Hvar er fjórða barnið?

Guðrún GuðlaugsdóttirGuðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar

gudrunsg@gmail.com

 

„Þegar ég verð áttatíu og sex ára fer ég fyrst að lifa. Þá mun ég kynnast tvítugum manni og við tökum saman og eigum hamingjusamt samlíf,“ sagði kona í rauðri dragt, þar sem ég sat við hlið hennar í sófa í hátíðarlegri móttöku.

„Þegar ég var tuttugu og eins árs flugfreyja sagði landsþekkt spákona mér þetta,“ bætti hún við og brosti blítt.

Við sem vorum í kring horfðum hissa á hana.

„Mér fannst þetta auðvitað voðalega ótrúlegt þá, en núna þá er ég farin að hlakka mikið til. Ég er jú orðin sextíu og sex ára. Sem sagt; þessi maður sem ég á að kynnast þegar ég verð áttatíu og sex ára er að fæðast á þessu ári.“

„Ég hef nú aldrei heyrt annan eins spádóm,“ sagði ein konan. „Varstu ekki hissa?“

„Jú, auðvitað var ég hissa, að þurfa að bíða fram á elliár til að kynnast stóru ástinni, ekki síst af því að maðurinn á að vera svona ungur. Þetta verður þá sextíu og sex ára aldursmunur. Þetta verður fjör,“ sagði sú í rauðu dragtinn og saup á sódavatnsglasi sínu.

Þessi sem sagt fjörlegi spádómur leiddi huga minn að löngun ungs fólks til þess að fá að vita eitthvað um framtíð sína. Þótt margt hafi breyst í samfélaginu hefur þetta ekki breyst. Ungt fólk vill reyna að skyggnast inn í framtíð sína.

Bollaspádómar eru ein þeirra leiða sem notaðar eru til að spá um framtíðina. Ég átti góða vinkonu sem var áratugum eldri en ég. Hún var lunkin bollaspákona. Oft sat ég við eldhúsborðið hennar og hlustaði á hvernig hún las úr hinum mismunandi blettum og rákum í bollanum mínum. Ég drakk ekki kaffi á þeim tíma – nema kolsvarta kaffið í spábollanum svo ég gæti fengið spádóm.

Eftir að ég varð sjálf eldri hef ég talsvert fengist við að spá í bolla fyrir ungar konur og jafnvel menn í nærumhverfinum. Nú er það ég sem les úr blettum og rákum fyrir áhugasamt ungt fólk sem situr forvitið við eldhúsborðið mitt.

Þetta eru yndislegar stundir og góð leið til þess að ná sambandi við þá yngri í umhverfinu, fá að vita hvað þeir eru að hugsa og hvert hugur þeirra stefnir til framtíðar.

En maður verður að vanda sig. Fyrir nokkrum mánuðum spáði ég fyrir ungri stúlku að hún myndi gifta sig í kirkju með viðhöfn og eignast fjögur börn, gæfan myndi fylgja henni og svo sá ég líka myndarleg „peningabrjóst“ sem eru dökk þúfulíki með litlum toppi á. Slíkt er fyrirheit um peninga. Beinar rákir með góðu dökku höfði merkja fólk. Sé um að ræða rák með höfði sem er í 45 prósent vinkli merkir það ófríska konu.

Jæja. Fyrir nokkrum dögum kom þessi sama stelpa til mín og vildi fá spádóm. Ég útbjó sterkt kaffi, hún drakk það og velt bollanum vel milli handanna, blés svo í hann í kross og sneri honum þrisvar yfir höfði sér og setti hann svo á ofninn. Við spjölluðum svo glaðlega saman ásamt einni dóttur minni og biðum eftir að bollinn yrði þurr.

Þegar bollinn var loksins orðinn þurr tók ég að spá. Þá fór nú að slá í bakseglin. Ég sagði henni að ég sæi þrjú börn.

„Hvað? Hvar er fjórða barnið?“ sagði stúlkan hneyksluð.

„Eee – það er kannski bara ekki fætt,“ sagði ég í tilraun til snarreddingar.

„Og hvar er kirkjan?“ sagði stúlkan ögrandi.

„Ég sé því miður ekki kirkjuna núna. Sennilega er þetta þegar þú ert búin að gifta þig og eignast þrjú börn og eitt er ófætt,“ svaraði ég og var nú komin í vörn.

„Þetta sætti ég mig ekki við. Þú getur ekki breytt spádómnum svona,“ sagði stúlkan og stóð upp með nokkrum „pilsaþyt“.

Þetta mál bjargaðist með lagni en breytir ekki því að gott er að leggja á minnið hvað maður sér í bollum hvers og eins. Það afstýrir vandræðum. Hins vegar erum við mjög góður vinkonur, ég og stúlkan og eiga spádómarnir sinn hlut í þeim góðu kynnum. Fyrir skömmu frétti ég að hún væri komin í samband. Of snemmt er að spá fyrir um kirkjuna og barneignirnar – en við skulum sjá til. Kannski lít ég í bolla fyrir hana hvað líður.

Fyrir okkur sem eldri eru er þetta skemmtileg aðferð til að halda sambandi við unga fólkið í nærumhverfinu. Til eru bækur um ýmiskonar leiðir til að spá, svo sem í bolla, spil og fleira. Þetta er fín aðferð til samvista. Alltaf verður þó að leggja ríka áherslu á að þetta sé aðeins tilraun og til skemmtunar. Spádómurinn sem ég minntist á í upphafi þessa pistils slær þó öllum spádómum við sem ég hef heyrt af um dagana – og átti þar þó hlut að máli sprenglærð og mjög þekkt spákona. Nú bíður konan í rauðu dragtinni þolinmóð og nær vonandi hinum eftirsótta áttatíu og sex ára aldri. Hún er þegar búin að hugsa sér út mannsefni. Það er drengur sem senn fæðist dóttur vinkonu hennar. Hún telur að það sé skemmtileg fjölskylda að tengjast og dóttir vinkonunnar verði hin ákjósanlegasta tengdamóðir.

 

Guðrún Guðlaugsdóttir júlí 1, 2019 07:56