir gátu til að liðka fyrir – þegar þeir áttuðu sig á að reglurnar áttu ekki við í þessu undarlega ástandi sem kóvíddæmið hafði skapað.

Fjölmargar stéttir urðu að bregða út af vana sínum og vinnureglum á þessum tíma. Sannarlega hjúkrunarfólkið – en líka til dæmis kennarar. Tilvera þeirra breyttist aldeilis og eins og fleiri sem unnu „framlínustörfin“ settu þeir reglurnar til hliðar og börðust hinni góðu baráttu.

Mér kom því á óvart þegar kona, kennari í grunnskóla, sagði mér um daginn að hún hefði lagt fram reikninga vegna tannlæknakostnaðar sem Sjúkrasjóður Kennarasambands Íslands greiðir að hluta en innan ákveðins tíma. Nú var það þannig að viðkomandi kennari komst ekki til tannlæknis á réttum tíma vegna þess að tannlæknastofur voru öllum lokaðar nema í ítrustu neyð. Kennarinn komst því ekki vegna kóvídbannsins til tannlæknis innan þess tímaramma sem hann ella hefði gert hefði bannið ekki gilt.

Sjúkrasjóður þessi hefur sínar reglur og neitað var þverlega að greiða konunni hlutdeild í tannlæknakostnaðinum þar sem vika væri liðin umfram hinn gilda tímaramma. „Þetta eru bara reglur,“ sagði viðkomandi starfsmaður sjúkrasjóðsins. Kennarinn sem um ræðir benti á að hann hefði ekki skorast undan að bregða út af sínum venjubundnu starfsháttum og reglum þegar um líf og dauða var að tefla vegna faraldursins.  Hann benti á að hefðu tannlæknastofur ekki lokað vegna kovídveikinnar þá hefði hann vissulega verið innan tímarammans. En starfsmaður sjúkrasjóðs kennara sagði: „Því miður eru engar undanþágur á okkar reglum.“

Þannig má sjá að sumum er gert að brjóta allar reglur og venjur og leggja sig í hættu þegar mikið liggur við. En „regluþrælarnir“ virðast stundum ekki átta sig á því óréttlæti sem kann að skapast við svo óvenjulegar aðstæður og geta því ekki komist „út úr kassanum“. Það er aldrei gott þegar „sumir eru jafnari en aðrir“.

 

Guðrún Guðlaugsdóttir júní 27, 2020 21:45